28.03.1933
Neðri deild: 38. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 453 í C-deild Alþingistíðinda. (4656)

115. mál, áfengislög

Pétur Ottesen [óyfirl.] [Frh.]:

Þegar mál þetta var hér síðast til umr. hafði ég talað dálítið um það, en var þó ekki kominn nema stutt áleiðis (BSt: Ég held, að væri nóg komið). Ég get vel skilið það, að flm. þessa frv. hafi þótt nóg komið, en það dregur ekki úr mér. Ég var búinn með tvö eða þrjú atriði í málinu, en atriðin eru miklu fleiri, sem gefið hefir verið tilefni til að drepa á með flutningi þessa máls hér í þinginu. Ég hafði bent á það, hversu frámunaleg frekja kæmi fram í því að ætla sér að knýja þetta mál áfram án þess að þjóðaratkv. gengi um málið áður, því að þetta mál er upphaflega komið í hendur löggjafans eftir þeirri leið, og afstaða þingsins þá var algerlega í samræmi við vilja þjóðarinnar í málinu. Ég hafði ennfremur bent á það, hver reginfjarstæða það væri að ætla sér að kveða niður heimabruggið með því að setja hér upp ríkiseinkasölu á sterkum drykkjum, sem seldir væru við dýru verði, til þess að láta fljóta eftir þeirri leið sem mestar tekjur í ríkiskassann, því að auðvitað mundi þetta þvert á móti verða sá sterkasti varnarmúr, sem hægt er að hlaða utan um bruggið í landinu. Hafði ég gert þessum báðum atriðum það full skil, að ég sé ekki ástæðu til að bæta þar neinu við að svo stöddu.

Hv. 1. flm. lét svo um mælt, að frv. mundi verða til að draga úr vínnautninni til þeirra muna, að horfa mundi til mikilla umbóta frá því ástandi, sem við nú eigum við að búa í þessum efnum. Hafði ég bent á það, hver mótsögn fælist í þessum ummælum hv. flm. annarsvegar og ákvæðum frv. hinsvegar. Í stað þess sem nú er ekki heimilt að selja hér annað vín en þetta Spánarvín, sem þvingað var upp á þjóðina sællar minningar, og þó ekki megi selja nema í kaupstöðunum og við mjög takmarkaða sölu á ýmsan hátt, gerir þetta frv. ráð fyrir, að tilraun verði gerð til að selja sterka drykki í hverri kaupstaðarholu, þar sem eru 300 íbúar og fleiri og hægt verður að skrapa saman nægilega marga skoðanabræður hv. flm. frv. Þannig á að draga úr vínnautninni í landinu, með því að hleypa meira vínflóði yfir landið en nú þó er. Skal ég reyndar ekki segja, hvort þetta tekst eða ekki, en ef nægilega margir þm. verða til að fylkja sér um frv., er flóðið skollið yfir. Og ekki nóg með þetta. Það eru fleiri stoðir, sem undir það hníga, að á bak við þetta frv. sé sterk alda til að dreifa víninu út um landið. Er þannig gert ráð fyrir því í 2. gr., að leyfður verði tilbúningur og sala á áfengu öli í landinu, og á það að verða undanþegið öllum þeim takmörkunarákvæðum frv. um tilbúning og sölu áfengra drykkja, sem flm. þó vilja setja um þessa hluti. Áfengi í líki öls á þannig að verða frjálst að selja hvar sem er á landinu, og eru öll vopn slegin úr höndum borgaranna til þess að veita nokkurt viðnám í þessu efni, að því leyti sem þeim verður mögulegt með samtökum að koma í veg fyrir sölu á sterkum drykkjum, og eru þannig allar flóðgáttir opnaðar fyrir því áfengi, sem búið er til undir heitinu öl. Það verða því ekki færðar neinar varnir fyrir því, að með þessu frv. er ekki aðeins verið að opna möguleika fyrir aukinni áfengisnautn í landinu, heldur liggur það í eðli hlutarins, að afleiðingin af samþykkt frv. verður sú, að sterk vínalda fer yfir allt landið, og eins og svo vill fara um þá kynflokka, sem taldir hafa verið lausir við ýmsa kvilla og pestir, að þeir eru miklu varnarlausari gegn þessu, þegar það ber að garði, eins má búast við því, að við, sem búið höfum við mjög takmarkaða áfengissölu undanfarið, komum til með að eiga illt með að fóta okkur í þessum efnum til að byrja með. Má því gera ráð fyrir, að með samþykkt frv., meðan við erum að safna okkar mótstöðukrafti, rísi flóðbylgjan hátt, og að jafnvel standi ekki upp úr nein þúfa á landinu, heldur verði sjór í miðjum hlíðum hreint og beint.

