02.06.1933
Efri deild: 88. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2856 í B-deild Alþingistíðinda. (4587)

59. mál, stjórnarskipunarlög

Jón Jónsson:

Það hafa nú farið fram talsverðar umr. síðan ég talaði síðast. Ég mun þó víkja að fáu af því, sem fram hefir komið, enda munu forlög þessa máls svo ráðin, að orð þýða ekki.

Hv. 2. landsk. sagði, að við Framsfl.menn hefðum sagt meira um þetta mál við okkar kjósendur heldur en aðrir flokkar hefðu gert við sína. En hvað höfum við þá sagt? Við höfum sagt kjósendum okkar það, að við mundum beita okkur af alefli fyrir því, að kjördæmin úti um landsbyggðina héldust óbreytt. Svo er fyrir að þakka, að þannig er ákveðið í frv. Við höfum líka sagt, að við vildum beita okkur af alefli fyrir því, að áhrifavald landsbyggðanna utan Reykjavíkur minnkaði sem minnst. En við höfum líka tekið vel í það, að jafnað væri betur þingsætum milli flokka eftir atkv.tölu þeirra en gert hefir verið. Til þessa hefir verið tekið tillit í frv. En ég játa það, að á frv. eru gallar, sem geta valdið því, að áhrifavald Reykjavíkur á þingið geti orðið meira vegna hárrar fulltrúatölu en ég tel heppilegt eða hollt fyrir þjóðfélagið í heild. Ég hygg, að í framkvæmdinni mundu flest ef ekki öll uppbótarsætin hlotnast Reykvíkingum. En þetta tel ég leiðrétt, ef mín brtt. verður samþ. Ef svo verður gert, hygg ég, að mér verði létt að ganga til móts við mína kjósendur. En fáist engin leiðrétting á því, játa ég, að mér verður það erfiðara. Hv. þm. sagði, að mínar till. væru óskýrar. En það dæmi, sem hann benti á, afsannaði alveg þau ummæli hans. Í brtt. minni er því alveg slegið föstu, að kjósandi getur ekki gert nema annað tveggja, greitt atkv. frambjóðanda eða greitt landslista atkv. En mín till. tekur það skýrt fram, að þingflokkur getur ekki haft landslista í þeim kjördæmum, sem hann hefir frambjóðanda. Mín till. er því alls ekki óskýr í þessu efni. Og í mínum augum er það stórt atriði, að kjósandi fær ekki samkv. mínum till. að velja á milli frambjóðanda og landslista. — Það, sem hv. 1. landsk. fann að till. minni, var hreinn og beinn orðhengilsháttur. Þetta orðalag, að frambjóðendur séu settir efstir á landskjörslista, þýðir vitanlega ekki það, að allir séu settir í efsta sætið á listanum, heldur að þeir séu settir ofar á listann en þeir aðrir, sem kunna að verða á hann settir og ekki eru frambjóðendur í kjördæmum. Þetta atriði kemur naumast til greina hjá fjölmennum flokkum, aðeins hjá þeim fámennu. Þetta er því hreinn orðhengilsháttur hjá hv. 1. landsk. Ég tók það fram í upphafi, að ég býst ekki við, að miklar umr. hafi úrslitaáhrif á þetta mál. Ég mun því láta staðar numið að sinni.