28.02.1933
Efri deild: 12. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 624 í C-deild Alþingistíðinda. (4812)

46. mál, kaup á skuldum

Flm. (Jónas Jónsson):

Ég hefi fengið í síðustu ræðu hv. l. landsk. einkennilegan stuðning við þetta frv., sem ég þakka fyrir, með því að hann telur sig hafa frétt um tilfelli, þar sem þetta hafi átt sér stað. Á því sést, fyrst hann veit um eitt dæmi, og aðrir vita um fleiri, að ástæða sé til að vinna á móti því. Mér skildist á hv. þm., að hann áliti, að á meðan ég var dómsmrh. hafi ég leyft einum sýslumanni að kaupa skuldir á sýslubúa og innheimta þær. Það er rétt, að meðan ég var dómsmrh. frétti ég, að einn sýslumaður hefði gert þetta. Ég spurði hann að því persónulega, en hann neitaði því. Ég skal játa, að ég veit ekki með vissu, hvort sýslumaðurinn hefir verið saklaus af þessu, en það var hlutur, sem var þess eðlis, að það var ekki hægt að sanna á hann. - Það er margt, sem einstakir menn og starfsmenn landsins frétta á skotspónum, en ekki kemur fram í kæruformi, og ekki verður tekið á. T. d. er það talið, að hv. 1. landsk. hafi grætt 150 þús. kr. á akkorði við rafmagnsstöðina hér. Ég hafði ekki aðstöðu til að sanna þetta, en þessari sögu er, eins og um sýslumanninn, almennt trúað. Ég hefi enga skoðun á því til eða frá, en ég segi þetta aðeins sem dæmi upp á, að þetta er hneyksli, ef það hefði átt sér stað. En það er því miður ekki hægt, eins og hv. þm. hlýtur að skilja, fyrir eina stjórn að hindra allar syndir í landinu, einkum þar sem Íhaldsflokkur er mannmargur.