27.02.1933
Neðri deild: 11. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 645 í B-deild Alþingistíðinda. (472)

4. mál, bifreiðaskatt og fl.

Sveinbjörn Högnason:

Eins og kunnugt er, þá þótti okkur ýmsum þdm. það einkennileg bjargráðaráðstöfun af þinginu í fyrra, að leggja tilfinnanlegan skatt á hina erfiðu og dýru vöruflutninga bænda, sérstaklega í þeim héruðum, sem búa við mesta hafnleysið, og það því hærri skatt sem flutningsörðugleikarnir eru meiri. Þó fór það svo, að þeir, sem fylgdu þessum skattaálögum, reyndust nægilega margir til þess að lögin voru samþ. og eins og komið var, urðum við hinir að sætta okkur við minnihlutaaðstöðuna. Hinsvegar gengum við út frá því sem sjálfsögðu, eins og ríkisstj., að þetta væru aðeins bráðabirgðalög, sett til eins árs. Og með það fyrir augum hugðumst við að sætta okkur við þessi lög aðeins sem bráðabirgðaráðstöfun, þó við værum óánægðir. En nú hefir hæstv. stj. borið fram frv. til breyt. á þessum 1., þar sem ætlazt er til að skattaálögurnar verði nokkurskonar eilífðarkvöð á bændum og öðrum þeim, sem að bifreiðaflutningum standa. Þessu vil ég mótmæla harðlega. f. h. minna umbjóðenda, að slíkar kvaðir séu nú að fullu lögfestar á þessum erfiðu tímum, þegar þess er vænzt, að Alþingi geri sér allt far um að leita eftir og lögfesta sérstakar ráðstafanir til þess að létta bændum kreppuna. Aðalhlutverk þessa þings á að vera að leita bjargráða fyrir landbúnaðinn á öllum sviðum. En þetta frv. miðar að því að íþyngja bændum stórkostlega. Ég er þess fullviss, að við, sem greiddum atkv. á móti því í fyrra, gerum það ekki síður nú. Við mundum óska, að þessi lög yrðu tafarlaust felld úr gildi. En ef niðurstaðan verður sú, að meiri hl. þdm. ætlar að framlengja þau, þá munum við, sem erum fulltrúar þeirra héraða, er ekki ná til hafna, flytja brtt. við 3. umr., þess efnis, að l. skuli aðeins gilda til ársloka 1934. En þrátt fyrir það óska ég þess eindregið, að frv. verði fellt nú þegar við þessa umr., og þessi rangláti skattur á bændur og aðra hlutaðeigendur þar með úr gildi numinn.