30.05.1933
Efri deild: 84. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2831 í B-deild Alþingistíðinda. (4563)

59. mál, stjórnarskipunarlög

Frsm. meiri hl. (Jón Þorláksson) [óyfirl.]:

Það er ekki sérlega margt úr því, sem fram hefir komið, sem ég finn ástæðu til að svara f. h. meiri hl. n., en þó vil ég minnast á örfá atriði. Bæði hv. 5. landsk. og hv. 2. þm. Árn. töluðu mjög um það, að þeim fyndist ekki ástæða til að fjölga þingmönnunum svo mikið sem frv. gerir ráð fyrir. Að vissu leyti get ég verið þeim sammála um það, enda fólu þær till., sem fram komu í milliþn. frá fulltrúum Sjálfstfl. og Alþfl., ekki í sér slíka fjölgun á þm. sem fram á er farið í þessu frv. Að því er snertir till. Sjálfstfl., þá fóru þær fram á að ná fullu jafnrétti á milli flokkanna með svipaðri tilhögun og frv. gerir ráð fyrir, án þess að þm. yrðu fleiri en 42 eða 43. Mismunurinn liggur í því, að þetta frv. gerir ráð fyrir 8 fleiri kjördæmakosnum þingmönnum heldur en farið var fram á í till. sjálfstæðismanna í mþn. Frv. fer fram á að halda hinum 6 tvímenningskjördæmum og bæta 2 þm. við Reykjavík fram yfir það, sem við höfum stungið upp á. Það er þessi fjölgun kjördæmakjörinna þm., um 8 frá því sem við lögðum til, sem gerir það ókleift að ná svipuðum árangri með sömu tölu uppbótarsæta og við fórum fram á. Stj. hefir ekki treyst sér til að hafa kjördæmakosna þm. eins fáa og við lögðum til og öllum þingheimi er kunnugt. Hún hefir búizt við, að þm. Framsfl. mundu ekki allir halda sínum þingsætum, ef kjördæmin væru gerð að nokkrum verulegum mun færri en þetta frv. gerir ráð fyrir. Það er kunnugt, að þetta er ástæðan fyrir því, að stj. hefir ekki treyst sér til að ganga inn á þessa braut, að hafa 26 einmenningskjördæmi, eins og við höfðum hugsað okkur. Það þarf því ekki við meiri hl. n. um þetta að tala eða sakast. Þetta fyrirkomulag, sem í frv. er, er knúið fram af Framsfl. hér í þinginu. Að pólitíska valdið sé með þessu lagt í aðrar hendur en verið hefir, er hreinasti misskilningur hjá hv. þm. Það verður eftir sem áður í höndum kjósendanna. Það mun hvorki skiptast eftir byggðarlögum eða stéttum, þótt lifað verði undir þeim kringumstæðum, sem hin breytta stjskr. skapar, frekar en að það hefir fest rætur undir þeirri stjskr., sem við höfum nú um stund lifað við.

Hv. 2. þm. Árn. kom víða við. Hann fór að lýsa sem loflegu fordæmi kosningatilhögun, sem tekin var upp um 1872 og kölluð hefir verið herrahús, en sem hv. 2. þm. Árn. kallaði furstadeild þýzka ríkisins. En ég tel það að seilast um hurðarás til lokunnar, ef leita skal að fyrirmyndum til þeirrar samkundu, sem ekki var neitt þjóðþing, heldur mátti miklu fremur kallast ríkisráð og nú er búin að lifa. En þar sem hann sagði, að í hinum frjálsu kosningum í Þýzkalandi hefðu sumir fimmfaldan kosningarrétt við aðra, þá er það ekki rétt. Sú skipun er þar á kosningum, að hver maður hefir jafnan kosningarrétt hvar sem hann er. Fyrirkomulagið er það, að kosið er í stórum kjördæmum. Er svo landslisti, sem jafnar þann mismun, sem verður milli hinna stóru kjördæma. Og loks er svo ríkislisti, sem jafnar þann litla mismun, sem þá er eftir. Hefir þá hver þingflokkur þm. eftir atkv.tölu. Hver sú atkv.tala er, sem á hvern þm. fellur, er ekki ákveðið og því mismunandi. Við síðari kosningar munu hafa komið 60—80 þús. atkv. á hvern þm. En í Þýzkalandi er áreiðanlega hvergi til fimmfaldur kosningarréttur.

Þá fór hv. þm. að gefa lögskýringar á ákvæðum frv. Sagði hann, að ákvæðið um, að allt að 49 menn skyldu eiga þingsæti á Alþingi, þýddi það, að þeir gætu ekki orðið nema 48. Það kemur nú samt ljóst fram í frv., að meiningin er sú, að þm. geti orðið 49 og að jöfnunarþingsætin geti orðið 11, ef þess þarf með til að fullnægja því ákvæði — sem hv. þm. reyndar forðaðist að nefna —, að þingsæti hvers flokks verði í sem fyllstu samræmi við atkv.tölur þær, sem þeir fá við kosningarnar. Þarf ekki fleiri orðum að þessu að eyða. Allar lögskýringar hv. þm. falla um koll, þegar lesin eru ákvæði frv.

Út í ummæli hv. 3. landsk. þarf ég lítið að fara. Honum finnst, að með ákvæðum frv. séu Reykjavík tryggð meiri áhrif á skipun þingsins en öðrum landshlutum. Ég held nú, að þetta sé ærinn misskilningur. Og a. m. k. er þessi skoðun hans ekki í sem beztu samræmi við skoðanir þær, sem koma fram í brtt. tveggja flokksbræðra hans. Þeir leggja báðir til, að þm. verði fjölgað í Reykjavík, meira en gert er f frv. Þeir líta sjáanlega svo á, að frv. sé þannig úr garði gert, að það bjóði Reykjavík ekki of mikla þátttöku í skipun þingsins. Þótt ég geti verið sammála þeim um þetta, að þátttaka Rvíkur um þingmannaval sé eigi úr hófi fram, þá sé ég samt enga ástæðu til þess að fara að umbylta frv. með því að setja inn í það fjölgun á þm. fyrir Reykjavík. Því hefir verið haldið mjög fram, að íbúar Reykjavíkur hefðu aðra aðstöðu en þá, sem kosningarrétturinn veitir þeim, til að hafa hlutfallslega mikil áhrif á gerðir Alþ. En úr því er of mikið gert. Og þó eitthvað væri í því, þá er ekki hægt við því að gera. Það er ekki hægt að ná jöfnun á því á náttúrlegan hátt, ef talið er, að áhrif Reykjavíkur á þingið séu önnur og meiri en þau, sem atkv.rétturinn veitir þeim. Hver maður á landinu hefir fullt leyfi til að bera fram óskir sínar við þm. og þingið á einn eður annan hátt. En á því er ekki hægt að gera neina jöfnun. Nú játa ég það að vísu, að það hefir sannazt á hv. 2. þm. Árn., að Reykjavík muni hafa nokkur áhrif á skoðanir þm. Það eru ekki nema 3 ár síðan hann lét prenta í Alþt. þá skoðun sína, að Reykjavík ætti ekki að hafa nema 1 þm. Nú þykir hv. þm. Reykjavík vanhaldin með 6 þm. Hann kemur því með brtt. um að fjölga þeim í 7 þm.