30.03.1933
Neðri deild: 40. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 503 í C-deild Alþingistíðinda. (4664)

115. mál, áfengislög

Guðbrandur Ísberg:

Ég hafði hugsað mér að gera stutta grein fyrir mínu atkv. í þessu máli, eins og fleiri þm. hafa gert, en ég get að mestu leyti sparað mér það, eftir ræðu hv. þm. G.-K., sem tók fram margt af því, sem ég hafði viljað benda á. Það er eðlilegt, að menn tali um í þessu sambandi bindindismenn og vínneytendur, en mér finnst næstum óeðlilegt, að menn séu að tala um bannmenn og andbanninga. Því hér er í raun og veru ekki bann. Það er aðeins um nautn mismunandi víns að ræða. Það er öllum vitanlegt, að leyfður er innflutningur á hinum svokölluðu Spánarvínum, sem eru létt vín eða vínblanda. Jafnframt er það vitað, að menn geta fengið eins mikið af þessum vínum og þeir vilja. Eins geta menn með nokkurri fyrirhöfn fengið innlent vín, sem almennt er kallað „landi“. Hver er nú breyt., þó að leyfður yrði líka innflutningur á sterkum vínum?

Það er vitað, að síðaðir menn drekka yfirleitt ekki sterk vín óblönduð. Og það er með öllu ósannað, að nautn sterkra vína sér skaðlegri eða á nokkurn hátt óheppilegri en nautn léttra vína, svo ég ekki tali um landabrugg og annan óþverra. Þvert á móti má leiða sterkar líkur að hinu gagnstæða. Hv. þm. Str. vildi miða við það, hvers væri skaðlegt að neyta. Ég vil skora á hann að sanna, að skaðlegra sé fyrir þjóðina að neyta sterkra drykkja, eins og siðaðir menn gera, en þess óþverra, sem nú er almennt drukkinn hér.

Þá hélt hv. þm. því fram, að vínnautn myndi aukast í landinu, ef inn væru flutt sterk vín. Hann vitnaði í Kanada, eins og hv. þm. Ísaf. En hv. þm. Ísaf. komst að þeirri niðurstöðu, að mig minnir, að vínnautn í Kanada væri svo mikil, að hver fullorðinn maður neytti upp undir 100 gallóna af sterkum drykkjum á ári, en það er sem næst 1 lítra á dag. Mér þykir nú ótrúlegt, að ekki séu til bannmenn í Kanada, og eins þykir mér líklegt, að kvenfólk neyti yfirleitt ekki jafnmikils víns og karlmenn; mætti því sennilega undanskilja helming kvenfólksins og gera ráð fyrir því, að bannmenn neyttu ekki nema hálfs skammts. Yrði þá meðalskammtur sennilega eitthvað nálægt 2 l. á mann á dag. Held ég, að slíkt nái ekki nokkurri átt. Hljóta að liggja hér aðrar orsakir á bak við. Ég ætla að leyfa mér að benda á nokkuð hliðstætt dæmi til skýringar. Fyrir fáum árum var mjólkurframleiðslan í Mosfellssveit ca. 1. l. á mann á dag eða svo. Nú er hún komin upp í ca. 20 l. á mann eða meira. Geta nú bændur torgað allri þessari mjólk? Nei, það vita allir, hvernig þessu víkur við. Mjólkurframleiðslan hefir aukizt af því, að markaður hefir skapazt fyrir hana. Mjólkin er sem sagt seld til Rvíkur. Mun vera svipað háttað um vínið í Kanada. Það er ekki drukkið þar í landi nema að litlu leyti; hinu er smyglað til Bandaríkjanna. Þar er markaðurinn. Þetta er svo almennt viðurkennt og vitað, að óþarfi er að eyða orðum að því frekar. Þetta dæmi frá Kanada sannar því ekki annað en það, að þessum hv. þm. er ekki hægt um hönd að finna dæmi, máli sínu til sönnunar. (VJ: Hvað er sérstaklega bogið við dæmið frá Kanada?). Það, að þessi mikla vínneyzla getur ekki staðizt, 1 lítri á hvern fullorðinn mann á dag. Mér skildist á hv. þm., að vínneyzlan á hvern fulltíða mann væri upp undir 100 gallónur á ári, enda benti hann á það, að vínneyzlan þar í landi væri svipuð og hæfilegt væri talið, að menn neyttu af mjólk.

Hv. þm. Str. hélt því fram, að hvötin til óleyfilegrar bruggunar héldist nærri því sú sama, þótt leyfður yrði innflutningur sterkra vína. Ég er þar ekki á sama máli. Mín afstaða í þessu máli miðast við það eitt, að ég er sannfærður um, að bruggið leggst að mestu leyti niður, ef sá innflutningur er gefinn frjáls. Menn brugga meira af hagnaðarvon en til þess að afla sér víns til neyzlu. Nokkrir gera það auðvitað af síðari ástæðunni, en langflestir þó af því að það er gróðavænlegt að selja vínið í kaupstöðum og þorpum. Ef þar væri hægt að fá sterk vín á löglegan hátt, er ég sannfærður um, að menn myndu velja þá leið, og almenningsálitið myndi stimpla þá menn sem hreinar bullur, sem ættu kost á að fá sér forsvaranlegt vín, en færu samt að leita eftir kaupum á bruggi, hálfeitruðu, óaðgengilegu og ólöglegu. (VJ: Má ég spyrja, ef það er rétt hjá hv. þm. G.-K., að hér sé alstaðar hægt að fá whisky, hví kaupa menn þá ekki whisky?) Hér hefir því verið haldið fram, að við værum nú einhver hin minnsta víndrykkjuþjóð. Ég vil engan dóm á þá fullyrðingu leggja, en ég skil ekki, hvernig menn geta vitað það, hve mikið drukkið er hér á landi af áfengum drykkjum, Spánarvínum, smygluðum vínum og heimabruggi. Að bruggarar eru teknir svo ört, sem raun ber vitni um, bendir á það, að þeir séu ótrúlega margir. Salan og hagnaðurinn hljóta að vera mjög mikil, er menn leggja svo margir í þá áhættu, sem því fylgir að brugga hér á landi.

Eftir aldamótin, áður en vínbannið komst á, var ekki drukkið meira hér á landi en sem svaraði 1 l. á mann árlega. Voru þá fáar þjóðir svo hófsamar sem Íslendingar. En eftir setningu bannlaganna hafa menn risið upp gegn þeim og ekki skoðað brot á þeim l. sem almenn lögbrot. Þar sem ræðumenn hafa talað um vakningu yngri kynslóðarinnar, þá er allmjög skotið fram hjá markinu, því að allt bendir til þess, að vínnautn hennar sé alltaf að aukast. Menn um allt land hafa nú vín um hönd, sem áður hefðu ekki látið sér detta slíkt í hug. Er þetta fordæmi fyrir ungu kynslóðina, sem hún lærir af.

Afstaða mín í þessu máli er ekki sú, að ég vilji auka vínnautnina í landinu, heldur miðast hún við það, að ég trúi því og treysti, að okkur geti aftur lærzt að neyta víns í hófi. Við verðum sjálfsagt aftur hófsöm þjóð, ef við afnemum bannlögin. Ég vil benda á það, að erlendis þykir það ósvinna að láta sjá sig ölvaðan á almannafæri eða að drekka sterk vín óblönduð. Þetta myndi áreiðanlega verða eins hér.