20.03.1933
Neðri deild: 31. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 412 í C-deild Alþingistíðinda. (4630)

112. mál, fasteignamat

Flm. (Magnús Jónsson):

Fasteignamatslögin, sem gera ráð fyrir því, að metnar séu fasteignir í landinu, þannig að matið gildi í 10 ár, eru auðsjáanlega ekki miðuð sérstaklega við svo örar sveiflur á verðmætunum eins og eiga sér stað, þegar sérstakir óróatímar eru í fjármálunum og kemur m. a. fram á vorum tímum. Það er ákaflega erfitt á slíkum tímum, sem nú eru, að gera slíka áætlun fyrir 10 ára tímabil. Kreppan, sem nú stendur yfir, er búin að vinna sitt verk nú um nokkurn tíma og afleiðingar hennar eru orðnar mjög áberandi. Þetta kemur m. a. fram í röddum og kvörtunum, þar sem farið er fram á að létta einhvernveginn fyrir mönnum afleiðingum kreppunnar. Kemur þetta fram í óskum um vaxtalækkun, skattalækkun og annað slíkt. Það hefir þess vegna komið nokkuð ónotalega við og er dálítið þversum við annað, sem er að gerast, þegar matið á fasteignunum í landinu, sem nú er nýlega gengið í gildi, fer í alveg þveröfuga átt við allt þetta. Í stað þess, að kreppan hefir valdið því, að fasteignir hafa yfirleitt stórlega lækkað í verði, þá kemur matið og færir upp verð allra fasteigna í landinu að stórum mun. Samtímis því, að raddir koma fram um að lækka skattana og létta á mönnum byrðinni, þá hækka þeir skattar til ríkis, bæjar- og sveitarfélaga, sem byggðir eru beinlínis eða óbeinlínis á fasteignamatinu, til stórra muna. Það er þess vegna ekki nema eðlilegt, að fram komi raddir um að lagfæra þetta og samræma til bráðabirgða. Það er það, sem farið er fram á í þessu frv., sem hér liggur fyrir. Það skal játað, að ég er ekki svo kunnugur alstaðar á landinu, að ég geti sagt um, hve rétt það fasteignamat er, sem nú gildir, en það er vitanlegt, að þegar matið var framkvæmt, voru aðstæður aðrar, a. m. k. þegar byrjað var á því, og voru orðnar aðrar, þegar matið gekk í gildi, og munurinn fer alltaf vaxandi. Þó hefi ég sannar og áreiðanlegar fregnir um það, að víða á landinu nær fasteignamatið aldeilis ekki nokkurri átt. Það er ekki það, að 10% lækkun mundi koma því í rétt horf, heldur þyrfti til þess miklu, miklu meiri niðurfærslu. Mér er kunnugt um það, að í kauptúni í einum parti landsins, sem ég fyrir ákveðin atvik hefi kynnzt, þar er fasteignamatið, eftir því sem metið hefir verið af þar til mjög hæfum mönnum, svo mikið of hátt, að láta mundi nærri, að draga yrði frá 1/3 og allt niður í það, að fasteignir væru ekki nema 1/10 hluti verðs á móts við það, sem fasteignamatið ákveður.

