24.05.1933
Neðri deild: 82. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2790 í B-deild Alþingistíðinda. (4519)

59. mál, stjórnarskipunarlög

Tryggvi Þórhallsson:

Mér ber í forföllum hv. þm. Barð., sem er form. og frsm. stjskrn., að gera nokkra grein fyrir þeim till., sem stjórnarskrárnefnd hefir borið fram á þskj. 789. Ég sé ekki ástæðu til að gera það nema með fáum orðum. Það er öllum þingheimi orðið kunnugt, að samkomulag hefir orðið milli allra þingflokkanna um að afgr. stjskr.; jafnframt hefir orðið samkomulag um afgreiðslu á stórum málum öðrum, á kreppufrv. landbúnaðarins báðum, verðtollsfrv. og gengisviðaukanum. Þetta samkomulag kemur m. a. fram í þeim brtt., sem fram eru bornar af hálfu stjskrn. Með þessum till. er mikið deilumál væntanlega til lykta leitt, og eins og gengur, þegar um slík mál er að ræða, hefir útkoman orðið sú, að enginn hefir fengið allt, en allir hafa fengið eitthvað. Till. eru bornar fram af stjskrn., en ég skal taka það fram, að form. n. var forfallaður á fundinum, þegar frá þessu var gengið, og er till. a.m.k. ekki að öllu leyti samþykkur.

Við þessa umr. sé ég ekki ástæðu til að rekja sögu þessa máls eða þær ýmsu skoðanir, sem fram hafa komið. Það gefst sjálfsagt fyrir þá, sem þess óska, annar vettvangur en þessi vettvangur til þess að gera það. Ég mun a. m. k. ekki að þessu sinni gera það. Jafnframt því, sem stjskrn. ber fram þessar till. á þskj. 789, er mér óhætt að lýsa því yfir, að hinar aðrar till., sem bornar hafa verið fram af hálfu n., eru teknar aftur. Um till. sjálfar vil ég geta þess, að 2. till. er aðeins orðabreyt.; þar er aðeins fært til skýrara máls. Með hinum till. báðum, fyrstu og þriðju, er stigið það millispor, sem samkomulag hefir orðið um: að tala þm. skuli vera 49. Í þessu máli er það kunnugt, að um það hefir verið mikið talað og mikið gert í þau tvö ár, sem deilan hefir staðið um þetta mál. Það heyrir til sögunni og verður um það talað. Ég ætla ekki að rifja það upp nú. Það, sem fyrir liggur, er það, að íslenzkir stjórnmálamenn hafi borið gæfu til þess að leiða málið til lykta á þann hátt, sem það liggur fyrir. Ég ætla að vona, að það geti orðið til gæfu fyrir okkar þjóð og sömuleiðis framkvæmd þeirra annara miklu stórmála, sem tryggt er þessu samhliða, að verða nú leyst á þessu þingi. Með þessum orðum vil ég leyfa mér að leggja til af hálfu stjskrn., að frv. verði samþ. með þessum breyt.