28.02.1933
Efri deild: 12. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 623 í C-deild Alþingistíðinda. (4811)

46. mál, kaup á skuldum

Jón Þorláksson [óyfirl.]:

Ég er nú náttúrlega ekki mikið kunnugur viðburðum eða athöfnum á því sviði, sem þetta frv. fjallar um. En ég hefi þó haldið, að slík innheimta skulda, sem frv. ræðir um, hafi aðallega eða allt að því eingöngu farið fram, þegar seldar hafa verið skuldir þrotabúa eða dánarbúa. Og ég skil ekki, hvernig í því tilfelli geti komizt að þetta, sem hv. flm. hugsar sér, að það haldist í gegnum innheimtuna þau persónulegu bönd, sem kunna að hafa verið milli lánveitanda og skuldunauts. Ég held, að í þeim tilfellum sé ekki framkvæmanlegt það, sem hv. flm. lýsti, að væri aðaltilgangurinn, að knýja það fram, að lánveitendur innheimti sjálfir. Ég hefi ekki orðið var við þetta almenna álit, sem hv. flm. talar um, en þó orðið var við nokkuð almenna hneykslun á slíkri skuldasölu með eftirfarandi innheimtustarfsemi í einu tilfelli. Það var þegar það kom fyrir, að sýslumaður keypti slíkar verzlunarskuldir, sem hvíldu á héraðsbúum mjög almennt, og öllum landsmönnum, sem til fréttu, til stórrar undrunar, fékk leyfi yfirboðara síns, sem þá var dómsmrh., og hv. flm. þessa frv. mun vita, hver var, til þess að mega kaupa þessar skuldir á héraðsbúa og innheimta þær meðan hann ætti sæti í sýslumannsembætti. Þetta var náttúrlega öðruvísi en það átti að vera.