28.03.1933
Neðri deild: 38. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 459 í C-deild Alþingistíðinda. (4657)

115. mál, áfengislög

Flm. (Jón Auðunn Jónsson):

Hv. þm. Borgf., sem líka er einskonar lögreglustjóri í Innri-Akraneshreppi, hefir nú látið ljós sitt skína hér um stund. (PO: Og á eftir að gera betur). Bara að það verði þá ekki villiljós áfram.

Hann kallaði það frekju að vilja afnema það litla, sem eftir er af bannlögunum, án þess að leita þjóðaratkvæðis. Ég hefði getað hugsað mér þessa leið undir öðrum kringumstæðum og get jafnvel hugsað mér hana sem síðustu leið, sem reynd verði til að fá lögin afnumin, ef aðrar leiðir reynast ófærar. En ástæðan til að ég vil ekki fara hana nú, er sú, að hér er allt öðruvísi umhorfs en þá er bannlögin voru sett. Nú er risin hér upp fjölmenn stétt sprúttsala og bruggara, sem myndu berjast á móti afnámi laganna með oddi og egg og leggja fram fé til að vinna á móti því, því að þeir eru ekki fáir, sem hafa lífsuppeldi af bruggun og smyglun. Ég get óskað hv. þm. Borgf. til lukku með sálufélag sitt við þessa menn að því er skoðun á afnámi bannsins snertir. (ÓTh: Og Felix!).

Hv. þm. Borgf. sagðist lifa í trú, en ekki skoðun í þessu máli. (PO: Ósatt!) Ég heyrði hv. þm. segja þetta, og vona, að það standi hjá skrifurunum. (PO: Ég sagði hið gagnstæða). En hv. þm. lifir ekki eingöngu í trú, heldur hjátrú. (ÓTh: Villutrú!)

Hv. þm. var að tala um hneykslismál í sambandi við handtöku einhvers bruggara fyrir austan fjall. Taldi hann, að blöð andbanninga hefðu flutt litaðar frásagnir af húsrannsókn hjá honum; hjá þessum blöðum var aðeins um fréttir, máske ýktar fréttir, að ræða. En ritstjóri þess blaðs, sem templarar gefa út fyrir ríkisfé, flytur forustugrein um þetta sama efni á fyrstu síðu og smjattar þar á ósómanum á svo viðbjóðslegan hátt, að slíkt á vægast sagt ekki að sjást á prenti.

Hv. þm. sagði, að vagga heimabruggsins væri í þeim löndum, þar sem ekki væri bann. Já, hvernig er það með Bandaríkin og Finnland? Þar eins og hér var bruggað sterkt áfengi, óheilnæmt, meðan bannið stóð og þó máske verst og mest í Noregi. Það er alkunna, að í Suðurlöndum, í Danmörku og miklu víðar er leyft að brugga létt vín úr ávöxtum í heimahúsum, til eigin nota. En sú bruggun, sem hér þrífst, er allt önnur og skaðlegri.

Ég hefi áður hent á, að hægt væri að selja brennivín með svo lágu verði, að það útrýmdi landanum, og að ríkissjóður gæti samt haft sína milljón í auknar tekjur af vínsölunni. Í fyrra tók hv. þm. Borgf. svo í þetta atriði, að hann bannfærði þá tillögu, sem sagt er, að einn sýslumaður landsins hafi borið fram og lengur í þá átt, að brennivín verði selt í hverjum hreppi. Enn ymprar hann á því sama. Hver er meiningin? Nú þegar bent er á leið til að selja eina víntegund með svo lágu verði, að bruggararnir geti ekki keppt, bregzt hv. þm. Borgf. reiður við. Í frv. stendur, að leggja megi á vínin allt að 100%. Þetta er hámarksálagningin og þýðir auðvitað alls ekki 100% á öllum vínum. (PO: Hvernig er það um álagninguna á Spánarvínum?). Að sjálfsögðu verður þeim tolllögum, sem nú gilda og miða við ástandið eins og það nú er, breytt, ef frv. verður samþ., og ég get ekki hugsað annað en ríkisstjórnin hagi svo álagningu, að bruggurum og smyglurum verði útrýmt, en það er auðvelt, ef bannið er afnumið. Telur hv. þm. hættu á, að Spánarvínum sé smyglað inn í landið? Þó að flaska af þeim, sem kostar 2 kr. í innkaupi, sé seld hér á 10 kr., eru fá dæmi til þess, að slíku víni hafi verið smyglað inn. Lögreglan í Rvík segir, að hún viti þess eitt dæmi, að einni flösku af spænskum vínum hafi verið smyglað, og sjá þó allir, hvort það gæti ekki verið gróðavon. Ástæðan er sú, að allir heiðvirðir menn skirrast við að svíkja fé af ríkissjóði, og almenningur fyrirlítur þá menn, sem flytja inn vín til að skaða ríkissjóðinn, þ. e. svíkja lögboðin gjöld af þeim vínum, sem ríkissjóður verzlar með. Enginn heiðvirður borgari vill kaupa vín, sem flutt er inn á sviksamlegan hátt, þegar hægt er að fá jafngott, löglegt vín, þó við hærra verði sé.

