27.02.1933
Efri deild: 11. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 590 í C-deild Alþingistíðinda. (4772)

41. mál, eignarnámsheimild á afnotarétti landsvæðis úr Garðalandi

Flm. (Bjarni Snæbjörnsson):

Það má vel vera, að viðurkenna megi, að eitthvað sæmilegt hafi falizt í ráðstöfun hv. þm. á Garðalandi, svo sem það, að ráðstöfunin stuðlaði ekki að því að koma þessum hreppi á kaldann klakann með tilliti til fátækraframfærslu í hreppnum. - En frá þessu sjónarmiði er þó líka sá galli, að þessir menn, sem landið hafa fengið á leigu, eru ekki í Garðahreppi, heldur úr Reykjavík, og búa því ekki á þessu landi. (JónasJ: Þeir koma inn í sóknina þegar ræktunin er tilbúin). Enginn af þeim mönnum, sem þarna fengu land á leigu, er til heimilis í Garðahreppi. Það er alls ekki rétt, að umsækjendur úr Garðahreppi, sem vildu fá land til nýbýlaræktunar, hafi horfið frá umsóknum sínum áður en skipti á landinu fóru fram. Og mér finnst koma úr hörðustu átt sú mótbára hv. þm., að þessir vildarmenn hans hafi hvorki haft dugnað eða manndóm til þess að taka lönd þau, er þeir sóttu um. (JónasJ: Þetta er ekki rétt hjá hv. þm., því þessir menn ætluðu að leggja löndin undir aðrar jarðir).

Hv. þm. vildi láta líta svo út, að ég hefði farið háðulegum orðum um biskup og sagt honum það til ámælis, að hann vildi halda í þetta land. Ég sagði, að fyrir biskupi hefði vakað að nota það fyrir einhverja menningar- eða mannúðarstofnun, af því hann hefði talið það viðeigandi framhald af starfi þeirra manna, er þar hefðu verið og gert hefðu garðinn frægan. Það eru því ósannindi hjá hv. þm., að ég hafi ekki vitað, hvað fyrir biskupi hafi vakað, og biskup hafi ekki vitað, hvað hann vildi í þessu efni.

Mér sýnist raunar alveg óviðkomandi þessu máli, hvernig kirkjan í Görðum hefir verið með farin, eða hvernig hún lítur út samanborið við aðrar kirkjur landsins, en ég get aðeins sagt það, að ég hefi séð margar kirkjur hér á landi og margar miklu fallegri en Garðakirkju. Og þó mætur maður hafi á sínum tíma byggt þessa kirkju og þó henni hefði síðan verið í bezta lagi við haldið, þá væri hún nú alls ekki ein af fallegustu kirkjum landsins, heldur ein af þeim ljótustu. (MT: Hvenær var hún byggð?) Ég veit það ekki. (MT: Hún er með fallegustu kirkjum ennþá. - Forseti: Ekki samtal). Annars virðist það eiga að skína út úr ræðu hv. þm., að það mundi ekki vera fátæka fólkið í Hafnarfirði, sem ég bæri fyrir brjósti, og hafi ekki viljað út með það, hvernig ég hugsi mér, að þessu landi yrði skipt upp, og að ég mundi líklega hugsa mér, að það yrði leigt sem ein torfa til einhvers eins manns. Ég álít, að skipta beri landinu í hæfilega parta, svona 5 ha. hvern. Með því móti yrði þetta land, sem tveir menn hafa fengið, nægilegt handa 9 ábúendum. Það má vera, að hver hinna 9 manna hefði ekki orðið aðrir eins stórgróðamenn eða burgeisar sem hinir, er landið fengu, en munurinn hefði verið sá, að þarna hefðu 9 fjölskyldur fengið sitt lífsframfæri af landinu. Slík ráðstöfun hefði verið í anda jarðræktarlaganna. Ég var í vafa um það fyrst, hvaða land það var, sem hv. þm. talaði um, að burgeisarnir í Hafnarfirði hefðu leigt sjálfum sér, en þykist sjá það nú, að hann muni eiga við Hvaleyrarlandið. Er það ekki svo? (JónasJ: Hv. þm. er sjálfur kunnugur í Hafnarfirði). En þetta land kom bænum ekki við. Það var ekki Hafnarfjarðarbær, sem átti þetta land, heldur Flensborgarskólinn, sem bæði átti og leigði landið. Og ég get upplýst það, úr því að farið er að blanda þessu landi inn í umr., að þó sá maður, sem landið tók á leigu í fyrstu, væri efnaður maður, þá leigði hann öðrum manni, sem fátækur var, landið, og það með alveg sömu kjörum og hann hafði tekið það með sjálfur. Þeir leigusamningar voru því ekki gerðir í gróðaskyni.

Ég verð að vísa aftur þeirri fullyrðingu hv. þm., að hvorki ég né bæjarstj. Hafnarfj. hafi vitað, hvað við vildum gera við landið, er frv. það, sem fyrir liggur, var samið. Ég hefi sýnt fram á, að tilgangurinn er sá, að auka lífsmöguleika bæjarbúa og bæta úr atvinnuleysi þeirra. Það hefir enginn lagt til, að það verði notað til stórrekstrar af einstökum mönnum, heldur handa atvinnulausum mönnum í Hafnarfirði. Þetta var sameiginlegt álit bæði sjálfstæðismanna og jafnaðarmanna í bæjarstjórn Hafnarfj. (JónasJ: Var flatsæng um það?). Það má vel vera, að allt, sem samkomulag fæst um milli tveggja flokka, megi kalla flatsæng. Ég býst við, að hv. þm. kunni vel við sig í slíkum félagsskap. Hv. þm. mótmælti því, að samningarnir um landið hefðu fram farið með leynd, en taldi, að Hafnarfj. hefði verið sofandi í málinu. Þetta er ekki rétt. Átta mánuðum áður en samningarnir fóru fram, eða strax og það fréttist, að skipta ætti landi Garðakirkju, fór bæjarstj. Hafnarfj. þess á leit, að bærinn fengi þann hluta landsins, er félli í hlut kirkjunnar. Og 12. maí síðastl., áður en skiptin fóru fram, var eftir ósk bæjarstj. Hafnarfj. flutt hér á Alþingi þáltill. um það, að bærinn fengi þetta land. Þetta var gert áður en landið var leigt, svo það er hrein og bein della, sem skein út úr ræðu hv. þm., að þetta frv. sé flutt af pólitískum ástæðum. Heldur áleit bæjarstj. Hafnarfj., að með samningunum um landið frá 24. maí síðastl. hafi hreint og beint verið traðkað á vilja Alþingis og rétti kaupstaðarins. Og það er alveg sama, hver fengið hefði þetta land. Þó það hefði verið sjálfstæðismaður eða jafnaðarmaður, mál þetta hefði verið tekið upp engu að síður.