25.03.1933
Neðri deild: 36. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 430 í C-deild Alþingistíðinda. (4648)

113. mál, samvinnubyggðir

Flm. (Steingrímur Steinþórsson):

Frv. það um samvinnubyggðir, sem við hv. 2. þm. Rang. flytjum á þskj. 190, er algert nýmæli í landbúnaðarlöggjöf okkar Íslendinga. Berum við það fram meira til þess að hreyfa málinu og kynna það hér í hv. deild en af hinu, að við búumst við, að það nái samþykki þingsins algerlega í því formi, sem það nú hefir. Okkur flm. er ljóst, að mál þetta þarf vandlegrar athugunar, og leggjum því meira upp úr því, að hv. deild, og þá einkum sú n., sem væntanlega fær málið til meðferðar, leggi fulla alúð við meðferð þess, heldur en það endilega nái afgreiðslu á þessu þingi. Það, sem allra helzt einkennir byggðir okkar, er það, hvað býlin eru dreifð skipulagslaust um landið. Býlin virðast sett af algerðu handahófi. Enda vakti ekki það sama fyrir mönnum upphaflega, þegar býlin voru sett, og nú vakir fyrir þeim, er reisa sér nýbýli. Bæjarstæðin hafa þá ekki verið valin með tilliti til þeirra samgöngutækja, er nú tíðkast, né að aðstaða til ræktunar eftir nútíma mælikvarða væri hagstæð. Er erfitt, eins og nú er byggðum skipað, að koma við flestum menningartækjum, sem nútímalíf heimtar. Má þar til nefna samgöngutæki öll, sem tengd eru vegum, síma, notkun rafmagns o. fl., sem dreifbýlið veldur, að kemur að litlum eða engum notum. Býst ég sérstaklega við, að rafvirkjun verði víðast lítt framkvæmanleg til sameiginlegra afnota fyrir heil byggðarlög vegna strjálbýlisins og þeirra erfiðleika, sem það skapar. Löggjöf okkar hefir jafnan verið miðuð við þessar dreifðu byggðir. Öll landbúnaðarlöggjöf okkar er algerlega miðuð við einstök býli, en ekki gert ráð fyrir neinni samvinnu í framkvæmdum þeirra á milli. Má þar fyrst nefna ábúðarlögin sjálf; þar er alls ekki gert ráð fyrir þeim möguleika, að nokkur samvinnubúskapur geti átt sér stað. Eins er um jarðræktarl., sem orðið hafa einna áhrifaríkust á síðari árum um að efla jarðræktina. Þar er gengið úr frá því, að hvert býli standi eitt að ræktun sinni. Sama er að segja um ræktunarsjóð, byggingar- og landnámssjóð og aðrar deildir Búnaðarbankans. Þannig mætti telja áfram og fara gegnum alla okkar landbúnaðarlöggjöf; þar er hvergi vísir að skipulagi né samvinnu hinna einstöku býla á milli. Nú hefir svo farið, að mikið af hinum fyrri byggðum landsins hefir lagzt í auðn, og má gera ráð fyrir því, að ekki sé enn komið að lokaþættinum í því máli. Er það eflaust enn hlutskipti margra sveita að eiga eftir að leggjast í auðn. Stefnir yfirleitt að því, að efstu byggðir í dölum eða býli á heiðum uppi leggist smám saman niður. Getur því verið varhugavert að verja fé til býla, er hafa litla þróunarmöguleika í framtíðinni. Hefir talsvert verið á þetta atriði minnzt á síðari árum, og þarf að athuga það nánar í sambandi við þá auknu möguleika, sem á þessum árum hafa opnazt bændum til þess að fá fjármagn til margskonar framkvæmda og umbóta á búnaðarháttum sínum. Virðist lítið vit í því að veita fjármagni til býla, sem þannig eru í sveit sett, að litlar líkur eru til þess, að þau verði byggð til langframa. Orkar ekki tvímælis um það, að stefna verður að fastara skipulagi á byggðum landsins. Er þetta auðvitað erfiðleikum bundið, og dettur mér ekki í hug, að hægt sé á skömmum tíma að færa saman byggðirnar og koma á þær föstu skipulagi. En það er hægt að leggja drög að skipulagi þeirra byggða, er rísa kunna upp í framtíðinni. Tel ég þá eina leið færa í þessu máli að marka framtíðarskipulag byggðanna gegnum nýbýlalöggjöf. Þetta frv. vill benda á leiðir til þess.

