27.02.1933
Neðri deild: 11. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 643 í B-deild Alþingistíðinda. (470)

4. mál, bifreiðaskatt og fl.

Héðinn Valdimarsson:

Við Alþflmenn vorum á móti þessu frv. á þinginu í fyrra og erum það ennþá. En eftir því sem nál. ber vott um, þá virðast báðir hinir flokkarnir í hv. d. sammála um að fylgja því. Þó að hv. þm. G.-K. hafi ekki verið viðlátinn á nefndarfundi, þegar frv. var afgreitt þar, þá var hann á sínum tíma flm. að „litla og ljóta“ frv., og þar með upphafsmaður að lögfestu á bifreiðaskattinum. Ég geri ráð fyrir, að það hafi litla þýðingu að mótmæla þessu frv., þar sem hæstv. fjmrh. gengur sérstaklega hart fram til þess að sjúga tekjur í ríkissjóðinn úr öllum áttum. En það er öllum ljóst, að rekstur bifreiða í landinu, bæði til vöruflutninga og mannflutninga, er í aumustu niðurníðslu, og hið sama má segja um einkabifreiðar. Hvert bifreiðafélagið á fætur öðru er að fara á höfuðið, sem fengizt hefir við mannflutninga ekki aðeins hér í Rvík, heldur víðsvegar um landið, og svipað er því háttað um rekstur vöruflutningabifreiða.

Það má nú að vísu varpa því fram, að þetta stafi af völdum kreppunnar eins og annað illt, en það er enginn vafi á því, að hin stórkostlega skattaálagning á bifreiðar veldur hér miklu um, og er ekki annað sýnna en að það sé ætlun stj. og þings að drepa með skattaálögum þau fyrirtæki, sem fást við rekstur bifreiða. Og takist það, þá fellur þessi skattur niður af sjálfu sér þegar svo er komið.