02.06.1933
Efri deild: 88. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2846 í B-deild Alþingistíðinda. (4577)

59. mál, stjórnarskipunarlög

Jón Jónsson:

Ég hefi hlýtt hér á mál manna, og þykir mér mjög leiðinlegt, að hv. 1. landsk. skuli ekki geta verið með mínum till., því að ég hugsa, að þær séu alls ekki til skemmda á frv., heldur ættu að tryggja það, sem ætti að skipta mestu, það, að valdir menn hljóti uppbótarsætin, eins og yfirleitt öll þingsætin, menn, sem hafi mesta þekkingu og skilning á þörfum allra landsins hluta. Ég lít svo á, að eftir því sem frv. er nú, séu mestar líkur til, að uppbótarsætin muni falla í skaut manna hér í Reykjavík. Héruðin úti um land ættu erfitt með að koma sínum vilja fram að því er val þessara manna snertir. Það er eins og vitað er, að miðstjórn hins pólitíska lífs er hér í Reykjavík, þekkir hér bezt til og hefir því bezta aðstöðu til að beita sér fyrir því, hverjir hljóti þessi uppbótarsæti, ef ekki er öðruvísi ákveðið. Ég hugsaði líka, að einmitt breytingar mínar yrðu nauðsynleg trygging fyrir málstað héraðanna úti á landi, og það yrði líka til þess að skapa meiri festu og tryggja það, að þessi stjskrbreyt. gilti um lengri tíma. Það er mjög óheppilegt fyrir hverja þjóð sem er að breyta oft sínum grundvallarlögum. — Um hin atriðin, sem felast í till., þarf ég ekki að ræða; þau skipta ekki eins miklu.

Ég vil þakka hv. 1. þm. Reykv. fyrir það, hvað sanngjarnlega hann leit á mínar till., og hafði ég sannast að segja frekar búizt við því af öðrum heldur en þm. Reykvíkinga. Það er mjög mikill sómi fyrir hann, hvað hann sýndi mikið frjálslyndi í þessu máli, en hitt skil ég vel, að hann kjósi heldur, að um leið og það er tryggt sem bezt, að menn, sem hljóta uppbótarsætin, hafi sýnt, að þeir njóti trausts í einstökum héruðum, þá kæmi hans hérað einnig til greina. En ég verð að telja það miklu verra í sambandi við mína till. samt sem áður, ef till. eins og hann bar fram verður samþ., vegna þess að ég held, að sízt þurfi að bæta á þá aðstöðu, sem Reykjavík hefir til þess að koma sínum málum fram hér á þingi. En þrátt fyrir það tel ég brtt. hv. 1. þm. Reykv. stórbót frá því, sem er í frv., og mun ég, ef mín till. fellur, greiða atkv. með brtt. hv. 1. þm. Reykv. Ég skil hana svo, að sem efstu menn á lista komi ekki fleiri til greina en í mesta lagi 6 á hverjum stað, m. ö. o. ekki þeir menn, sem settir eru í varasætin. Ég tel þessa till. nokkuð til bóta frá því, sem er í frv., og ekki mjög mikla breyt. frá minni till., en þó óska ég eindregið eftir því, að mín till. verði samþ., en ef svo verður ekki, þá mun ég heldur kjósa, að till. hv. 1. þm. Reykv. komist að heldur en engin breyt. verði gerð.

Öðrum þm. hefi ég ekki ástæðu til að svara. Hv. 5. landsk. gekk lítið inn á málið, og hv. 2. þm. Árn. tók fram, að erfitt væri að átta sig á till., sem kæmu fram á síðustu stundu, og hefi ég fyrir mitt leyti ekkert á móti því, að málið verði tekið út af dagskrá. Það er nú að vísu orðinn hver síðastur með þetta mál, en það er svo mikilsvert, að það verður að athuga eins vel og föng eru á. Hvað því líður, að frv. sé hætta búin í Nd., eins og hv. 1. landsk. var hræddur um, ef því verður breytt hér, þá er ég fulltrúa um, að svo verður ekki. Sú breyt., sem gerð var á frv. í Nd. við 3. umr. þar, kom flausturslega inn og margir voru óánægðir með hana og töldu þörf á leiðréttingu. Ég er því viss um, að hvor brtt. sem samþ. verður af þeim, sem nú liggja fyrir, veldur frv. engri hættu í Nd. Það verður áreiðanlega samþ. þar fyrir því, þó frv. sé lagfært hér. Að slík breyt. hér geti valdið leiðinlegu áliti á þinginu, sé ég ekki. Hér er aðeins verið að leiðrétta smíðalýti, er voru á frv. er það kom frá Nd., og tilgangurinn með tvískiptingu þingsins í deildir er vitanlega sá, að deildirnar lagfæri hvor fyrir aðra. Ég vona því, að d. haldi fullum heiðri, þó hún samþ. brtt. mína.