26.05.1933
Efri deild: 81. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2812 í B-deild Alþingistíðinda. (4549)

59. mál, stjórnarskipunarlög

Jón Jónsson:

Ég tók það líka fram áðan, að ég ætlaði mér ekki að vekja neinar stórdeilur við þessa umr. Það mun vera ákveðin tilraun til samkomulags, og mun ég því geyma deilurnar, þótt ég hinsvegar komist ekki hjá að svara einstökum atriðum. — Hv. 2. landsk. virtist vera hneykslaður á mótmælum mínum og studdist þar við þau einkennilegu rök, að ég væri svo nákominn hæstv. forsrh., að þess vegna ætti ég sízt að vera mótfallinn málinu eins og það nú horfir við. Ég hefi mér til mikillar ánægju verið nákominn samstarfsmaður hæstv. ráðh. Það vill líka svo vel til, að mótmæli mín byggjast einmitt á því, að mér virðist hafa verið stórspillt frv. hæstv. ráðh. um skipun uppbótarsæta. Frv. hefir tekið stórkostlegum breyt. frá því, er hann gerði úr garði. Það hefir hv. 1. landsk. líka viðurkennt, þótt hann hagaði orðum sínum nokkuð á annan veg. Mótmæli mín gegn frv. eins og það er nú eru því mjög fjarri því að sýna nokkra andúð gegn hæstv. forsrh.

Hv. þm. var að tala um, að sér þætti þetta einkennilegt mjög, að ég mótmælti frv., þar sem þeir menn, sem réðu fyrir flokknum, væru búnir að semja um þetta. Ég ætla þá að segja hv. þm. það í eitt skipti fyrir öll, að mér vitanlega ræður enginn einn maður eða tveir yfir Framsfl.; þar eru frjálsir menn í frjálsum flokki, og hefir því enginn einn maður yfirburðavald til að ráða fyrir flokkinn. Hins vil ég og geta, að ég hefi engum gefið óskorað umboð til samninga fyrir mína hönd.

Þá skildi ég varla, hvað hann var að tala um að fara í kringum lögin. Ég var alls ekki að tala um slíkt, heldur um hitt, að ákvæði stjskr. þyrftu að vera þannig orðuð, að hægt sé bókstaflega eftir þeim að lifa. Það er ekki ætlun mín að fara í kringum l., heldur að gera þau sæmilega úr garði, svo að ekki sé unnt að fara í kringum þau.

Hv. 1. landsk. talaði nú mjög rólega (þeir gerðu það reyndar báðir); taldi hann ekki rétt af mér að fara með ámæli í garð Nd. Ég get ekkert tekið aftur af því, sem ég sagði, enda voru það ekki svo sterk orð, þótt ég segði, að deildin væri ámælisverð fyrir það, hvernig hún hagaði sinni afgreiðslu. Það var flaustursleg aðferð og varla sæmileg í svona viðkvæmu máli og stóru, að slengja fram í fundarbyrjun brtt., sem raska stórkostlega frv., og gefa þingmönnum, þrátt fyrir ítrekaðar óskir, ekki einu sinni tveggja stunda ráðrúm til að athuga brtt. í þessu viðkvæmasta máli, sem þingið hefir til meðferðar.

Hv. þm. kvað ýms ríki hafa svona ákvæði um úthlutun uppbótarsæta. Ég er að vísu ekki eins kunnugur þessu og hv. 1. landsk. En mjög þykir mér það ótrúlegt, að mörg séu þau ríki, er hafi þau ákvæði um úthlutun uppbótarsæta, sem sjáanlega framkvæmast þannig, að þau koma að engu gagni. Ég skal aðeins nefna eitt dæmi til rökstuðnings. Svo segir í stjskrfrv. því, sem fyrir okkur liggur, viðvíkjandi frambjóðendum flokks, sem landslista hefir, að það skuli a. m. k. annaðhvert sæti tíu efstu manna á landslista skipað frambjóðendum flokksins utan Reykjavíkur. Og tilgangurinn virðist vera sá, að með þessu móti sé tryggt, að a. m. k. helmingurinn af þeim uppbótarsætum, sem kunna að falla einum flokki í skaut, sé skipaður mönnum, sem hafa verið í framboði við kjördæmakosningar og hafa hlotið mörg atkv., en þó ekki nógu mörg til að ná kosningu. En engin trygging er fyrir því, að svona verði. Flokkur gæti þvert á móti stillt þannig á lista, að setja í efstu sætin, sem skipuð skulu frambjóðendum utan Rvíkur, mjög álitlega frambjóðendur, sem vissir eru að komast að í kjördæmum og koma þess vegna ekki til greina þegar ræða er um uppbótarsætin. Svona mætti halda áfram, setja fyrst þá vissustu, síðan þá næstvissustu koll af kolli. Þannig yrði ærið lítið gagn að þessu ákvæði til að ná því markmiði, sem virðist vera tilgangurinn, að helmingur uppbótarsæta sé skipaður mönnum, sem góðs trausts njóta úti í héruðum. Ég trúi trauðlega, að það séu mörg ríki, sem hafa slík ákvæði í sinni stjskr., sem sjáanlega er hægt að fara í kringum og gera áhrifalaus.

