03.06.1933
Efri deild: 89. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2863 í B-deild Alþingistíðinda. (4597)

59. mál, stjórnarskipunarlög

Jakob Möller [óyfirl.]:

Ég heyri það, að mikilli alvöru og þungum hugsunum hefir lostið yfir dm. við hin diktatorisku ummæli hv. 2. þm. S.-M., en fyrir mitt leyti vil ég endurtaka það, að ég hefi aldrei skoðað samningana sem bindandi um annað en aðalatriðið, og því er vitanlega hverjum einstökum þm. það frjálst að leggja til um breytingar á fyrirkomulagsatriðum. Engin andmæli með rökstuddar skoðanir að baki hafa komið fram gegn því, að till. séu ekki sumpart til bóta og sumpart alveg meinlausar. Því tel ég það enga goðgá, þótt ég taki ekki aftur till. og haldi henni til streitu. En viðvíkjandi því, að frv. sé borgið, ef engu er breytt, vil ég segja, að það eru bábiljur einar. Frv. verður lagt fyrir nýkosið þing, sem enginn veit, hvernig verður skipað, og þó að það hafi verið samþ. hér óbreytt, þá er það engin trygging. Hinsvegar, meðan ekki er sýnt fram á það, að till. geri frv. óaðgengilegra, þá er ekki ástæða til þess að láta ekkert breytast aðstöðuna. Ég trúi mönnum heldur ekkert betur til þess að framfylgja því á næsta þingi, þó að því verði ekki breytt hér.