24.05.1933
Neðri deild: 82. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2791 í B-deild Alþingistíðinda. (4521)

59. mál, stjórnarskipunarlög

Ólafur Thors [óyfirl.]:

Alþingi hefir staðið í hartnær 100 daga, og það mun vera skoðun alþjóðar, að enn hafi það verið heldur afkastalítið; ennfremur er það vitað, að fyrir þinginu liggja mörg og stórvægileg frv., sem snerta heilar stéttir í landinu, og sumpart allar stéttir. Það hefir heldur ekki farið leynt, að það, sem hefir staðið framgangi mála fyrir þrifum, hefir fyrst og fremst verið sá ágreiningur, sem verið hefir um stjórnarskrármálið, og það samkomulag, sem nú hefir náðst og kemur fram í till. stjskrn. á þskj. 789, það er talandi vottur þess, að stór meiri hluti Alþingis hefir gert sér ljósa grein fyrir því, að vegur og virðing Alþingis er nú beinlínis í húfi, ef þingið hefði ekki borið gæfu til þess að leysa þau stóru og mörgu viðfangsefni, sem þess hafa beðið og fyrir liggja. Við sjálfstæðismenn erum náttúrlega ekki allskostar ánægðir með stjórnarskrárfrv. eins og það verður, þó að þessar till. verði samþ. Við álitum þegar stjfrv. var lagt fyrir Alþingi, að þar væri fram sett í raun og veru það lágmark, sem við gætum sætt okkur við. Við viljum samt eftir atvikum og með hliðsjón af þeim öðrum breyt., sem stjskrfrv. hefir tekið, sætta okkur við, ef það verður samþ. í því formi, sem það fær nú, að tala þm. færist niður í 49. Ég segi með hliðsjón af því, að við höfum talið, að á þessu þingi yrði ekki lengra komizt í þessum efnum, og viðurkennum eins og flestir, að það sé nauðsyn, að Alþingi geri skyldu sína og haldi uppi sinni virðingu með öðru og meiru en því að sitja í 100 daga og hafast lítið að. Ég segi fyrir mitt leyti — og held að ég tali þar fyrir hönd margra minna flokksbræðra —, að ef þetta Alþingi leysir stjórnarskrármálið í því formi, sem það er nú í, og samþ. samtímis þær bjargarráðstafanir bændum til handa, sem felast í kreppufrv., og um leið m. a. setur löggjöf um lögreglumenn eins og það mál nú liggur fyrir eftir 3. umr. í Ed. á þskj. 779, þá geri ég ráð fyrir, að það verði ekki sú seta, sem þetta Alþingi hefir átt, sem í framtíðinni verði til þess að varpa skugga á Alþingi Íslendinga. Ef við berum gæfu til þess í senn að stiga a. m. k. verulegt spor í þá átt að jafna það misrétti, sem verið hefir milli borgaranna í þátttöku til fulltrúavals þjóðarinnar, og gerum jafnframt nauðsynlegar bjargarráðstafanir, þá álít ég, að við höfum bjargað sóma okkar. Ég vil taka undir það með hv. þm. Str., að ég vona, að þessar till. verði til blessunar fyrir þjóðina, og ég er viss um, að það er þessi andi, sem hefir ráðið hans aðgerðum í þessu máli ekki síður en okkar annara. Ég get staðfest það, sem hv. þm. Str. sagði, að það hefir orðið samkomulag um, að kreppumálin, verðtollurinn, bæði eldri og viðbótartollurinn, og gengisviðaukinn nái fram að ganga. Vænti ég, að þá séu flest þrautamálin leyst, sem fyrir þessu þingi hafa legið.