Jafnframt því sem hv. flm. bölvaði banninu og lýsti með átakanlegum orðum afleiðingum þess fyrir þjóðina, varð hann þó að viðurkenna, að hér væri minna drukkið en þar erlendis, sem hann þekkir til, sem er víða. Getur að vísu margt legið til grundvallar fyrir því, að svo er, því að ég viðurkenni þetta hjá hv. flm., og styðst ég þar við upplýsingar, sem ég hefi aflað mér í þessu efni líka. Þetta getur t. d. legið í lyndiseinkunnum þjóðarinnar að einhverju leyti, en ég held þó, að leita þurfi nær að orsökunum og að þetta liggi að mestu leyti í þeim takmörkunum, sem hafa verið á vínsölu hér á landi undanfarið, enda hefir samhliða þeim verið unnið dyggilega á móti allri vínnautn og ofdrykkju af þeim mönnum, sem bera uppi bindindisstarfsemina í landinu og sýnt hafa í því mikla fórnfýsi og ósérplægni. Í þriðja lagi hefir hér á síðustu árum verið komið upp öflugra tolleftirliti en við áður höfðum búið við. Þetta eru meginstoðirnar undir því, að við höfum átt því láni að fagna, að hér er minna drukkið en annarsstaðar, að við offrum minna af heilsu, kröftum, starfsþreki og fjármunum á altari ofdrykkjunnar en aðrar þjóðir verða að gera.

Þessar upplýsingar benda til þess, að hér sé verið að ráðast á þær ráðstafanir, sem ótvírætt eiga sinn drjúga þátt í því, að svona er. Það kemur fram í frv. og hefir líka komið fram í flutningi málsins, að hér er verið að ráðast á þær ráðstafanir, sem valda því, að við þurfum ekki að búa við eins mikið böl af völdum ofdrykkjunnar eins og þjóðirnar í nágrannalöndum okkar. Annars hefði hér verið um till. að ræða til að efla og styrkja aðstöðu okkar í þessum efnum, svo að vínnautnin færi minnkandi frá því, sem nú er. En frv. þvert á móti rífur niður alla þá varnarmúra, sem hér eru nú, og hlýtur afleiðingin að verða sú, að þessi mismunur á okkur og öðrum þjóðum minnkar, svo að að því rekur smátt og smátt, að drykkjuskapurinn hér á landi færist í það horf að hálgast meir og meir það, sem er í nágrannalöndunum, og það er jafnvel hætt við því, að með því að breiða faðminn svo út á móti Bacchusi eins og gert yrði með þessu frv., yrði til þess stefnt, að við yrðum ekki lengur ekki aðeins eftirbátar annara þjóða, heldur gengjum feti framar en þær í þessum efnum, og þarf ég ekki að eyða orðum að því, hvert skaðræði það er, ef við lentum svo djúpt í þessu foræði. Ég held, að öllum sé það svo ljóst, að þeir ættu frekar að sporna við því en að greiða götu þess, að svo gæti farið. Það liggur í augum uppi, að ef frv. er samþ. eins og það liggur fyrir, leiðir það til þess, að drykkjuskapurinn eykst hröðum fetum í landinu, svo að búast má við því, að ofan á hina miklu örðugleika, sem við nú þurfum við að stríða á fleiri sviðum, gætu bætzt við meiri örðugleikar á þessu sviði, sem yrðu þrándur í götu í því viðreisnarstarfi, sem nú liggur fyrir á sviði atvinnuveganna og afkomu þjóðarinnar. Má því með sanni segja, að þessi ummæli hv. flm., sem enda líka koma fram í grg. frv., um það, að með frv. sé stefnt í þá átt að draga úr vínnautninni í landinu, séu ill stæling á hinum nafnkunnu öfugmælavísum, sem liggja á vörum þjóðarinnar, því að listina brestur, sem öfugmælavísurnar hinsvegar hafa til að bera.

Hv. flm. talaði nokkrum orðum um það, hvernig umhorfs væri í þessum löndum, þar sem banninu hefði verið komið á, en síðan afnumið, Finnlandi, Noregi og Bandaríkjunum, sem nú eru langt komin í því að afnema bannið hjá sér. Jafnframt þessum sögulegu upplýsingum gat hv. flm. þess, að afnám bannsins í Finnlandi og Noregi hefði dregið úr drykkjuskapnum í þessum löndum. Er ég þó hissa á því, að hv. flm. skuli bera staðhæfingar eins og þessar á borð hér í sölum Alþingis. Það er alkunnugt, að t. d. í Noregi hófst hin mesta drykkjuskaparöld þar í landi. Árið 1931 var þannig drukkið fyrir 264 millj. kr. í Noregi, og er það miklu meira en áður hafði verið varið til drykkjuskapar þar í landi, og í Osló einni var drukkið fyrir 54 millj. kr. þetta sama ár, sem er miklu hærri upphæð en nokkru sinni áður hefir verið varið til áfengiskaupa í þeirri borg. Þvert ofan í þessar staðreyndir heldur hv. flm. því fram, að afleiðingarnar af afnámi bannsins hafi orðið þær, að drykkjuskapurinn hafi minnkað í Noregi. Og sama máli gegnir um reynslu Finna í þessum efnum. Afnámið varð þar líka til þess að auka drykkjuskapinn, eins og líka var vitanlegt öllum þeim, sem hafa augu til að sjá og eyru til að heyra. Þetta sýnir, að hið sama mundi koma hér fram í því átakanlegri mynd sem takmarkanirnar hafa gengið lengra hér en þar.

