27.02.1933
Efri deild: 11. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 567 í C-deild Alþingistíðinda. (4767)

41. mál, eignarnámsheimild á afnotarétti landsvæðis úr Garðalandi

Flm. (Bjarni Snæbjörnsson) [óyfirl.]:

Eins og tekið er fram í grg. frv., er mál þetta flutt hér vegna áskorana bæjarstj. Hafnarfj., og vildi ég leyfa mér að leggja til, að frv. verði, að lokinni umr., vísað til 2. umr. og landbn.

Af því að líkindi eru til, að hv. þdm. séu þessu máli ekki eins kunnugir og vera skyldi, langar mig til að gefa nokkru fyllri upplýsingar en gert er í grg.

Það er upphaf þessa máls, að þegar það kvisaðist 1931, að farið myndi að skipta óskiptu landi Garðakirkju, þá vildi bæjarstj. Hafnarfj. reyna, hvort hún gæti ekki orðið þess aðnjótandi að fá keypt nokkurt svæði úr kirkjulandinu, þar sem töluverður hluti þess lands er mjög vel fallinn til ræktunar og liggur einnig vel við fyrir bæinn, þar sem það er við veginn milli Hafnarfj. og Rvíkur. Því fór bæjarstj. þess á leit við hæstv. ríkisstj., hvort ekki myndi hægt að fá þetta land keypt. Ríkisstj. kvað sig bresta heimild til þess og vísaði til aðgerða Alþ. Snemma á vetrarþinginu kom fram till. um sölu á landinu, flutt af hv. 2. landsk. Þeirri málaleitun fylgdu ummæli búnaðaðarmálastjóra, þar sem tekið var svo til orða: „Hafnarfjarðarkaupstaður á einna minnst af ræktanlegu landi af öllum kauptímum landsins. Því er lífsnauðsyn fyrir hann að fá umráð yfir nokkru landi, og er þá næst land Garðakirkju. Mikið af því liggur vel til ræktunar, einkum það, sem liggur næst veginum milli Hafnarfj. og Rvíkur. Ég leyfi mér því að mæla eindregið með því, að frv. þetta nái fram að ganga“.

Málið var lengi í n., en þegar nál. var skilað, þá var því vísað frá með rökst. dagskrá og vænzt þess, að stj. gerði það, sem hún gæti, til þess að láta Hafnarfj. fá sem mest af þessu landi, vegna þess að ekki höfðu full skipti farið fram, þá er n. gaf út álit sitt. Á umr. má sjá, að menn voru því yfirleitt hlynntir, að bærinn fengi þetta land. Má t. d. því til sönnunar benda á ræðu frsm., hv. 2. þm. Eyf. Hann segir m. a.: „Og ég get endurtekið það, að allshn. er hlynnt því, að Hafnarfj. fái þarna land eftir því sem fært þykir og hann hefir þörf fyrir“. Ennfremur segir hann: „Þó n. leggi það til, að frv. verði ekki samþ. nú, þá ber ekki að skilja það svo, að hún sé málinu andvíg. Að vísu tefst málið um eitt ár, en það ár ber að nota til þess að það geti komið vel undirbúið fyrir næsta þing“. Það má því segja, að málið hafi fengið góðar undirtektir hjá n., þótt það yrði ekki samþ. Þegar svo fór um þetta frv., flutti þessi sami hv. þm., 2. landsk., till. til þál., sem fór í þá átt, að stj. væri heimilt að leigja þetta land Hafnarfjarðarbæ, og vil ég, með leyfi hæstv. forseta, taka upp úr umr. nokkuð af því, sem þáv. dómsmrh., hv. 5. landsk., sagði út af þessu máli. Hann segir m. a.: „Það er alveg rétt hjá hv. flm., að ég hefi gert nokkuð til að tryggja það, að Hafnfirðingar fái í sumar það land, sem hér um ræðir“. Ennfremur segir hann: „Stj. er nú að vinna að því, að Hafnarfj. geti fengið þarna meira land en líkur eru til, að hann þurfi að nota til garðræktar nú um langan tíma“. - Þáltill. var samþ., og allir, sem málinu voru hlynntir, héldu, að þar með væri fengin á því heppileg bráðabirgðalausn. En svo kemur næsti liður málsins. Skömmu eftir samþykkt þáltill. hringdi þáv. dómsmrh. til bæjarstjórans í Hafnarf. og sagði honum, að nú væri landið til reiðu Hafnfirðingum og bað hann að koma til Rvíkur og undirskrifa samningana. Bæjarstjórinn tók þessu boði fegins hendi og lagði þegar af stað. En honum brá heldur en ekki í brún, er hann varð þess var, að það, sem Hafnarfirði var ætlað, var hinn óræktanlegri hluti landsins. Með leyfi hæstv. forseta ætla ég að lesa upp bréf bæjarstjórans til dómsmrn. viðvíkjandi þessu máli, sem skýrir það vel:

