11.03.1933
Neðri deild: 22. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 408 í C-deild Alþingistíðinda. (4612)

91. mál, kaup á jörð

Flm. (Jónas Þorbergsson):

Mál það, sem þetta frv. fjallar um, er ekki alveg nýtt í þinginu. Í fjárl. fyrir 1920- 21 var stj. eftir till. fjvn. heimilað að kaupa jörðina Ólafsdal í Dalasýslu. Flm. þeirrar till. mun hafa verið þáv. þm. Dal., Bjarni Jónsson frá Vogi. Eftir því, sem fram kom í framsögu, var bak við till. tvennskonar tilgangur. Í fyrsta lagi að koma í veg fyrir, að ekkja Torfa heitins Bjarnasonar þyrfti að selja eign sína sér í óhag, jörðina með mannvirkjum öllum hverjum óvöldum manni, sem hafa vildi, eins og það er orðað í framsöguræðunni. Í öðru lagi var sú hugsjón, að jörðin væri hentug til skólastofnunar, sem fyrirhuguð var við Breiðafjörð eftir gjafabréfi Herdísar Benedictsen. Nú er þessari skólastofnun ráðstafað á annan veg, eins og kunnugt er. En Ólafsdalur er eigi að síður jafnhæfur til opinberra nota og að vísu enn hæfari en áður, af því að samgöngur eru stórum bættar síðan 1920- 21.

Í lögum um byggingar- og landnámssjóð frá 1928 er stj. þess sjóðs heimilað að veita lán til byggingar á 4 fyrirmyndarbúum, einu í hverjum landsfjórðungi. Skilyrði fyrir því, að slík lánveiting fari fram, er, að Búnaðarfél. mæli með fjárveitingunni. Ég tel rétt að binda þau kaup, sem hér er farið fram á, hinu sama skilyrði. Það, sem fyrir mér vakir í þessu máli, er það, að þegar séu fest kaup á þessari jörð til þeirra fyrirhuguðu nota, sem um ræðir í nefndum lögum. Ég vænti þess, að sú n., sem fær þetta mál til meðferðar, leiti álits Búnaðarfél. Íslands um þetta mál. Og þar sem búnaðarþingið mun koma saman 18. þ. m., þá er hægurinn hjá að hafa búnaðarþingið á bak við sig í þessu máli. Ég vænti, að þær undirtektir, svo og undirtektir hv. deildar verði góðar í þessu máli, og leyfi mér svo að óska þess, að málinu verði að lokinni umr. vísað til landbn.