02.06.1933
Efri deild: 88. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2857 í B-deild Alþingistíðinda. (4588)

59. mál, stjórnarskipunarlög

Jón Baldvinsson:

Ég skil ekki það kapp, sem á það er lagt að koma endilega að einhverjum breyt. á frv. Það er alveg auðséð, að til eru þeir þm., sem alls ekki vilja láta frv. ganga fram óbreytt. Þeir vilja gera í það þann glundroða, að þeir telji sig ekki á eftir bundna við neitt samkomulag. Ég get lýst því yfir, að jafnaðarmenn hafa nákvæmlega athugað orðalagið sjálft og samþ. það eins og það er nú í frv. Við óskuðum fyrst eftir landslista, sem flokkarnir hefðu frjálst val um að raða á. En flokksmenn hv. 3. landsk., er að samningunum unnu, vildu setja það ákvæði, að nokkur hluti frambjóðenda á landslista skyldu vera frambjóðendur í kjördæmum utan Reykjavíkur. Um þetta varð svo samkomulag. Annaðhvert sæti af tíu þeim efstu á landslista skal vera skipað frambjóðendum utan Reykjavíkur. Nú vill hv. 3. landsk., og mér skilst einhverjir fleiri þm., hrófla við þessu. Hv. 3. landsk. vill láta setja alla frambjóðendur í kjördæmum landsins á landslista, ef sá flokkur, er þeir tilheyra, hefir slíkan lista. Þetta stórbreytir frv. Og frá sjónarmiði Alþfl. er þetta stórspillir á frv. og auk þess brot á því samkomulagi, er fékkst um málið, er það var fyrir Nd. Svo er röðunin á listanum. Ég benti á, hve ólögulega þetta væri orðað, og hv. 1. landsk. hefir einnig bent á það sama. Það er vafalaust, að deila mundi rísa upp um það milli frambjóðenda, hver efstur á að vera. Það er einnig óákveðið, hvað meint er með orðinu „þingflokkur“. Hæstv. forsrh. var reyndar að segja, að þetta mætti ákveða nánar í kosningal. Það getur vel verið, að þetta sé allt svo loðið og óákveðið, að hægt sé að snúa því á hvern veg sem vill með kosningal. En það er galli. Eftir orðalagi frv. er þetta skýrt og ákveðið.

Till.menn telja engu stefnt í voða, þó frv. sé breytt. En það liggur þó í augum uppi, að svo er gert. Margir þm. munu telja sig óbundna við þá samninga, er gerðir voru, ef frv. er breytt, og óska eftir að fá ný atriði inn í frv. Hefjast þá nýir samningar, og má þá svo fara, að allt samkomulag springi. Alþfl. vill því halda fast í frv. eins og það er, enda er það vitað, að margir framsóknarmenn vilja breyta ákvæðum frv. og munu nota til þess tækifærið, ef það kemst aftur til Nd.

Mér þykir, eftir því sem málið hefir verið reifað hér, allundarlegt samband hv. 3. landsk. og hv. 1. þm. Reykv., sem segja má, að gerzt hafi samherjar í þessu máli. Hv. 3. landsk. mælir fyrir sínum brtt. með þeirri röksemd, að þær séu fram komnar til að auka áhrifavald byggðanna utan Reykjavíkur, eða halda í það, sem er. Þetta er hv. 3. landsk. víst full alvara. Hann sagði líka, að hann vildi koma í veg fyrir, að Reykvíkingar fengju meiri þátttöku í fulltrúatölu á Alþ. Reykvíkingar eiga því að verða lægra settir í þessu efni en aðrir landsmenn. Till. hv. 3. landsk. er því fram komin til fjandskapar við Reykjavík, að því er hann sjálfur segir. En því undarlegra er það, að slík till. skuli fá fylgi hv. 1. þm. Reykvíkinga. Hann ætti þó fyrst og fremst að vera vörður síns eigin kjördæmis.

Hv. 1. þm. Reykv. hafði mörg orð um það, að enginn þm. mundi vilja taka á sig ábyrgð á því að fella frv., þó því væri breytt. Ég hefi nú áður vikið að þessu, og því má bæta við, að einn hv. þm. sagði í umr. um málið, að hér væri um hreina nauðasamninga að ræða. Það má nærri geta, hvort þeim mönnum, sem svo er innanbrjósts, væri sárt um það, þó frv. félli. Hið eina, sem tryggt getur þessu máli framgang, er, að þeir samningar, sem gerðir voru, séu haldnir og frv. samþ. hér óbreytt.