„Hafnarfirði, 8. júní 1932. Með bréfi, dags. 9. des. s. l., var þess farið á leit við hið háa ráðuneyti, að það seldi Hafnarfjarðarkaupstað jörðina Garða á Álftanesi, eða, ef jörðin væri í ábúð, þá þann hluta af óræktuðu en ræktanlegu landi jarðarinnar, er komi í hennar hlut við skipti þau, er fram voru að fara á áður óskiptu landi jarðarinnar - Með bréfi, dags. 6. jan. s. l., hefir hið háa ráðuneyti svarað þessari málaleitun á þá leið, að ekki væri heimilt að selja jörð þessa, nema með sérstökum lögum frá Alþingi.

Í tilefni af þessu svari var nú á síðasta Alþ. borið fram frv. um sölu á nokkrum hluta á landi Garðakirkju til Hafnarfjarðarkaupstaðar, en frv. þetta var, eins og kunnugt er, afgr. með rökstuddri dagskrá og vísað til stj. til frekari undirbúnings.

Þá kom enn fram á Alþ. till. til þál. um að leigja Hafnarfjarðárbæ land þetta fyrst um sinn, og er mér sagt af flm. till., að það hafi komið skýrt fram í umr., að ætlazt væri til, að Hafnarfjarðarkaupstað yrði leigt allt það land, er á annað borð yrði látið úr landi jarðarinnar. - Eftir að þáltill. þessi hafði verið samþ., tilkynnti hæstv. fyrrv. dómsmrh. mér, að ég gæti undirskrifað leigusamning um land þetta, og var ég auðvitað fús til þess. En þar sem þá kom í ljós, að beztu og auðræktanlegustu stykkin úr landi þessu átti að leigja prívatmönnum, en Hafnarfjarðarkaupstað óræktanlegt hraun og grýtt holt, sem að mestu leyti er óræktanlegt, vildi ég ekki undirskrifa leigusamninginn um land þetta án þess að hafa lagt málið fyrir bæjarstjórn.

Á fundi bæjarstj. í gær var mál þetta tekið til umr. og samþ. svo hljóðandi ályktun frá fasteignanefnd:

„Fasteignanefndin leggur til, að bæjarstjórn gangi eftir, að þál. till. um leigu á Garðakirkjulandi til Hafnarfjarðarkaupstaðar verði tekin til greina og Hafnarfjarðarbæ leigt allt það ræktanlegt land, sem tekið verður af landi Garðakirkju, og mótmælir því, að land þetta verði leigt privatmönnum eða öðrum“.

Um þörf Hafnarfjarðarkaupstaðar fyrir ræktanlegt land þarf ekki að fjötyrða. Í kringum bæinn er lítið annað en óræktanlegt hraun, eða grýtt holt, - eins og land það er, sem Hafnarfjarðarbæ hefir verið gefinn kostur á að fá nú úr Garðakirkjulandi.

Ég leyfi mér því hér með að fara þess á leit við hið háa ráðuneyti, að það taki til greina bæði þáltill., sem fyrr er nefnd, og samþykkt bæjarstjórnar, og leigi Hafnarfjarðarkaupstað allt það land, er látið verður úr landi Garðakirkju“.

