20.03.1933
Neðri deild: 31. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 423 í C-deild Alþingistíðinda. (4637)

112. mál, fasteignamat

Pétur Ottesen [óyfirl.]:

Ég vil leyfa mér að segja nokkur orð út af þeim ummælum, sem féllu hjá hv. 1. þm. S.-M. um það, að hann sagðist hafa lesið það út úr fasteignamatsbókinni, að leigujarðir væru metnar langtum minna en jarðir, sem eru í sjálfsábúð, og orsökina fyrir þessu taldi hann þá, að þeir, sem byggju á leigujörðum, hefðu meiri tilhneigingu til þess í lýsingu sinni á jörðunum að draga úr gildi þeirra. En þeir, sem aftur byggju á þeim jörðum, sem þeir ættu sjálfir, hefðu sterkari hvöt til að gera meira úr kostum jarðarinnar, til þess að geta fengið meira lán út á þær. Það getur verið, að þessa hafi einhversstaðar gætt í þeim gögnum, sem fyrir fasteignamatsnefndunum hafa legið, en að því leyti, sem ég þekki til, sem er vitanlega ekki nema í þeirri sýslu, sem ég fékkst við mat í, þá þekki ég ekki til þessa. Ég held, að orsökin til þess, að leigujarðir séu yfirleitt lægra metnar hlutfallslega, eigi rót sína að rekja til þess, að það hafi orðið minni framfarir í ræktun og húsabyggingum á leigujörðum en jörðum, sem eru í sjálfsábúð. Í þessu liggur sá munur, sem hv. þm. var að benda til.

Að öðru leyti vil ég viðvíkjandi þessu frv. benda á það, að það eru orðnir breyttir tímar að því er snertir fasteignamatið í sveitum landsins, frá því er matið fór fram og til þess tíma, er nú stendur yfir. Var grundvöllurinn undir það víðast hvar lagður á árinu 1929, og þá vitanlega byggt á því ástandi, sem var í sveitum landsins, þótt það væri ekki fullgert fyrr en 1930.

En nú er það kunnugt, að verðlag á landbúnaðarafurðum, eða þeim afurðum, sem selzt hafa út úr landinu, hefir fallið hvorki meira né minna en um 65% frá því 1929. Og nú er það vitanlegt, að gildi jarða í sveitum fyrir eigendurna byggist eingöngu á afurðaverðinu. Það er ekki til neinn annar grundvöllur undir þetta, og það sjá allir, hve geysilegur munur er hér á orðinn. Mér er sagt, að landsnefndin, sem síðast fór höndum um þetta mat, hafi lækkað verð jarða í sveitum um 10 - 20%, en þó þetta hafi verið gert, þá sjá allir, hver geysilegur munur er orðinn á afurðaverðinu nú eða þegar matið var framkvæmt.