Það er leiðinlegt að heyra, að jafngáfaður maður og hv. þm. Borgf. skuli verða til að leiða fólkið í þessu máli og sýna þá fáfræði sem hann gerði sig beran að. Hann segir, að í frv. séu engar ráðstafanir fólgnar til að torvelda mönnum að ná í vín. Ég held, að ef hann vildi fremur lifa í skoðun en trú í þessu máli, hefði honum verið auðvelt að kynna sér, hvernig þetta er í öðrum löndum. Hann myndi þá sjá, að gert er ráð fyrir meiri hömlum í frv. en þar tíðkast. Eftir frv. má t. d. ekki veita vín í skipum né í þeim bæjum og þorpum, þar sem meiri hl. borgaranna er því mótfallinn. En hitt að gera innflutning á vínum svo torveldan, að bruggunin geti þrifizt áfram eftir sem áður, er blátt áfram heimskulegt. Það er vitanlegt, að ef landsmönnum verður gert ómögulegt að ná í vín nema á einum stað í landinu, t. d. í Rvík, þá verður aðalafleiðing þess sú, að bruggararnir þrífast og blómgast. Hv. þm. virðist hafa misskilið það, sem ég hafði sagt um álit Amulreesnefndarinnar í Englandi á þann hátt, að enska ríkisstj. hefði lagt fram fé til þess að draga úr vínnautninni í landinu. En ég sagði, að samkv. áliti nefndarinnar hefði mest verið dregið úr víndrykkjunni með iðkun íþrótta, ódýrum ferðalögum borgarbúa í frítímum sínum, með lesstofum fyrir almenning og kvikmyndum til fræðslu fyrir almenning um skaðsemi ofdrykkjunnar. Ríkissjóðurinn enski greiðir lítið eða ekkert fé í þessu skyni. En það eru einstakir áhugamenn og félög, sem hafa haldið þessari starfsemi uppi. Víða hafa einstakir menn og félög haft forgöngu um það, að iðnaðar- og verzlunarfólk fer skemmtiferðir um helgar, og er þá lagt kapp á að gera fólkinu það sem ódýrast og léttast fyrir, til þess að þátttakan geti verið sem almennust. Þetta borgar sig á tvennan hátt, einstaklingarnir fá ódýrara skemmtanalíf og félögin miklu meiri þátttöku í ferðalögunum. En aðalatriðið er þó það, að jafnframt því sem fólkið nýtur hinna ódýru skemmtana, þá dregur það úr vínnautninni. Hv. þm. saknaði þess, að frv. gerði ráð fyrir framlagi úr ríkissjóði í þessu augnamiði sérstaklega. Hvílík reginfirra! Ég efast um, veit reyndar með vissu, að þm. hefir oftsinnis greitt atkv. móti þeim litla styrk, sem veittur hefir verið íþróttafél., en ég minnist ekki, að ég hafi nokkru sinni verið á móti slíkum styrkjum. Að sjálfsögðu er það almenningsálitið í Englandi, sem mestu hefir áorkað um að minnka vínnautnina þar. En hvernig er það hér á landi? Hefir almenningsálitið haft bætandi áhrif í vínmálunum á síðari árum? Ég held þvert á móti, að það hafi verkað í þá átt að auka drykkjuskapinn í landinu. Mér er vel kunnugt um það, að í ýmsum byggðarlögum hafa fleiri og fleiri snúizt með ári hverju andvígir gegn bannlögunum, af því að þeir hafa kynzt hinum spillandi afleiðingum þeirra. Ég held, að ef ekki væri til að dreifa miklum liðsauka frá smyglurum og bruggurum í landinu til fylgis við bannlögin, þá mundi ekki nema örlítill hluti þjóðarinnar greiða atkv. með bannlögum nú.