Til sannindamerkis um það, að bæði bæjarstjórinn og ég förum með rétt anál hvað það snertir, að þetta hafi verið óræktanlegasta landið úr heimajörð Garðakirkju, þá vil ég geta þess, að þegar átti að mæla þetta land, reyndist það vera þannig, að til skiptanna kom af landi heimajarðarinnar mýri að stærð 83,5 ha., hraun 246,6 ha. og melar 268,4 ha. Af þessu landi fékk hvert býli hlutfallslega nokkuð af sæmilega ræktanlegu landi, annaðhvort mýri eða melum, en jafnframt hraun og holt. Það, sem féll í hlut Hafnarfjarðar, er háholtið fyrir ofan jörðina Garða, sem seinna var leigt núv. ábúanda jarðarinnar. En hitt landið, sem er langstærsta spildan, er við veginn milli Hafnarfj. og Rvíkur, til hægri þegar farið er suður. Nú liggur það í hlutarins eðli, að þessi tilhögun hæstv. fyrrv. dómsmrh. var gerð þvert ofan í vilja þingsins og gegn fyrirmælum d., því að þáltill. hv. 2. landsk. kom fram hér í d. og var samþ. áður en búið var að undirskrifa leigusamninginn fyrir annan þeirra aðila, sem fékk þetta land. En hinn samningurinn er undirritaður rétt áður en umr. fóru fram. Um þetta vissi vitanlega enginn í d., og það því síður, sem hæstv. dómsmrh. sagði í ræðu sinni viðvíkjandi þessu máli, þegar þáltill. kom fram, að það væri ekki víst, hvort hægt væri að gera þetta, vegna þess, að nú ætti að fara að kjósa prest að Görðum, og vafasamt, hvort hann vildi ekki búa þar, þótt fyrrv. prestur hefði heldur kosið að sitja í Hafnarfirði. Þetta segir hæstv. dómsmrh. 20. maí, en 17. maí undirskrifar hann ábúðarskjal fyrir núv. ábúanda að Görðum, er tryggir honum æfilanga ábúð. Það verður því ekki annað séð, en að hér hafi verið viljandi farið á bak við þingið og látið líta svo út, að allt myndi með felldu. Þegar svo var komið, vildi bæjarstjórinn vita, hvort ekki væri hægt að komast að heppilegri lausn málsins án illinda. Og því fór hann þess á leit við núv. atvmrh., hvort ekki myndi fært að kippa þessu í lag. Brást ráðh. mjög vel við þessari málaleitun og reyndi að koma þessu í samt lag, og efast ég ekki um, að það hafi verið af því, að hann hafi séð, hve bærinn var hér miklum órétti beittur. Því var það, að ráðh. bað um skýringar frá þeim manni, sem mest hafði fengið af landinu, lögreglustjóranum í Reykjavík, og svaraði lögreglustjóri með bréfi til atvmrn. og sendi bæjarstjóranum í Hafnarfirði afrit af bréfinu. Með leyfi hæstv. forseta ætla ég að lesa kafla úr bréfinu, sem varðar Hafnarfj. Í bréfi sínu til lögreglustjórans spurðist atvmrh. fyrir um úthlutun landsins. Lögreglustjóri segir m. a.: „Jafnframt spurðust þér fyrir um það, herra atvinnumálaráðherra, hvort ég myndi fáanlegur til þess að láta landið af hendi í þeim tilgangi, að Hafnarfj. geti fengið það til útbýtingar í smáhluti til grasræktar. En Hafnarfirði hefir, eins og yður mun kunnugt, verið vísað á annað svæði hentugra til útbýtingar í smábletti til grasræktar“. - Ég vil biðja hv. þm. að veita því athygli, að lögreglustjóri talar um, að Hafnarfj. hafi fengið hentugra land en þetta! Holtið á þá að vera hentugra til grasræktar en mýrin ! - Viðvíkjandi hinu atriðinu segir hann: „Samningarnir um landið eru þannig, svo sem yður er kunnugt, að ég get aldrei grætt einn eyri á verðhækkun landsins. Hún fellur öll ríkinu í skaut. Tekjur mínar af ræktun landsins og notkun er því sá eini arður, sem ég hefi af landinu til að mæta öllum kostnaði. Handhöfn mín á þessu landi er ekki vegna gróðavonar, heldur vegna þess, að ég hefi ánægju af því að fást við jarðrækt. Ég afhendi því ekki þetta land, nema það sé hinu opinbera eða einhverju bæjarfélagi til gagnsemdar“. - M. ö. o., hann lítur svo á, að land þetta, sem hann hefir fengið, geti hann haft einungis til að dunda við sér til skemmtunar. Til þess að d. skilji, að hér er farið út fyrir allan sannleika, vil ég leyfa mér að lesa upp gr. í samningnum, sem fjallar um þetta efni. Hún hljóðar þannig:

