08.04.1933
Neðri deild: 48. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 559 í C-deild Alþingistíðinda. (4726)

146. mál, dráttarvextir

Bernharð Stefánsson:

Eins og hv. frsm. gat um, þótti einstökum nm. of skammt gengið með frv. um að ákveða hámark dráttarvaxta. Ég er einn af þeim, er þannig litu á, og hefi ég því borið fram brtt. á þskj. 345, um að í stað „1% - einn af hundraði -“ í 1. gr. komi: ¾% - þrír fjórðu af hundraði -. Ég býst ekki við, að þessi brtt. valdi deilum, því hér er ekki beint um stefnumun að ræða. Það er almennt viðurkennt í landinu, að ein mesta nauðsyn þessara tíma sé sú, að lækka vexti, og þó ég viðurkenni út af fyrir sig, að réttmætt geti verið að hegna þeim nokkuð, sem ekki standa í skilum, með hærri dráttarvöxtum en vextir eru almennt, þá álít ég, að það séu nú svo margir, sem ekki geta borgað árgjöld af föstum lánum á réttum gjalddaga, að nokkuð verði að draga úr þessari hegningu. Ennfremur er það, að ef framkvæmd verður sú almenna vaxtalækkun í landinu, sem allir búast við og verður að fást, ef allt atvinnulíf á ekki að fara í rústir, þá verða dráttarvextir samkv. brtt. minni samt sem áður töluvert þyngri en almennir vextir. Eins og ég sagði í upphafi, er hér ekki svo mikið, sem ber á milli, að búast þurfi við, að um það verði veruleg deila, en mér finnst, úr því farið er á annað borð að ákveða hámarksdráttarvexti, að þá eigi þeir ekki að vera hærri en það, að líkur séu fyrir, að þeir, sem þurfa að greiða þá, fái undir þeim risið, en lánsstofnanir sleppi þó skaðlitlar og geti við þá unað.