24.05.1933
Neðri deild: 82. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2795 í B-deild Alþingistíðinda. (4524)

59. mál, stjórnarskipunarlög

Tryggvi Þórhallsson:

Vitanlega er það svo og vitanlegt fyrirfram, að það verða aldrei allir að öllu leyti ánægðir, þegar verið er að afgr. mál eins og það, sem nú liggur fyrir. Ég býst við því, að það sé enginn, sem sé fyllilega ánægður, allir hafi meira eða minna við það að athuga, sem gert hefir verið. Við höfum reynt að fá samkomulag á þeim grundvelli, sem frekast var hægt að fá samkomulag á. — Um það atriði, sem hv. þm. V.-Húnv. kom inn á, er það að segja, að það er ekki nema eitt af ákaflega mörgum atriðum, sem verður að setja löggjöf um á næsta þingi, væntanleg kosningalög. Þarna er settur rammi um það, hvernig þessi skipun skuli vera í sambandi við þennan landslista. Það er ekki verið að afgr. þetta mál endanlega frá þinginu nú. Ég get ekki frá n. hálfu fallizt á það, að málið sé tekið út af dagskrá. Ég álít fyrir mitt leyti, að það sé nægilega gengið frá aðalatriðunum í þessum till. eins og þær liggja fyrir. Þess vegna beini ég því til hæstv. forseta, að hann láti ganga atkvgr. um málið. Atriðið, sem hv. þm. V.-Húnv. kom inn á, er bara eitt af þeim fjöldamörgu, sem verður að kveða á um á næsta þingi, þegar sett verða kosningalög, sem þurfa að kveða á um fjöldamörg atriði, sem ekki er ástæða til að kveða á um í stjskr.