„Hvenær sem ríkið telur sig þarfnast erfðafestulandsins til ræktunar undir opinber mannvirki ríkisins, svo sem til sérstaks atvinnureksturs, er leigutaka skylt að láta af hendi erfðafesturétt sinn á landinu gegn sannvirði þess, sem kostað hefir að rækta landið, að mati tveggja óvilhallra dómkvaddra manna. Fyrir þann hluta landsins, sem óræktaður kann að vera, greiðist ekkert endurgjald. Nú eru byggingar, girðingar eða önnur mannvirki á landinu þegar umboðsstjórnin krefst sér það afhent, og skal þá greiða eiganda þeirra að auki andvirði þeirra eftir mati tveggja óvilhallra, dómkvaddra manna“.

M. ö. o., hann á að fá, ef stj. þarf á þessari landspildu að halda, allt endurgoldið, eftir mati óvilhallra dómkvaddra manna, girðingar, hús og önnur mannvirki, sem hann hefir látið gera á jörðinni. Ég veit nú ekki til, að ríkið leigi nokkur lönd svo á erfðafestu, að ekki sé hægt að taka þau eignarnámi, ef þörf krefur, gegn endurgjaldi á mannvirkjum eftir mati. Er því ekki verr farið með lögreglustjórann að þessu leyti en hvern annan, sem líkt er ástatt um.

Lögreglustjórinn segist vera fús til þess að láta land sitt af hendi við Hafnarfjarðarbæ, ef þar verði sett upp stórt kúabú og ef land það, sem er í kring og bóndanum í Móakoti og Eyjólfi Jóhannssyni var úthlutað, fáist líka til sömu starfrækslu. En hér horfir nokkuð öðruvísi við. Þegar farið var að stykkja út Garðaland, þá var svo ástatt, að nokkur kot voru í Garðatorfunni. Voru mannvirki á þeim mjög lítils virði og byggingar að niðurfalli komnar. Var því mælzt til þess við ábúendur þeirra, að þeir létu þau af hendi til annara jarða, til að bæta þær, en ábúendur þessara kota fengju bletti í staðinn, sem mældir yrðu út í útjaðri Garðalands. Þessar niðurföllnu kotjarðir voru Móakot, Bakki og Katrínarkot. - Bóndinn í Katrínarkoti vildi ekki fara og byggði steinhús í skyndi til að festa veru sína þar. En þeir, sem höfðu ábúðarrétt á Bakka og Móakoti, voru fúsir til skiptanna og fengu því útmælt land, sem þeim bar. En ábúandi Bakka var Eyjólfur Jóhannsson. Hér er því um nokkuð annað að ræða, þar sem þeir höfðu lífstíðarábúðarrétt á jörðum sínum, þótt þeir skiptu á þeim og þessum löndum.

