16.05.1933
Neðri deild: 75. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2777 í B-deild Alþingistíðinda. (4501)

59. mál, stjórnarskipunarlög

Frsm. 2. minni hl. (Magnús Jónsson):

Hv. frsm. meiri hl. var enn að halda því fram, að Sjálfstæðisflokkurinn hefði upphaflega viljað leysa málið með því að skipta landinu í fá, stór kjördæmi. En Sjálfstfl. sem slíkur hefir ekkert látið uppi um það. Fyrir honum var það alltaf aðalatriðið að fá flokkslegt jafnrétti. Hitt hefir hann látið liggja milli hluta, á hvern hátt málið yrði leyst. Aftur er það satt, að margir voru þeirrar skoðunar, að þetta yrði erfitt að leysa nema með því að gera landið allt eitt kjördæmi, eða skipta því í fá, en stór kjördæmi. Á hinn bóginn tók Framsókn þegar þá stefnu, að fyrst og fremst yrði að vernda gömlu kjördæmaskipunina. Í Sjálfstfl. skiptust skoðanir manna um þetta tvennt. Í flokknum hafa margir þm. lagt áherzlu á það, að hinum einstöku kjördæmum yrði haldið. En svo þegar sjálfstæðismenn í milliþn. fundu óyggjandi leið til að sameina þetta tvennt og lögðu fram till. í þá átt, þá var sem áhugi framsóknarmanna fyrir hinum einstöku kjördæmum væri dofnaður. Þeir höfðu sagt, að til þess að ná flokkslegu réttlæti yrði að leggja niður kjördæmin, og þegar sjálfstæðismenn sýndu fram á það, að þess þyrfti ekki með til þess að skapa flokkslegt jafnrétti, þá var fitjað upp á því, að þm. yrði þá að fjölga upp í 100 eða meira. Og þegar sýnt var fram á, að þeir þyrftu samt ekki að vera fleiri en 50, þá var bara fitjað upp á fjarstæðunum og þjóðsögunum um bandalag okkar við jafnaðarmenn enn á ný.

Út af spurningu hv. þm., hvort Sjálfst.fl. skammist sín fyrir að hafa haldið fram skoðuninni um fá, stór kjördæmi, get ég tekið það fram, að ég er persónulega þeirrar skoðunar, að kjördæmi eigi að vera fá og stór, eins og Hannes Hafstein vildi. En ég er ekki einn um að ráða stefnu Sjálfstfl. í þessu, get enda sætt mig við að halda hinum einstöku kjördæmum, sem nú eru. Býst ég við, að hægt verði að samríma það hinu áhugamálinu. Um samkomulagið milli Sjálfstfl. og Alþ.fl. um að hafa fá kjördæmi og stór er það að segja, að sú saga hefir oft gengið aftur. Þessi saga er röng, og má hv. þm. gjarnan bera fyrir sig orð, sem maður úr sambandsstjórn Alþfl. kann að hafa sagt á fundi á Patreksfirði. Samkomulag varð ekki um annað en að fá kosningafyrirkomulaginu breytt. Annars var ekki um neitt samkomulag milli flokkanna að ræða. Slíkt samkomulag hefði heldur alls ekki verið hægt að fá í gegn í Sjálfstfl., svo margir þm. sem voru með hinum einstöku kjördæmum. Hv. þm. gat heldur ekki bent á það, að sjálfstæðismenn hefðu gert þá till., að hafa fá, stór kjördæmi, í flokksins nafni, en vildi reikna það út með einskonar rökfræði. Hv. þm. leiddi það af orðum mínum, að ég vildi hafa fá kjördæmi og stór. Ég skal standa við það, að þó að hlutfallskosning, þar sem tveir eru kosnir, sé langt frá því að tryggja fullt jafnrétti, þá er hún þó nær því en engin hlutfallskosning. Í flestum tilfellum myndi hlutfallskosning vera leiðin til meira jafnréttis. En hv. þm. sést yfir, að það getur verið um fleiri möguleika að ræða en tvímenningskjördæmi eða fleirmenningskjördæmi, þar sem t. d. 7—8 eru kosnir. Ég hefi t. d. heyrt till. um þrímenningskjördæmi. Þá myndi hlutfallskosningin strax njóta sín betur.