Ég get t. d. nefnt aðeins eitt, sem hefir gerbreytt almenningsálitinu gagnvart bannlögunum, og það er sú aðferð löggjafarvaldsins á undanförnum árum, að herða hvað eftir annað á refsiákvæðum bannl., þannig að refsidómarnir hafa ekki neina stoð í hugum almennings og réttarmeðvitund þjóðarinnar yfirleitt. Og þetta er eðlilegt, þegar svo langt er gengið, að það er talið með stærri glæpum að drekka löglega keypt vín á ólöglegum veitingastöðum. Vil ég í þessu sambandi minna á dóm, sem kveðinn var upp í lögreglurétti Rvíkur fyrir skömmu, þar sem maður einn, er stolið hafði 79 krónum frá húsbónda sínum, fékk aðeins skilorðsbundna refsingu fyrir það afbrot, af því að það mun hafa verið fyrsta brot, sem hann hafði verið kærður fyrir. Þjófnaðurinn varðaði 20 daga fangelsi, en dómurinn var skilorðsbundinn, þannig að ef maðurinn verður ekki brotlegur við lögin næstu 5 ár þá fellur sökin niður. En nú keypti maðurinn vín í áfengisverzluninni fyrir 25 kr. af þýfinu, og drakk vínið á ólöglegum vínveitingastað. Fyrir þetta var hann dæmdur í 200 kr. sekt eða 15 daga einfalt fangelsi. M. ö. o. dómarinn gat gefið manninum eftir fangelsisvistina fyrir þjófnaðinn, en fyrir að drekka Spánarvín á óleyfilegum stað varð hann að dæma manninn í fangelsi. Það er m. ö. o. stærri glæpur að drekka vín, sem keypt er af ríkinu, sé það ekki drukkið í heimahúsum, eða löggiltum veitingastað (Borg) en að stela. Ég verð að segja, að réttarmeðvitund þjóðarinnar væri illa farið, ef hún teldi þetta eðlilegt réttarfar.

Hv. þm. Borgf. var eitthvað að fjargviðrast út af því, að ég hefði leitað mér fræðslu um hagi og háttu erlendra þjóða. Vissulega verður hann að þola það, að ég haldi því áfram. Ég minnist þess einnig, að hann hafði einhver óviðurkvæmileg orð um mig í því sambandi, um að ég hefði enga þekkingu á málinu o. s. frv. - Fyrir nokkrum árum deildum við um annað mál hér í þessari hv. þd., það var um refarækt. Í þeim umr. bar hv. þm. Borgf. mig þeim brigzlum, að ég færi með vísvitandi ósannindi. Þá fékk hann meiri hl. hv. þdm. á sína skoðun í málinu, sem um var deilt. Afleiðingin af þessu varð sú, að algerlega tók fyrir aðflutning lifandi refa og að íslenzki landbúnaðurinn hefir tapað árlega svo að skiptir tugum þúsunda kr., af því að ekki var fylgt þeim varúðarráðstöfunum, sem ég vildi setja. Ég geri ráð fyrir, að það fari eins fyrir hv. þm. í þessu máli, og óska ég, að honum verði það að góðu. (PO: Annað sagði bróðir hv. þm. í fyrirlestri, sem hann flutti um refaræktina). Við tölum um það síðar. (PO: Já, við gerum það).