Þá var hv. 1. landsk. eitthvað að benda til þess, að líkt ákvæði hefði verið í upphaflegum till. Framsfl. Ég býst við, að hv. þm. eigi við till., sem kom fram í fyrra. En fyrst og fremst var þar ákveðið, að uppbótarsætin skyldu eingöngu koma til jöfnunar milli flokka utan Reykjavíkur. Þar með var allmikið sagt. En svo var í því frv., sem þá lá fyrir, gengið út frá því, ef mig minnir rétt, að uppbótarsætin skyldu einmitt falla í skaut frambjóðendanna. A. m. k. kom þetta glögglega fram í grg.; það var talað um, að það skyldu vera svo og svo margir þm. á þessu eða hinu svæði á landinu. En Framsfl. mun ekki í sínum till. hafa vikið neitt að því, að það skyldi hafa sérstakan lista á þennan hátt, heldur aðeins, að hann vildi ekki kalla þm. uppbótarþm., heldur landskjörna þm. Það var allt og sumt. Svo voru uppbótarsæti helmingi færri; fyrirkomulagið skipti því minna.

Þá sagði hv. þm., að uppástunga stjfrv. hefði verið meingölluð, vegna þess að fámennustu kjördæmin hefðu getað komið til með að hafa uppbótarsæti. Ég skal játa, að þetta hefði getað komið fyrir. En það var ósköp einfalt að setja undir þennan leka, t. d. að ákveða, að kjördæmi, sem ekki hefði fleiri en svo og svo marga kjósendur á þm., sem því bæri, fengi ekki uppbótarsæti.

Þá var hann að tala um það, að það eina, sem hneykslaði — (JónÞ: Ég nefndi ekki hneyksli.). Getur verið, að hann hafi ekki haft svo stórt orð, en það, sem honum þótti ámælisvert, er óhætt að segja, það er, að banna skyldi hlutfallskosningu í kjördæmum, sem hafa fleiri en einn þm. Ég segi fyrir mig, að ég tel þetta út af fyrir sig ekkert ámælisvert, vegna þess að við vitum, að hlutfallskosning nýtur sín illa þar, sem ekki á að kjósa nema tvo menn. En þrátt fyrir það er þetta atriði, sem ég fyrir mitt leyti hefi talið athugandi sem eina leið til að komast hjá of mikilli þingmannafjölgun.

Að síðustu kom sú játning hjá hv. 1. landsk., að þetta myndi hafa komið inn sem nokkurskonar sárabætur fyrir hans flokk og hinna, sem hafa gert það mikla sómastrik að fækka uppbótarsætum um eitt. Breytingarnar mættu ekki vera einhliða í þágu Framsóknarfl., að mér skildist, og fengju því sjálfstæðismenn til uppbótar að ráða þessu. Ég er nú ekki viss um, að allir þeirra góðu menn úti um landið séu svo tiltakanlega lukkulegir með þessa verzlun.

Þá sagði hv. þm., að sanngjarnt væri, að flokkar réðu sjálfir, hverjir uppbótarsætin skipuðu. En mér finnst sanngjarnt, að kjósendur ráði því sjálfir; m. ö. o., að mennirnir, sem uppbótarsætin hljóta, verði að hafa fengið verulegt traust meðal kjósenda. Ef einhver flokksstjórn hér í Reykjavík á að velja mennina á landslistann, þá getur einatt svo farið, að þeir menn komist á þing, sem hafa ekki traust neins verulegs hluta þjóðarinnar — máske ekki nema traust fámennrar flokksklíku í Reykjavík —, en aðrir, sem eiga mikið fylgi hjá kjósendum flokksins, þó að ekki nægi alveg til að tryggja sæti við kjördæmakosningu, verði með öllu útilokaðir. Þetta finnst mér mjög illa ráðið og mjög óheppilegt fyrir landsbyggðina.

Loks minntist hv. þm. á það, að óánægja mín myndi líða hjá. Ja, hann fær sjálfsagt að sjá það, hvað mikið hún líður hjá, ef þetta gengur fram eins og það stendur nú. Reynslan sker úr því. En hitt veit ég, að hvað mikið sem ég er af vilja gerður, þá sé ég mér ekki fært að lagfæra í kosningalögum þær misfellur, sem orðnar eru, ef þetta stendur óraskað í stjórnarskránni.