Hv. flm. sagði að bannið væri afnumið í Bandaríkjunum. En það er nú alls ekki tilfellið. Þingið hefir að vísu tekið sína afstöðu til bannsins, en kálið er nú ekki sopið, þótt í ausuna sé komið, því að bannið er í stjórnarskrá Bandaríkjanna, en breyt. á henni eru háðar íhlutunarvaldi hinna einstöku ríkja, þannig að meiri hl. þeirra verður að greiða atkv. með breyt. Það er því alls ekki hægt að segja enn um það, hvort ameríska þjóðin vill afnám bannsins eða ekki, fremur en hvort þjóðarvilji lægi á bak við þetta frv., þótt það kynni að slysast í gegn á þinginu. Það er jafnvel alls ekki ólíklegt, að borgararnir í Bandaríkjunum játi sér ekki nægja að stöðva afnám laganna, heldur hreint og beint knýi löggjafarvaldið til að hefja nýja sókn. Árangurinn af atkvgr. í hinum einstöku fylkjum getur alveg eins orðið þetta og hið gagnstæða.

Flm. talaði mikið um það, að afnám núgildandi áfengislöggjafar myndi hafa í för með sér minnkandi smyglun og minnkandi tolleftirlit. Ég vildi því benda honum á reynsluna um þetta í Noregi. Þar hefir reynslan orðið sú, að smyglunin hefir síður en svo minnkað, né heldur kostnaður við tollgæzluna. Ég man ekki betur en hingað alla leið hafi borizt fregnir um stórkostlegar smyglanir og smyglunartilraunir á áfengi til Noregs frá Hollandi, Englandi og Danmörku. Áfengið var jafnvel í heilum skipsförmum. Þetta sýnir, að afnám áfengistakmarkana dregur alls ekki úr smyglunarhættunni eða tilhneigingunni til að græða fé ólöglega á þennan hátt. Sú ástæða er jöfn eftir sem áður og þeim mun meiri sem vínin eru seld dýrar og munurinn er meiri á innkaups- og útsöluverði. Hv. flm. skjóta því einnig hér fram hjá markinu.

Hv. flm. greip fram í fyrir mér á dögunum, þegar ég var að sýna fram á, hve vínin yrðu dýr eftir frv., þegar tollur er reiknaður með. En samkv. lögum á tollurinn að vera 3 kr. á hverjum lítra af víni, sem hefir allt að 8° styrkleika, 8 kr. á lítra af vínum með 8°- 12° styrkleika og 12 kr. á vín með 12°- 16° styrkleika. Sést á þessu, að þegar við innkaupsverð bætist tollur og álagning, verður vínið svo dýrt, að bruggarar og smyglarar standa engu verr að vígi í samkeppninni eftir en áður.

Þá varði flm. miklum tíma í að brýna fyrir þdm., hve tekjuþörf ríkisins væri mikil og hve tekjurnar af vínsölunni yrðu þungar á metunum. Taldi hann, að tekjurnar af hinni breyttu áfengislöggjöf myndi nema hundruðum þúsunda, ef ekki milljónum. Til þess að þetta geti orðið, þarf vínnautnin að aukast mikið, og það mun hún líka gera. Ég mæli því ekki á móti því, að svo geti orðið, að ríkissjóður fengi töluverðar tekjur af þessu. En þó að gott sé að auka tekjur ríkissjóðs, er ekki sama, á hvern veg það er gert. Og mér þykir sérstök ástæða, þegar hv. flm. er að brýna þdm. með því, að þarna sé fundinn nýr fjársjóður, að athugað sé, með hvaða hætti þjóðin á að leysa frá pyngjunni. Þessi tekjuöflun byggist á því einu, að tæra og veikja heilsu og vinnuþrek þjóðarinnar. Grundvöllurinn undir þessari kreppuráðstöfun er sá, að leggja þær freistingar fyrir þjóðina, er hún fær ekki staðizt, og eyðileggja heilsu hennar og vinnuþrek. Þetta eru verðmætin, sem á að fórna til að bæta úr kreppunni. (ÓTh: Maður skyldi halda, að hv. þm. hefði aldrei smakkað vín!). Það er líka svo.

Ég vil vænta þess, að hv. þdm. taki öll þessi atriði til nákvæmrar athugunar. (JAJ: Það er ómögulegt). Hv. flm. getur fullyrt það um sjálfan sig einan, að hann sé ekki maður til að taka neinum skynsamlegum athugasemdum, en ekki aðra. Ég hefi líka litið á hann sem fortapaðan sauð í þessu efni og var því að tala til hinna, sem ætla má, að séu móttækilegri fyrir skynsamlegum ráðum í málinu. Ég vil því beina því til hv. þdm., að þeir athugi vel, áður en þeir greiða atkv. í þessu máli, að með hverjum eyri, sem renna kann í ríkissjóð vegna þessarar lagabreyt., er verið að auka og æsa drykkjuskap í landinu, og að þjóðfélagið er að ganga á þann starfssjóð, sem öll okkar afkoma byggist á, sem er líkamleg og andleg heilbrigði þjóðarinnar.