Ég vík þá aftur að bannlögunum. Það hefir verið sannað með augljósum dæmum, hvað refsiákvæði þeirra eru ströng og óheppileg. Það hefir farið fyrir þeim eins og stóradómi fyrr á öldum, að þegar refsiákvæðin voru orðin óeðlilega hörð í sambandi við afbrotin, þá margfölduðust afbrotin, svo engu varð haldið í skefjum. Hv. þm. Borgf. sagði, að ég og skoðanabræður mínir í þessu máli vildum veita öldu sterkra vína yfir landið, en það er auðvitað ekkert annað en tilhæfulausar getsakir hjá hv. þm. Mætti ég spyrja hv. þm., hvort hann vill viðhalda í landinu flóði af óleyfilegu áfengi og ýmiskonar óheilsusamlegum drykkjum? Hann virðist vilja halda uppi bannlögunum og þar með sambandinu við alla bruggara og smyglara í landinu, sem hver einasti maður veit að eru þjóðfélaginu bæði siðferðilega og fjárhagslega til tjóns og ógæfu. Vandséð er, hvort þjóðin fær sloppið upp úr því feni aftur.

Hv. þm. sagði, að það væri miklu meira drukkið af víni í Noregi nú en á meðan bannlögin voru þar í gildi. Þetta er auðvitað hægt að segja, af því að það hafa aldrei verið til neinar skýrslur um óleyfilega innflutt vín til þeirra landa, þar sem bannlög eru í gildi. Hann sagði, að meiru væri eytt af fjármunum til vínkaupa í Noregi en áður. Það má vera, en þá er það af því vínin eru seld margfalt hærra verði en áður. Hitt staðfesta opinberar skýrslur, að nú (1932) er þar í landi neytt minna áfengis en nokkru sinni áður, sem sé 2,2 lítrar á mann. Þeir menn, sem hafa augun opin, sjá, sé það er drukkið miklu meira hér á landi nú heldur en þegar bannlögin voru sett. Við getum ekki sannað þetta með tölum, það veit hv. þm., af því að smyglað áfengi og bruggaður landi koma ekki á skýrslur, en við sjáum, að það er neytt miklu meira áfengis en áður, einkum í sveitum. Í Noregi er nú lægsta áfengisneyzla á mann, sem þekkist á Norðurlöndum. Í Svíþjóð, þar sem sala á áfengi er takmörkuð samkv. Brattssýsteminu, þannig að mönnum er úthlutað áfengi eftir seðli fyrir hvern mánuð, þar er áfengisneyzlan nær tvöfalt meiri en í Noregi. (1932 í Svíþjóð 3,9, Noregi 2,2 lítrar á mann).