Ég veit ekki, hvort ég á að fara út í hugleiðingar hv. þm. Barð. um Þjóðverja og Englendinga, sem áttu að sýna, að flokkslegt jafnrétti væri vont fyrir lýðræðið. Þjóðverjar, sem hefðu flokkslegt jafnrétti, væru nú búnir að tapa lýðræðinu, en Englendingar héldu því, þó að þeir hefðu ekki hið flokkslega jafnrétti. Er þetta skrítin rökfærsla. Hv. þm. heldur, að hér komi ekkert til greina nema kosningafyrirkomulagið. Englendingar eru miklu rótgrónari í lýðræðinu, sem er hjá þeim upprunnið, en Þjóðverjar. Hafa margir Þjóðverjar tjáð mér, að þeir hafi í rauninni aldrei vanizt á að hugsa á lýðræðisvísu. Þeim hefir því í rauninni þótt vænt um, að einn flokkur hefir náð fullum tökum á stjórn landsins. Auk þess hafa nationalsócialistar náð meiri hl. með þjóðinni og tekið sér í krafti þess meiri hl. einræðisvald. Hefði hv. þm. þótt eðlilegra, að meiri hl. þeirra í þinginu hefði verið skapaður af 1/3 eða ¼ kjósenda?

Mér finnst það skárra, að bak við þá stendur meiri hl. kjósenda, þó að ég ætli ekki að mæla bót þeirri einræðisstefnu, sem þar er uppi. Annars er það athugandi, að ástandið er nú þannig í veröldinni, að í virkilegum lýðræðislöndum eins og Bandaríkjunum hafa menn ekki séð sér annað fært en að fá forráðamönnum sínum ákaflega ríkt vald. Má þar til samanburðar benda á það, sem Rómverjar gerðu, þegar miklar hörmungar steðjuðu að og sterka stjórn þurfti. Þá höfðu þeir í stjórnarfari sínu möguleika til að fá einum manni í hendur alræðisvald um stundarsakir. Þannig þarf þingræði eða lýðræði alls ekki að fara forgörðum, þó að þjóðin neyðist til um stundarsakir að fá mönnum í hendur mikið vald. Þýzka stjórnin hefir því alls ekki afnumið þingræðið, þó að hún um nokkurn tíma fái nokkrum mönnum í hendur meiri völd en þeir annars hafa. En það stendur í alls engu sambandi við kosningafyrirkomulag það, sem nú er í Þýzkalandi, heldur þvert á móti.

Hv. samþm. minn fór að rifja upp söguna til þess að sýna fláttskap sjálfstæðismanna í þessu máli, en eigna sínum flokki allan heiðurinn. Þetta er óþarfi hjá honum, því að ég get vel unnað Alþfl. að halda áfram uppteknum hætti, að hrósa sér af öllu og eigna sér allt, sem þingið hefir gert til bóta. Ég læt hann óáreittan með það, svo að það er óþarfi fyrir hann að vera að rifja það upp. Ég vil bara segja það, að það er ákaflega mikið álitamál, hvernig á að taka svona mál upp. Það er alls ekki sjálfsagt, þó að eitthvert atriði stjskr. sé orðið úrelt, að það eigi undir eins að rjúka upp til handa og fóta og breyta þeim ákvæðum umsvifalaust. Það er fyrst, þegar óréttlætið fer að sverfa verulega fast að, að menn hefjast handa. Og þá er ekki nema mannlegt og eðlilegt, að það séu þeir, sem óréttinum eru beittir, sem taka málið upp og krefjast breyt. Ég efast um, að Alþfl. hefði tekið upp baráttu fyrir breyttu kosningafyrirkomulagi, ef núv. fyrirkomulag væri honum í hag. Og ég er að þessu leyti alveg eins í efa um Sjálfstfl. Það er fyrst, þegar þetta úrelta fyrirkomulag hitnar á honum, að hann hefst handa og krefst breytinga.

Ég skildi ekki vel, við hvað hv. þm. átti, þegar hann var að tala um einhverja afsláttarpólitík í þessu máli, og um leið og hann var að minnast á þessa afsláttarpólitík, þar sem við vildum taka stjskrfrv. vingjarnlega, þá var hann í sömu andránni að skýra frá því fyrir sína hönd og síns flokks, að hann vildi fallast á frv. Ég býð hann og hans flokksmenn velkomna í þá afsláttarpólitík. En það skýtur dálítið skökku við, að hann sé að tala um afsláttarpólitík hjá sjálfstæðismönnum í þessu máli, þar sem ég lýsti því yfir, að ég mundi greiða atkv. á móti frv., ef samþ. yrði að fækka uppbótarsætunum úr 12 niður í 10, en hann ætlar að samþ. hana þrátt fyrir það. Ég legg það í dóm áheyrendanna, hvor okkar er með meiri afsláttarpólitík í þessu máli.