24.05.1933
Neðri deild: 82. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2806 í B-deild Alþingistíðinda. (4542)

59. mál, stjórnarskipunarlög

Fors.- og fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson):

Ég mun greiða atkv. með samkomulagstill. og ekki öðrum, en það er ekki vegna þess, að ég kysi ekki fremur annað fyrirkomulag. Ég myndi kjósa 50 eða 48 fremur en 49, en 49 hefir þann stóra kost að vera samkomulagstala. Hitt er stærra atriði, að breytt hefir verið úthlutun uppbótarsætanna frá því, sem var í frv. En ég hygg, að hægt sé að bræða saman uppástungu frv. og landskjörið, og gera það með þeim hætti að gefa kjósendunum kost á að kjósa annaðhvort við landskjörið eða í kjördæmum. Þetta hefði ég kosið, og má raunar binda það með kosningalögum. — En það ræður enginn einn vilji, og ég kann öllum þeim þm. þakkir, sem stuðlað hafa að samkomulagi um afgreiðslu þessa máls og annara stórmála — og mun sízt skerast úr leik.