20.05.1933
Neðri deild: 79. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2786 í B-deild Alþingistíðinda. (4513)

59. mál, stjórnarskipunarlög

Frsm. 2. minni hl. (Magnús Jónsson):

Annar minni hl. stjskrn., sem við hv. þm. G.-K. erum í, flytur nú við þessa umr. brtt. á þskj. 750, við 1. gr. frv. stafl. c.; að öðru leyti berum við fram sömu brtt. og fyrir lá frá okkur við 2. umr. um fyrirkomulag á skipun uppbótarsæta. Ég þarf ekki að gera frekari grein fyrir henni nú. Þá var mælt fyrir henni af mér og hv. frsm. meiri hl. n. (BJ), sem einnig tjáði sig fylgjandi því að geyma þetta til nánari ákvörðunar í kosningalögum. Ég þarf ekki að endurtaka rökin fyrir því. Þetta fyrirkomulag er algerlega óreynt, og virðist mér það í raun og veru mikil ofdirfð að ákveða það í stjórnarskrá, án þess að nokkur reynsla sé áður fengin. Það er því aðaltill. okkar enn, að ákvörðun um fyrirkomulag uppbótarsæta verði látin bíða eftir kosningalögum á næsta þingi. Hv. frsm. 1. minni hl. n. hefir nú mælt fyrir brtt., sem hv. jafnaðarm. flytja enn á ný með lítilsháttar frávikningu frá brtt. þeirra, sem lágu fyrir við 2. umr., að því er snertir fyrirkomulag á skipun uppbótarsæta. Um þessa brtt. get ég sagt það, að svo framarlega sem ákvæði verða sett um þetta í sjálfa stjskr., þá felli ég mig betur við þetta fyrirkomulag heldur en þá tilhögun, sem felst í frv. stj. Mér finnst það ekki nema eðlilegt, að þingflokkur, sem á erfitt með að hafa frambjóðendur í öllum kjördæmum, vilji fá tækifæri til að safna flokksatkvæðum sínum á landslista. Ég vil þó geta þess, að ég tel nauðsynlegt, að annaðhvort verði bætt við þessa till., eða sú skýring látin fylgja þessu ákvæði í kosningalögum, að þegar flokkar nota þessa heimild til þess að bera fram landslista, en hafa jafnframt frambjóðanda í kjördæmi, þá skuli þau atkvæði, sem flokkurinn fær í kjördæminu á landslistann, bætast við atkvæðatölu frambjóðandans, ef flokkurinn fær þannig samtals meiri hl. atkv. í kjördæminu, og telst þá frambjóðandi hans kosinn fyrir kjördæmið. Það getur oft komið fyrir, að mikilhæfur stjórnmálamaður sé frambjóðandi í kjördæmi, þar sem einhverjir af flokksmönnum hans eru honum persónulega andvígir, af því að atkvæðamenn eru oft harðsnúnir í málaflutningi og fá því andstöðu. Á sama tíma hefir flokkurinn einnig landslista í kjördæminu, þá fá þeir kjósendur, sem eru óánægðir með frambjóðandann, ágætt tækifæri til þess að yfirgefa hann, en styðja þó flokkinn með því að kjósa listann. Þetta gæti í ýmsum kjördæmum ráðið úrslitum um val þm. fyrir kjördæmið, en ég hygg, að það sé bæði eðlilegt og réttlátt, að frambjóðandanum verði reiknuð atkv. listans, sem flokkurinn fær í kjördæminu. Þeim flokkskjósendum, sem eru frambjóðandanum mótfallnir, er nokkur huggun í því að þurfa ekki að veita honum persónulegt fylgi, en gefa þó flokknum sitt atkv. Þetta er alveg hliðstætt því, sem heimilt er við hlutfallskosningar. Þar mega kjósendur strika yfir nöfn frambjóðenda á flokkslista sínum, sem þeir fella sig ekki við, og breyta röð manna á listanum. Að vísu hefir kjósandinn ákaflega litla möguleika til þess að bægja manni á listanum frá kosningu á þennan hátt. En hann losnar við það á þennan hátt að gefa honum persónulega sitt atkv. Þetta ákvæði, að atkv. þau, sem hver flokkur fær í einu kjördæmi, reiknist frambjóðanda hans í kjördæminu, mætti binda því skilyrði, að frambjóðandinn hefði náð ákveðnum hluta af atkv. flokksins í kjördæminu, t. d. helmingi þeirra. Það teldi ég í alla staði eðlilegt. En fái frambjóðandinn minna en helming atkv. flokksins í kjördæminu, þá ættu öll atkv. að teljast flokknum, en eigi frambjóðandanum. Ég hugsa, að allir flokkar geti fallizt á þessa tilhögun; hún mundi áreiðanlega geta komið þeim öllum að notum, sem þætti hentugra að nota landslista. Hinsvegar er ómögulegt að ákveða neitt um það fyrirfram, hvaða flokkar mundu leggja áherzlu á að nota landslista. En ég held, að það séu engir flokkar sérstaklega ginnkeyptir fyrir því nú, nema Alþfl. Annars get ég búizt við því, að reynslan leiði í ljós, að hinir flokkarnir geti líka notað landslista með góðum árangri.

Þetta er þýðingarmikið ákvæði, að stjórnmálaflokkar séu ekki skuldbundnir til að safna öllum atkv. sínum á einn mann í hverju kjördæmi, og það mundi verða vinsælla, hvort heldur sem það eru kjósendur hlutaðeigandi héraðs heima fyrir, sem útnefna frambjóðandann, eða miðstjórn flokksins gerir það. — Ég vildi láta þessa skýringu fylgja uppástungunni um landslista, til athugunar og leiðbeiningar fyrir þá, sem síðar kunna að fjalla um þetta efni við samningu kosningalaga. Þó að ég telji mig geta fylgt brtt. hv. Alþfl.manna með þeim skýringum, sem ég nú hefi gefið, þá tel ég réttara, að hv. þd. samþ. fremur brtt. okkar hv. þm. G.-K., um að láta þetta vera algerlega óbundið í stjskr.

Um síðustu brtt. á þskj. 719, sem ákveður, að með einföldum lögum megi fjölga jöfnunarsætum úr 10 upp í 12, hefi ég ekki ástæðu til að segja neitt annað en það, að við erum henni eindregið fylgjandi. Annars verð ég að segja, að mér finnst ákaflega stutt á milli þess, hvort hún verður samþ. eða frv. óbreytt eins og það var, að ég legg ekki á móti frv. vegna þeirrar breyt., sem í þessari till. felst, svo framarlega sem tala uppbótarsætanna reynist of lág samkv. frv., eins og ég er nokkurnveginn viss um, að verður, þá bendir brtt. á leið til umbótar í því efni. Hinsvegar vil ég láta það koma fram, að verði þessi till. ekki samþ., mun ég greiða atkv. á móti frv., og get ekki lagt annað til en að það verði fellt. Það er þá orðið svo ófullkomin breyt. frá núv. ástandi, að ekki borgar sig að fá slíka afgreiðslu. Barátta fyrir þessari breyt. yrði að hefjast samstundis, og þetta kák gæti aðeins tafið umbæturnar.