03.06.1933
Efri deild: 89. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2863 í B-deild Alþingistíðinda. (4595)

59. mál, stjórnarskipunarlög

Frsm. meiri hl. (Jón Þorláksson) [óyfirl.]:

Út af ræðu hv. 2. þm. S.-M. og ummælum hans um formenn Alþfl. og Sjálfstfl. vil ég taka það fram, að ég hefði ekki tekið í mál að greiða atkv. með brtt. nema um það hefði verið fullt samkomulag allra aðilja, sem að frv. standa. Mér er það líka allt of kunnugt, að ýmsir eru óánægðir með frv. og mundu vilja ganga mót því, ef þeir væru með öllu óbundnir, til þess að ég vilji eiga þátt í því að losa um allt eftir að samkomulag hefir náðst. Þessi yfirlýsing hv. þm. nægir mér til þess að greiða atkv. á móti öllum brtt., jafnvel þótt einhver þeirra kynni að færa frv. til betri vegar. Um efni þeirra vil ég taka það fram, að alveg meiningarlaust er að fara út í deilur um það á þessu stigi, því að öll ákvæðin, sem í þeim felast, eiga frekar heima í kosningalögum en í stjórnarskrá, og mér finnst engin ástæða til þess að stofna málinu í hættu, eða a. m. k. komast út í nýjar deilur um það.