Þegar svo var komið málum sem fyrr segir, vildi bæjarstj. Hafnarfjarðar ekki svara bréfi lögreglustjórans, þar sem henni fannst hann vera í fullum órétti, en Hafnarfjörður í fullum rétti með kröfu sína til landsins, en vildi ekki sæta neinum afarkostum. Var því samþ. af bæjarstj. Hafnarfjarðar að fela Emil bæjarstjóra og mér að rita og ræða um málið opinberlega. Var þessa getið í útvarpinu. Var það einróma skoðun og álit bæjarstj., að ef það yrði gert, þá mundi hvorki lögreglustjórinn né aðrir, sem við það eru riðnir, treysta sér til að halda uppi þeim rangindum, sem í því felast að halda þessu landi fyrir Hafnfirðingum. Þetta fórst þó fyrir, því hæstv. atvmrh. vildi heldur reyna að komast að samkomulagi við lögreglustjórann. Hann var hræddur um, að ef málið væri rætt og um það ritað opinberlega, þá yrði ekki komizt hjá illindum. Var lögreglustjóranum boðið land í skiptum, en hann vildi ekki sinna því. Er því þófi lauk, var orðið nokkuð áliðið vetrar og var því sá kostur tekinn að vísa því til aðgerða Alþ. - Hefir hér þá verið rakinn gangur þessa máls. Vænti ég þess, að hv. þdm., er þeir sjá, hvílíkum órétti Hafnfirðingar hafa verið beittir í þessu máli, og að það er gert þvert gegn yfirlýstum vilja þessarar þd. á síðasta þingi, þá muni þeir fúslega veita fulla leiðréttingu á þessu máli nú á þinginu. Að því er vikið í grg. frv., að ólíklegt megi telja, að leigjendum landsins verði metnar nokkrar skaðabætur fyrir missi leiguréttarins. Einkum er rétt að orða þetta, þegar tekið er tillit til þess, að segja má, að leigusamningurinn er ólöglegur. En til þess að sýna og sanna, að svo er, vil ég leyfa mér að lesa upp nokkrar gr. úr jarðræktarl., er sanna, að svo er. Í 25. gr. jarðræktarl. stendur svo - með leyfi hæstv. forseta: „Þegar þjóðjörð eða kirkjujörð losnar úr ábúð, sem álízt sérstaklega vel fallin til skiptingar í nýbýli, að dómi umráðamanns jarðarinnar, skal leitað álits Búnaðarfélags Íslands um það áður en jörðin er byggð“. - Þessa álits var aldrei æskt frá Búnaðarfélaginu. Hefi ég átt tal við ráðunaut Búnaðarfél. um þetta, og tjáði hann mér, að ef þess álits hefði verið leitað, þá hefði hann mælt eindregið með því, að Hafnarfjarðarkaupstaður fengi landið. Í 1. gr. leigusamninganna beggja sést það ljóst, að leigutíminn er ótakmarkaður. En samkv. 35. gr. jarðræktarl. á hann að vera 75 ár. Eftir sömu gr. á eftirgjald slíkra landa að vera 5% af matsverði, en í umræddum samningum er ekki talað um matsverð, heldur að eftirgjald sé 5 kr. af ha. fyrst í stað, og 15 kr. þegar landið er komið í fulla rækt, hvaða verðaukning, sem á landinu kann að verða. Í 36. gr. sömu l. er tilskilið, að landið sé komið í fulla rækt eftir 10 ár. En í samningunum er sá tími tiltekinn 12 ár. Af þessu geta hv. þdm. séð, að samningar þessir eru ekki gerðir samkv. gildandi l.

Land það, sem hér um ræðir, er svo stórt, að það mundi koma að miklum notum fyrir Hafnfirðinga að fá það til afnota. Land þetta er um 43 ha., eða 130 dagsláttur. Og ef Hafnarfjarðarbær fær Garðaland í framtíðinni undir kúabú, eins og Búnaðarfél. vill, þá munar mikið um þessa spildu, sem er bezti skikinn úr Garðalandi. Þykir mér rétt, að þingið líti frekar á, hvað er til hagsbóta fátækum mönnum lítils bæjarfélags, heldur en að láta stórefnamann hafa land þetta sér til gamans, eins og hann segir í bréfi sínu.

Ég tel því víst, að á móti þessu verði tekið með velvild og að því verði veittur góður framgangur, en sá óréttur leiðréttur, er framinn var af fyrrv. stj., þar sem traðkað var rétti fátæks bæjarfélags þvert á móti vilja þingsins.