Fólki er nú alltaf að fækka í sveitunum, ekki aðeins hlutfallslega við bæina, heldur raunverulega. Á áratugnum 1920- 1930 hefir fólki fækkað í sveitum landsins um því sem næst 2%. Þó á þetta sér ekki undantekningarlaust stað um allar sveitir. Í stöku sveitum hefir fólki fjölgað, sérstaklega þar, sem margbýli er á jörðum og sem því er um nokkra samvinnu í búskap að ræða. Veit ég um eina slíka sveit á Norðurlandi, þar sem allmikil fólksfjölgun hefir orðið þetta sama tímabil, enda hefir margbýli tíðkazt þar mjög og að mörgu leyti verið um nána samvinnu að ræða milli býla á sömu jörð. Bendir þetta í þá átt, að það, sem einkum rekur fólkið úr sveitunum, sé strjálbýlið og einangrunin og engin samvinna býla á milli, þótt fleira komi þar til greina. En þrátt fyrir margar tilraunir, sem gerðar hafa verið, einkum hinn síðasta áratug, til þess að efla landbúnað vorn og beina málum hans á nýjar brautir, þá hefir þó svo farið, að fólki hefir fækkað yfirleitt við þennan atvinnuveg. Er það skoðun okkar flm., að voði sé fyrir dyrum, ef þessu heldur áfram. Hlýtur svo að fara að lokum, ef sveitirnar smátæmast af fólki, þá smádvína áhrif landbúnaðar fjárhagslega og menningarlega í íslenzku þjóðlífi, og svo gæti farið að lokum, að hér yrðu fiskiver ein eftir.

Ég held, að það sé aðeins eitt ráð, sem dugir til að hindra það, að sveitirnar tæmist af fólki, en stuðla að eðlilegri fólksfjölgun. Sú leið er að skapa ný heimili fyrir unga fólkið í sveitum landsins á þeim stöðum, þar sem skilyrðin eru bezt. Hugsanlegur er líka sá möguleiki að stofna mörg stórbýli með fjölda verkafólks á höndum fárra atvinnurekenda. En þá leið álít ég þó lítt færa, eins og nú hefir stefnt hin síðari ár, enda frá sjónarmiði okkar flm. þessa frv. sízt eftirsóknarvert, að búnaður okkar þróaðist í þá átt.

Nýbýli geta skapazt á tvennan hátt. Í fyrsta lagi með því, að jarðir skiptast, þannig, að sonur taki hluta af jörð föður síns og byggi þar nýbýli, svo að tvö býli rísi þar, sem áður var eitt. Er þetta eðlilegast að mörgu leyti, og ber að stuðla að því, að þetta geti orðið. Hafa nýbýlingum, sem nýbýli reisa á þessum grundvelli, verið veitt mikilsverð hlunnindi með lánum þeim, sem byggingar- og landnámssjóður veitir. Í öðru lagi geta nýbýli myndazt með skipulegum framkvæmdum ríkisvaldsins á þessu sviði. Þetta frv. á nú að benda á leiðir í þá átt. Skal ekki í þetta inn komið inn á einstök atriði frv., nema að litlu leyti. Ríkið verður að leggja mikið fé fram af stofnkostnaði nýbýla, sem reist yrðu á þennan hátt, ef von á að vera um það, að þau geti komizt á fjárhagslega traustan grundvöll. Þá leið hefir orðið að fara í nágrannalöndum okkar, þar sem fleiri þúsund nýbýla eru reist árlega, að ríkið hefir orðið að gefa allverulegan hluta af stofnkostnaði annaðhvort sem beint framlag eða vaxtalaust lán til lengri tíma.

Í frv. er gert ráð fyrir, að í fjárlögum hvers árs sé ákveðin upphæð ætluð til samvinnubyggða. Höfum við nefnt 200 þús. kr. sem árlegt framlag, en álitamál getur það verið, hve há hún skuli vera. Er svo til ætlazt, að yfirumsjón málsins hafi nefnd, er ríkisstjórnin skipar samkv. tillögum Búnaðarfél. Íslands og Búnaðarbankans, sem nefnist samvinnubyggðanefnd og starfi undir atvinnumálaráðuneytinu. Samvinnubyggðanefnd á að sjá um undirbúning og framkvæmdir allar á þann hátt, sem ákveðið er í frv. Ríkissjóður á nokkurt land, sem er vel til þess fallið að stofna þar til byggðahverfa með samvinnusniði. Nokkuð af framlögum ríkissjóðs mundi verða land, sem ríkið á nú, en að öðrum kosti verður samvinnubyggðanefnd að kaupa land, sem vel væri fallið til slíkra hluta. Hinn hlutinn af framlagi ríkissjóðs yrði notaður til þess að rækta landið og undirbúa það fyrir býlið, því að gert er ráð fyrir, að hvert býli fái nokkuð af fullræktuðu landi. Hverju býli skulu fylgja 4 ha. af fullræktuðu landi, þegar samvinnubyggðanefnd skilar því í hendur félögunum. Verður að leggja áherzlu á, að hinar arðgæfu framkvæmdir komi fyrst og að nýbýlingarnir hafi möguleika til framleiðslu á nokkru af ræktuðu landi strax og þeir taka við því. Af 4 ha. af góðu túni má fá 4- 6 kýrfóður, og er það mikill léttir fyrir nýbýlinga að taka þá uppskeru af ræktuðu landi strax í byrjun. Annars á samvinnubyggðan. að ákveða tilhögunina í hinu fyrirhugaða byggðahverfi, hvernig býlum skuli skipað niður, hve mörg býli skuli vera í hverju hverfi, og yfirleitt um allt það, er snertir skipulag þeirra, allt undir yfirumsjón atvinnumálaráðuneytisins.