Hv. þm. Borgf. var í öðru orðinu hræddur um, að yfir landið muni streyma óhemju mikil áfengisalda, ef bannlögin yrðu afnumin. En í hinu orðinu kvaðst hann trúa svo á lyndiseinkunn Íslendinga, að það myndi hjálpa til að halda þessari öldu í skefjum. Aftur á móti sagði hv. þm. í fyrra, í umr. um þetta sama frv. hér í hv. þd., að við Íslendingar myndum liggja flatir fyrir áfenginu, ef bannlögin yrðu afnumin, eins og frumstæðar villiþjóðir gera fyrir sjúkdómum frá menningarþjóðunum. Eitthvað var hann að káka við þessa firru í síðustu ræðu sinni. (PO: Þetta er algerður misskilningur hjá hv. þm.). Þó hv. þm. villi neita þessu nú, þá vænti ég að hann verði að beygja sig fyrir því, sem skrifararnir hafa skrifað eftir honum. (PO: Ég skal skýra þetta síðar). Hann virðist þá hafa gleymt því, eins og flestum öðrum staðreyndum í þessu máli, að Íslendingar hafa neytt víns allt frá landnámstíð. Hv. þm. Borgf. sagði, að með hverjum einasta eyri, sem rynni til ríkissjóðs í tollum af víninu, ef frv. yrði samþ., færi jafnframt til einkis óheyrilega mikið af orku þjóðarinnar. En ég vil þá leyfa mér að spyrja hann: Fer engin þjóðarorka til þurrðar við neyzlu þeirra ágætu vína!, sem smyglarar og bruggarar leggja í munn landsbúa? Ég er alveg sannfærður um, að áfengisneyzlan verður sízt meiri í landinu, þó að bannl. verði afnumin. En það er eins og að komið sé við opna kviku þeirra, sem lifa í trú eða réttara sagt hjátrú á bannl., ef komið er með till. um að taka tekjur smyglara og bruggara og leggja í ríkissjóð. Hv. þm. minntist á tollinn af vínunum og virtist harma það, að ekki væri jafnframt í þessu frv. ákvæði um tollgreiðslu af vínunum til ríkissjóðs. En eins og hv. þm. veit, ef hann athugar það nánar, þá er það gagnstætt venjum í löggjöfinni, að hafa tollaákvæði annarsstaðar en í tollalögum. Því að tollalögum má ekki breyta nema með beinu samþ. Alþingis, en aftur á móti má breyta nálega öllum öðrum lögum með bráðabirgðalögum. - Ég er þess albúinn, og fleiri úr fjhn., að bera fram breyt. á tollalögunum í samræmi við þetta frv., og það er vitanlega nauðsynlegt, ef frv. á að ná þeim árangri, sem við fjm. ætlumst til, að útiloka heimabruggið. (VJ: Og smyglarana, er ekki svo?). Smyglurunum er útrýmt um leið og innflutningur á sterkum vínum verður frjáls. Ég sé ekki ástæðu til að ætla, að menn fari að kaupa vín af smyglurum, þegar þeir geta fengið sama vín jafnódýrt í frjálsri verzlun. Enda virðist reynslan hafa sannað það, þar sem ekki er gerð tilraun til að smygla inn Spánarvínum nú, þó vitanlegt sé, að stórkostlegur gróði gæti af því fengizt fyrir smyglarana. Það er ekki meiri hætta á því, að smyglað verði inn í landið víni en tóbaki og sælgætisvörum. Ýmsir hv. þm. héldu því fram, þegar tóbakseinkasalan var afnumin á Alþingi 1926, að þá mundu smyglunin og tollsvikin aukast. En reynslan hefir sýnt annað. Það mun eins fara í þessu efni og ég hefi áður lýst. Við höfum hér fordæmi, sem óhætt er að byggja á.

Hv. þm. Borgf. taldi líklegt, að Bandaríkjamenn mundu snúa við blaðinu og herða aftur á bannlögunum hjá sér bráðlega. Þetta er auðvitað ekkert annað en ágizkun. Það er ómögulegt að segja með fullri vissu, hvað kann að verða ofan á í Bandaríkjunum í bannmálinu. En þær ályktanir, sem með skynsemd er hægt að draga af því, sem fram hefir farið þar í landi nú upp á síðkastið, benda í þá átt, að bannl. verði afnumin. Byrjunarsporið hefir þegar verið stigið, og ef haldið verður áfram á þeirri braut, sem þingið hefir þegar gengið inn á um afnám á áfengistakmörkunum, með því að leyfa í landinu bruggun á sterkari drykkjum en áður var, þá er það sýnilega gert til þess að hnekkja bannlögunum. Þess vegna virðist það vera gagnslaust, þó að ákvæðin um gildi bannlaganna standi enn í stjórnarskránni. Í Bandaríkjunum er það ekki talið stjórnarskrárbrot, þó að leyft sé að brugga sterkt öl, og með því eru í framkvæmdinni gerðar að engu þær takmarkanir, sem áður voru settar. Það er gert samkv. hinum svo kölluðu Walstead-lögum. Ég hygg, að það megi breyta bannlögunum með samþykki þings og stjórnar án þess að rjúfa þetta atriði stjórnarskr. um að aðflutningsbann skuli vera í landinu, en þá er það líka eins og dauður bókstafur. Hitt er líka augljós reynsla í ýmsum löndum, sem búin eru að afnema bannlög hjá sér, að þar sem bannlögin voru upphaflega samþ. og sett með miklum atkvæðamun, eins og ég gat um í fyrri ræðu minni, að gert hefir verið í ýmsum fylkjum í Kanada, þá hefir reynslan orðið sú, að eftir nokkur ár voru þau afnumin með enn fleiri mótatkvæðum heldur en meðatkvæði þeirra voru upphaflega.

