26.05.1933
Efri deild: 81. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2808 í B-deild Alþingistíðinda. (4548)

59. mál, stjórnarskipunarlög

Jón Baldvinsson:

Ég hélt sannast að segja, að það mundu verða aðrir til að lýsa óánægju sinni yfir þessu frv. en hv. 3. landsk., því að hann er einn þeirra manna, sem bráða nauðsyn hafa talið á að afgreiða það, og vitað er, að hann stendur mjög nærri hæstv. forsrh. um málið og alla afgreiðslu þess. Samkomulag hefir orðið í stjskrn. Nd., sennilega með þeim hætti, að sjálfstæðismenn og framsóknarmenn hafa samið nál. og Alþýðufl.maðurinn gengið að því. Við Alþýðufl.menn munum til samkomulags samþ. frv. eins og það nú liggur fyrir, þótt það gangi ekki svo langt, að það uppfylli kröfur okkar að öllu leyti. Ég mun því fyrir Alþfl. hönd fylgja frv. eins og það liggur fyrir, enda lítur ekki út fyrir mikil umsvif til breytinga, enda er það víst vilji þingsins yfirleitt, að málinu verði lokið sem fyrst. Það, sem hv. 3. landsk. sagði um, að vegna ófullkomins orðalags mætti fara í kringum ýms ákvæði í stjórnarskrárfrv., held ég, að sé misskilningur. Það á ekki að hártoga ákvæði stjskr., heldur á auðvitað að fara eftir því, sem vitað er, að liggur í orðunum. Hv. 3. landsk. kallar það ósæmilega afgreiðslu, sem málið hefir fengið í Nd. Ég er heldur ekki allskostar ánægður, en það lítur ekki út fyrir, að annað sé hægt fyrst um sinn en að sætta sig við það í núv. mynd, því að ég held, að flokkarnir séu sammála og að frv. hafi verið tryggt nægilegt fylgi á þinginu, því að annars hefði það allt verið gabb, sem fram fór í Nd. Ég held sem sagt, að ákveðið sé að ganga frá því á þessum grundvelli. Ég tel það sjálfsagt, að málið fari til nefndar. Í lok ræðu sinnar komst hv. 3. landsk. alveg í bága við sjálfan sig, þegar hann sagði, að sín skoðun væri sú, að allt of langt væri gengið í þm.fjölgun. Við getum athugað þetta atriði. Hæstv. forsrh. lagði til, að tala þm. væri 38, en uppbótarsætin 12. En Framsfl. í Nd. vildi hafa þm.töluna 38, en uppbótarsætin 10. Það ber ekki mjög mikið á milli. Svo verður samkomulag um 49, meðalhófið þrætt. Þá er tvennt til. Annaðhvort er hv. 3. landsk. svona langt frá sínum flokki, eða hann er beinlínis að fara með blekkingar, því að með einu þingsæti meira getur hann ekki kallað, að of langt sé gengið. Það hefir kannske allt saman verið blekking hjá honum, hann hefir kannske alltaf ætlað sér á síðustu stundu að bregða fæti fyrir frv. Ef það hefir alltaf verið hugarfar hv. 3. landsk., að með tölunni 49 sé allt of langt gengið, þá hafa áreiðanlega margir látið blekkjast af orðum hans áður í þessu máli.