2. kafli fjallar um samvinnubyggðafélög þau, sem stofnuð yrðu. Þeim er ætlað að taka við landi því, sem samvinnubyggðan. hafa látið undirbúa, og leigja síðan út til félagsmanna sinna. Gert er ráð fyrir, að ríkið gangi svo frá þessu landi, að taka megi það þegar til ábúðar, þar sem framlag ríkissjóðs skal aðalleganotað til þess að hefja ræktun, leggja vegi að landinu o. fl. Samvinnubyggðafélög eiga að greiða 3% vexti af grunnverði landsins. En með grunnverði er átt við kostnaðarverð þess þegar samvinnubyggðanefnd skilar því í hendur samvinnubyggðafélaga. Held ég reyndar, að 3% sé of hátt fyrstu árin. Ég býst við, að það komi í ljós, að nauðsynlegt sé, að nýbýlingarnir séu lausir við alla vaxtagreiðslu fyrst í stað, t. d. fyrstu fimm árin. Nýbýlingum er ætlað að koma upp byggingum og fleiru, sem krefur mikilla framlaga frumbýlingsárin fyrstu, og mun því ekki veita af því, að þeir fái landið afgjaldsfrítt fyrst í stað. Ég bendi á þetta til þess að hv. deild sjái, að það er sízt gengið of langt nýbýlingunum til handa í frv.

Nú eiga samvinnubyggðafélögin að reisa nauðsynleg hús í byggðahverfum og er ekki gert ráð fyrir öðrum stuðningi frá því opinbera en að ríkið ábyrgist 80% af kostnaðarverði nauðsynlegra bygginga. Byggingar skulu gerðar eftir staðfestum uppdráttum og að öllu leyti undir ströngu eftirliti samvinnubyggðanefndar. Ég efast alveg um, að þetta sé nægilegur styrkur fyrir nýbýlinga til þess að koma upp nauðsynlegum húsum, en við flm. vildum ekki ganga of langt í fyrstu. Úr byggingar- og landnámssjóði er veittur beinn styrkur til endurbygginga bæjarhúsa og til nýbýla, þar sem ríkið greiðir árlega stórfé í vaxtamismun. Slíkan styrk er hér ekki farið fram á nýbýlingum til handa í þessu frumv., en ég get vel búizt við, að við nánari yfirvegun komi í ljós, að nauðsynlegt sé, að ríkið veiti meiri framlög til stofnkostnaðar á nýbýlum þessum en hér er ráð fyrir gert. Ég get tekið það fram, til þess að sýna fram á, að ekki er gengið of langt í frv., að í nágrannalöndunum er veitt miklu meiri hjálp af hinu opinbera til þess að hjálpa nýbýlunum af stað. Hugmynd okkar flm. er sú, að það verði alveg á valdi hvers samvinnubyggðafélags, hvernig fyrirkomulag um rekstur búanna verður á hverjum stað eða í hverju hverfi. Hvort hvert býli verði sjálfstætt út af fyrir sig um allan búrekstur, eða býlin hafi með sér samvinnubúskap að meira eða minna leyti. Slíkt ákveður hvert félag út af fyrir sig, og er eðlilegast, að hvert félag hafi sem óbundnastar hendur um allt starfsfyrirkomulag, en geti sjálft sett sér samþykktir um það efni. - Það má hugsa sér búskap þennan rekinn á mjög mismunandi hátt. Það getur verið um algerðan einkarekstur að ræða, þar sem hvert býli er algerlega sjálfstætt um búskapinn, aðeins samvinna um afurðasölu og vinnslu úr afurðum. Þá getur garðræktin og jarðyrkjan ein verið sameiginleg og heyfengnum og afrakstrinum síðan skipt upp milli býlanna eftir ákveðnum reglum. Þetta fyrirkomulag er ekki með öllu óþekkt hér á landi, heldur hefir þetta tíðkazt á ýmsum margbýlum, þar sem jörðin er ræktuð sameiginlega, heyskapur sameiginlegur, en heyaflanum skipt síðan. Búpeningur er séreign hvers bónda fyrir sig. Þetta skipulag mætti vel hugsa sér á samvinnubúum, og hygg ég, að það mætti gefast vel, og ef til vill væri eðlilegast að byrja á slíkri tegund í samvinnubúskap fyrst. Þá mætti hugsa sér annað stig í þróun samvinnubúskaparins, þar sem ekki aðeins landið og ræktun þess væri sameiginlegt, heldur einnig búpeningur og peningshús, sem þá er sameign félagsins. Loks gæti átt sér stað sameiginlegur búrekstur að öllu leyti með sameiginlegu eldhúsi og matreiðslu fyrir allt byggðahverfið. Innan þessa ramma er því um mjög fjölbreytt skipulag að ræða, og höfum við talið réttast, að hverju byggðafélagi væri í sjálfsvald sett, hvert skipulagið þeir taki upp, en að sjálfsögðu yrði sama skipulag að gilda fyrir hvert samvinnubyggðahverfi, og yrði það ákveðið í samþykktum hvers félags. Sé ég ekki ástæðu til að fara lengra út í þetta að svo komnu.