Eina ríkið, þar sem bannlögin halda enn velli, eftir að búið er að reyna þau um fleiri ára bil, eru Bandaríkin, ef það á að teljast svo, að þau séu þar enn í gildi. En óneitanlega kom fram skýr bending um það við forsetakosningarnar síðustu, að þjóðin er orðin andvíg bannlögunum. Núverandi forseti lýsti því ákveðið yfir, að hann væri andbanningur. Og það virðist jafnvel svo, sem stuðningsmenn fyrrv. forseta (Hoovers), hafi yfirleitt álitið það ósigurvænlegt í kosningunum að telja sig fylgjandi banninu. Og Hoover sjálfur, sem áður hafði veitt marga tugi milljóna dollara til þess að halda uppi bannlögunum í Bandaríkjunum, fram yfir það sem þingið hafði ákveðið til þess í fjárlögum, hann sagðist vilja breyt. á þeim. Ég get því alls ekki skilið, hvaða ástæðu hv. þm. Borgf. hefir haft til þess að láta í ljósi þessa skoðun um afstöðu Bandaríkjanna til bannlaganna, nema þessa gömlu alkunnu ástæðu sína - hjátrúna á bannstefnuna. Ég hefi áður bent á, að heppilegast mundi vera að leysa upp bannlögin, þegar kaupgeta almennings í landinu væri lítil. Þessu hélt ég einnig fram á þinginu í fyrra, í umr. um þetta mál. Og hinu sama hefir verið haldið fram í amerísku blaði, enda er það vissulega rétt. Nú er einmitt sá rétti tími til að afnema bannlögin, ef við viljum forðast illar afleiðingar og eftirköst, fyrst í stað, af upplausn þess. - Auk þess er nú mögnuð kreppa í landinu, og margir þm. tala um, að á þessum erfiðu tímum getum við ekki snúizt við öðrum stórmálum í þinginu en þeim, sem horfa að lausn kreppunnar. Til þess verði að beita öllum ráðum og starfskröftum þingsins. Annar aðalatvinnuvegur þjóðarinnar er í hinni mestu tvísýnu. Og margir hv. þdm. hyggja, að jafnvel sjálfstæði landsins hafi verið stofnað í hættu til þess að tryggja það, að markaður geti fengizt í Noregi fyrir ca. 1/10 af kjötframleiðslu landbúnaðarins. Hvar á svo að taka tekjurnar til þess að létta undir með þessum atvinnuvegi - landbúnaðinum? Máske vilja einhverjir fákunnandi menn benda á að taka þær hjá sjávarútveginum. Því að þegar ríkissjóður hefir þurft að fá auknar tekjur, þá hefir venjulega verið gripið til þess að þyngja skattana á sjávarútveginum. Er þetta hægt án þess að koma sjávarútveginum í sömu vandræði og landbúnaðurinn er nú í? Ég er sannfærður um, að það er ekki hægt. Með þessu frv. er þó fundin leið til þess að afla tekna, sem hvorki eru teknar frá sjávarútveginum né landbúnaðinum. Þessar tekjur eru teknar af smyglurum og bruggurum. Þegar við stynjum undir ofurþunga kreppunnar, ættum við ekki að slá hendinni á móti þessu fé. Þó að sumir séu það hjátrúarfullir, að þeir geti ekki nú séð það rétta í þessu máli, þá munu þeir hinir sömu sjá það síðar. Með hverju árinu aukast vandræði atvinnuveganna og torveldist útrýming bruggunarinnar. Þessir menn vilja taka á sig þá ábyrgð að bíða eftir því, að landabruggunin aukist enn gífurlegar, þeir vilja taka þá ábyrgð á sig að færa vandræði annars atvinnuvegarins yfir á hinn. Verði þeim það að góðu. En það er áreiðanlegt, að þjóðinni verður það ekki að góðu.