01.03.1933
Neðri deild: 13. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 649 í B-deild Alþingistíðinda. (479)

4. mál, bifreiðaskatt og fl.

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Ég þarf ekkert að segja f. h. fjhn. um brtt. á þskj. 58, sökum þess, að það hefir orðið samkomulag um, að nm. hefðu óbundin atkv. um þær brtt. En meiri hl. n. flytur brtt. á þskj. 67, við brtt. á þskj. 64. þess efnis, að í stað 250 1. komi 500 l. lágmark. Þótti n. fulllangt gengið með þeirri brtt. á þskj. 64, að færa lágmarkið úr 750 1., eins og nú er í 1., niður í 250 1. Ennfremur vil ég benda á í þessu sambandi, að þetta ákvæði um, að stjórnin megi setja takmark fyrir endurgreiðslu á benzíntolli, er aðeins heimildarákvæði. Meining l. er sú, að skattur af því benzíni, sem ekki er notað til bifreiða, skuli endurgreiddur; en hitt er svo aðeins heimildarákvæði fyrir stj., að hún megi setja takmark fyrir endurgreiðslu á benzínskattinum, þannig, að ekki komi til greina að endurgreiða þann skatt, sem er neðan við þetta lágmark, 750 1.

Þar sem hér er aðeins um heimildarákvæði að ræða, verður að líta svo á, að óþarft sé að flytja brtt. um það; þetta er framkvæmdaratriði fremur en lagaatriði, og aðeins sett til þess að forðast rekistefnu út af smávægilegum kröfum um endurgreiðslu. Ef slíkt lágmarkstakmark er sett á annað borð, þá er ástæðulaust að hafa það svo lágt, sem farið er fram á í brtt. á þskj. 64, því það er svo lítilsvert og gagnslaust. Ég hygg, að ef takmarkið ætti aðeins að vera 250 l., þá væri e. t. v. réttara að hafa það ekkert og ákveða heldur, að skattur af öllu því benzíni, sem ekki er notað til bifreiða, skuli endurgreiddur. Hér yrði um svo smáar fjárupphæðir að ræða, að bátaeigendum munaði sáralítið um þær. Samkv. brtt. gæti þessi endurgreiddi skattur komið til með að verða minnst 10 kr. af hverjum bát, ef nokkur bátur notar svo lítið benzín um árið.

Þar sem meiri hl. n. vill nú með brtt. sinni miðla hér málum og fara bil beggja á milli lágmarks þess, sem nú er í l., og brtt. á þskj. 64, þá vænti ég, að sú sanngjarna till. n. verði samþ. Um brtt. þá á þskj. 66, sem útbýtt var hér á fundinum, hefi ég ekkert að segja f. h. n., því hún hefir ekki átt kost á að taka neina afstöðu til þeirrar till. Þessi brtt. ákveður, að l. skuli ekki gilda nema til ársloka 1934. Um þetta atriði vil ég taka það fram frá eigin brjósti, að mér finnst mjög varhugavert að setja slíkt ákvæði árlega í tekjulöggjöf, sem búizt er við, að haldi áfram að gilda og verði varanleg svo árum skiptir.

Eins og kunnugt er, þá hefir verið lagður skattur á bifreiðar síðan 1921, og má ganga út frá því sem sjálfsögðu, að því verði haldið áfram. Þessum l., frá 1921, var að vísu breytt á síðasta þingi, og ef sú breyt. kynni að reynast athugaverð í einstökum greinum þá er, hvenær sem ástæða þykir til, hægt að flytja frv. til breyt. á þessum 1. En ef Alþingi sér ekki ástæðu til breytinga á 1., þá er óþarfi að eyða tíma til þess að endurnýja þau á hverju þingi. Mótmæli mín gegn þessari brtt. eru flutt frá eigin brjósti, eins og áður er getið, en ekki f. h. n.; nm. hafa óbundnar hendur í atkvgr. um hana. Þó að þessi till. hafi ekki komið fram fyrr en nú á fundinum, þá sé ég ekki ástæðu til að óska eftir frestun á málinu, til þess að n. geti athugað hana á fundi; ég býst við, að hver og einn sé þess albúinn að greiða atkv. um hana nú þegar.