Mér er óskiljanlegt, hvers vegna fasteignamatinu hefir verið hagað svona. Á slíkum stöðum nær það ekki nokkurri átt og fer í bága við tilgang 2. gr., þar sem sagt er, að fasteign skuli meta eins og hún mundi sanngjarnlega seld eftir gæðum hennar. Það getur auðvitað ekki náð nokkurri átt að meta fasteign þrefalt eða fimmfalt eða þar yfir hærra en nokkur maður vill kaupa fasteignina fyrir, þó að sleppt sé slíkum öfgatilfellum, sem munu vera nokkuð víða á landinu, þá er það vitanlegt, að fasteignir hafa lækkað stórkostlega í verði, jafnvel þar, sem þær hafa haldið bezt verði, eins og t. d. hér í Rvík, hvort heldur er miðað við það verð, sem eignin gengur kaupum og sölum, eða miðað er við afrakstur hennar, t. d. ef miðað er við húsaleiguna. Húsaleigan hefir lækkað mjög mikið í Rvík. Þau tilfelli, sem ég þekki, eru undantekningarlaust öll þannig, að þar hefir leigan lækkað allt að því um 20% nú á síðustu tímum. Það lætur þess vegna mjög nærri, að eftir 1. sjálfum eigi nú að fara fram einskonar endurmat. Skv. 1. gr. getur eigandi fasteignar krafizt endurmats, ef verðmæti eignarinnar rýrnar til muna milli þess, sem lögákveðið mat fer fram, og það eru ekki neinar undantekningar gerðar, af hvaða ástæðum það er, að eignin rýrnar til muna í verði. Það getur eins verið, að atvinnurekstur í einhverju sjávarplássi versni og jafnvel hverfi, eignirnar þar rýrna í verði, og þá er matið orðið skakkt. Skv. 2. gr. á líka, þegar matið fer fram, að hafa til hliðsjónar, hverjar tekjur geti fengizt af fasteigninni. Það er ekki nema sanngjarnt að taka tillit til þess. Ég hygg, að kreppan hafi orðið þess valdandi, að allar fasteignir í landinu hafa lækkað í verði, og þó ekki sé tekið tillit til neinna annara beinna eða óbeinna afleiðinga kreppunnar, þá er það víst, að fasteignirnar í landinu hafa hvergi lækkað minna en 10%; það er víst áreiðanlegt. Eftir l. frá 1931 var sett hér einskonar landsskattanefnd til þess að samræma matið í landinu, og þetta hefir sjálfsagt verið skynsamleg ráðstöfun, þó að það megi vera erfitt fyrir þá menn, sem sitja í þeirri n., að vera svo kunnugir alstaðar á landinu, að fullt samræmi geti orðið hvað matið snertir, hvar á landinu sem er. Þegar n. starfaði í fyrsta skipti, þá færði hún upp um 10% allt mat a. m. k. hér í Rvík og í Hafnarfirði. Mér er ekki alveg kunnugt um, hvort þetta átti að vera til þess að samríma matið á þessum stöðum við matið annarsstaðar á landinu. Hefði legið nær, að yfirmatsnefndin hefði tekið tillit til þeirra aðstæðna, sem þá voru komnar fram og hefðu lækkað matið þar sem það hefði þótt of hátt. Mér er nú kunnugt um það, en ég er kunnugastur þessu í Rvík, að þessi hækkun, sem hefir orðið á fasteignamatinu og þeim sköttum, sem á því eru beinlínis byggðir, hefir orðið til þess, að fjöldi manna á nú mjög erfitt með að halda húsum sínum. Hér er fjöldi manna, sem hafa heldur litlar tekjur, en eiga lítil hús, sem þeir búa í sjálfir og geta lítið leigt út. Menn geta séð, ef þeir ganga um göturnar í austurbænum, að þar er mikið af einbýlishúsum. Í þessum húsum eru víða 2 herbergi og eldhús. Fjöldi af þessum mönnum á erfitt með að halda þessum húsum, eftir að skattarnir hafa hækkað eins gífurlega eins og þeir hafa hækkað við nýja matið.

Sama er um þá að segja, sem ráðizt hafa í stærri húsbyggingar og treysta algerlega á húsaleiguna. Þeir fá það lakari útreið en hinir, að þeir fá hvorttveggja í senn, hina lækkandi leigu og hina stórkostlegu hækkuðu skatta af húsunum. Þetta getur sjálfsagt orðið til þess, að margir menn verði að ganga frá þessum eignum, og er hætt við á slíkum tímum, sem nú eru, að af þessu yrðu mikil töp, ekki aðeins fyrir þessa menn, heldur líka fyrir þær lánsstofnanir, sem lánað hafa út á þessi hús.

Ég skal svo ekki að svo komnu fjölyrða meira um þetta frv., en vil aðeins óska þess, að það fái að ganga til 2. umr., og held ég, að réttast sé að vísa því til kreppunefndarinnar, sem hér hefir verið kosin. Hér er um bráðabirgðaráðstöfun að ræða, sem miðuð er við kreppuástandið, sem er, og úr því hv. d. hefir kosið sérstaka kreppunefnd, þá held ég, að þetta frv. eigi þar helzt heima og að auðveldara sé þá að taka tillit til þess einmitt í sambandi við önnur mál, sem sú n. fær til meðferðar.