01.06.1933
Efri deild: 86. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 611 í C-deild Alþingistíðinda. (4788)

41. mál, eignarnámsheimild á afnotarétti landsvæðis úr Garðalandi

Jón Baldvinsson:

Hv. landbn. hefir nú lengi setið á þessu máli, og er það nú fyrst í þinglokin, að nál. kemur frá henni. Eins og kunnugt er, hafa í þessari hv. d. verið borin fram þrjú frv., er öll stefna að því að auka möguleika fyrir ræktun fyrir Hafnarfjarðarkaupstað. Nú hefir n. lagt til grundvallar fyrir áliti sínu það frv., sem máske gengur ekki stytzt í þessu efni, en sem þó veitir Hafnfirðingum miklu minni möguleika heldur en frv. á þskj. 138. Ég fæ ekki betur séð en að till. n. gangi miklu skemmra en kröfur hv. þm. Hafnf. í hans frv. En þrátt fyrir það, þó að áður hafi verið þingvilji fyrir því að veita Hafnarfirði þetta land til ræktunar, þá á bærinn eftir brtt. n. ekki að fá annað en afganga, sem kunna að verða eftir, þegar búið er að skipta landinu milli þeirra býla, sem eru í Garðahverfinu. Ég kalla það því meira en litla nægjusemi hjá hv. þm. Hafnf., að ætla að láta sér þetta lynda. Ég hefi ekki heyrt það koma fram í umr., að legið hafi fyrir n. álit bæjarstj. í Hafnarfirði um málið í heild. Það hefir þá farið framhjá mér, ef frá því hefir verið skýrt, en ég hafði hugboð um, að bæjarstj. ætlaði að láta til sín heyra um málið. Hv. landbn. ætlast til, að málið fari til stj. og að hún láti fara fram á ný landskipti á mýrinni, sem svo er kölluð, og hinum landspildunum, sem um er að ræða, og hún leggur til, að ekki minna en helmingur af landinu skiptist milli býlanna í Garðahverfinu, bæði þeirra, sem eru í sjálfsábúð, og hinna sem leigð eru. Ég skil ákaflega vel, hver afleiðingin verður af þessum till., sem sé sú, að það mætti taka löndin af Hermanni lögreglustjóra og Tryggva Guðmundssyni, en sennilegt, að Eyjólfur Jóhannsson fengi í sinn hlut það land, sem hann hefir nú. (PM: Ekki ef afnotarétturinn er tekinn eignarnámi). Það má orða það svo, en þegar eignarnámið er framkvæmt eins og segir í 2. gr. brtt., á að gæta þess, að öll býli í Garðahverfinu, bæði þau, sem eru í sjálfsábúð, og hin, sem leigð eru, fái hæfilega mikið af ræktanlegu landi. Mér sýnist því nokkurnveginn augljóst, að aðeins örlítill hluti af mýri Hermanns og landi Tryggva Guðmundssonar komi í hlut Hafnarfjarðar. Annars verður ekki séð af þessu, hve mikið Hafnarfjörður fær og hvort það verður þá ræktanlegt land eða hvort hann fær nokkuð, því í 3. brtt. er stj. aðeins heimilað að leigja eða selja Hafnarfjarðarkaupstað það, sem kynni að verða eftir af landi. Orðalagið bendir til þess, að þetta þyrfti ekkert að verða, svo mér finnst, að málstaður Hafnarfjarðar sé hér fyrir borð borinn. Mér finnst því ekki hægt að fullyrða, hvað Hafnarfjörður fengi, eða hvort hann fengi nokkuð. Ég er því á móti brtt. n. og vil heldur frv. hv. þm. Hafnf., þó það gangi of skammt í því að útvega Hafnarfjarðarkaupstað land til ræktunar. Það er þó a. m. k. eftir frv. um vissu að ræða, en ég sé ekki, að svo þurfi að vera eftir brtt. n.

Hv. 4. landsk. skaut því inn í umr., að málið mundi ganga fram á þessu þingi. Ég vil ekki segja, að það sé ómögulegt, en það eru ekki miklar líkur til þess; en þó svo færi, þá sé ég ekki, að Hafnarfjörður verði betur settur, - óvissan um hans hlut er svo mikil.

Ég get annars ekki skilið, að Garðahreppsbúar geti ekki unnað Hafnfirðingum að fá þetta land, svo mikið sem þeir hafa saman við þá að sælda, þar sem þeir m. a. selja Hafnfirðingum alla sína mjólk og Hafnfirðingar eru þeim vissir og góðir viðskiptamenn. Ég held líka, að þeir hafi sameiginlegan skóla og ef til vill fleira, svo að Garðahreppsbúar ættu að unna Hafnfirðingum að fá það land, sem þeir þurfa ekki að nota sjálfir, því þó að Hafnfirðingar gætu fyrir það aukið ræktun sína, þá er engin hætta á því, að þeir haldi ekki áfram að kaupa mjólkina af Garðahreppsbúum. Af þeim ástæðum, sem ég hefi nú tilgreint, get ég ekki verið með brtt. hv. n. Mér þykir þær heldur daufleg málalok eftir svo mikinn undirbúning, sem þetta mál er búið að fá.