Ég vil benda á, að í frv. eru ströng ákvæði, sem gera óeðlilega verðhækkun á mannvirkjum og landi óhugsandi. Ef félagi selur fasteignir sínar og annar nýr eigandi gengur inn í byggðafélagið í hans stað, þá má sá, sem selur, aðeins selja fyrir kostnaðarverð þau mannvirki, sem hann á, að frádregnu hæfilegu fyrningargjaldi. Þetta er mjög nauðsynlegt ákvæði, ekki sízt nú á tímum, þegar braskað er með jarðeignir og aðrar fasteignir, svo ekki nær nokkurri átt.

Ég tók það fram áður, að ég byggist við breytingum við þetta frv. okkar. Þetta er nýmæli, sem hér er á ferðinni, og þarf því gaumgæfilegrar athugunar við. Okkur flm. er þetta fullkomlega ljóst, og vil ég drepa á, að við lítum svo á, að nýjan kafla þyrfti í frv. um samyrkjubúskap, sem ég vildi leyfa mér að kalla það, þar sem fleiri eða færri býli mynduðu með sér félag um ræktun og skiptu síðan uppskerunni milli sín. Að því er þetta frábrugðið hinu, að hér geta gömul býli myndað með sér félag um samyrkja. Tel ég, að á þennan hátt verði í ýmsum tilfellum heppilegast að ýta þessu áleiðis. Ég veit, að á nokkrum stöðum er vaknaður áhugi manna fyrir ræktun á þessum grundvelli. Gæti því vel komið til mála að verja nokkru af framlagi ríkissjóðs til samyrkjubyggða á þann hátt, sem hér hefir verið á það drepið. Auðvitað verða aðrar reglur að gilda um notkun þess fjár heldur en um það, sem fer til nýbýla eingöngu. Ég bendi aðeins á þetta að sinni, en býst eins vel við, að við flm. munum leggja fram brtt. við frv., það er ekki þannig, að við teljum frv. óbreytanlegt eða alfullkomið, heldur er það hugsað sem frumdrættir að nýju skipulagi um búskaparháttu, en sem sjálfsagt geta tekið miklum endurbótum í meðförum þingsins, og svo mun reynslan að sjálfsögðu síðar meir kenna okkur, hvernig breyta þarf því skipulagi, sem hér er hugsað, svo að það geti komið að fullum notum.

Nú á tímum er ekki um annað meira rætt og ritað heldur en kreppuna. Ég get líka fallizt á það, að höfuðverkefni þessa þings eigi að vera leit að því að finna lausn á þeim vandræðum, sem kreppan hefir skapað. Þetta frv. verður ekki kallað kreppufrv. í þeim skilningi, að það bendi á ráð gegn þeim stundarvandræðum, sem nú þjá allan almenning og þó einkum bændur hér á þessu landi. En kreppan hefir tvennskonar rætur; öðrum þræði stafar hún af verðfalli afurðanna og þar af leiðandi stórfelldri tekjurýrnun og allskonar ringulreið viðskiptalífsins. En öðrum þræði á kreppan rót sína að rekja til veilna á skipulaginu sjálfu. Slíkar veilur koma aldrei skýrar fram en á krepputímum, því að þá lætur undan þar, sem veikast er fyrir, og því er aldrei betra en þá að átta sig, hvar aðgerða er þörf.

Eitt af því, sem gerir landbúnaði svo erfitt uppdráttar, er dreifbýlið, og ég hygg, að aldrei komist landbúskapur í fullkomlega gott horf fyrr en breytt er til í þá átt, sem þetta frv. bendir til. Ef eitthvað svipað skipulag væri upp tekið, þá gæti það orðið til þess að draga úr kreppum síðar meir, þótt frv. þetta muni engin áhrif hafa á yfirstandandi örðugleika.

Að lokum vænti ég, að hv. d. leyfi málinu að ganga til 2. umr., og legg ég til, að því verði vísað til landbn. að lokinni þessari 1. umr.