01.03.1933
Efri deild: 13. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 630 í C-deild Alþingistíðinda. (4818)

47. mál, sjórnarskrárbreytingu

Jón Jónsson:

Ég sé nú ekki beinlínis ástæðu til að hefja verulegar umr. um þetta mál eins og það liggur nú fyrir. Eins og kunnugt er, þá er komið fram annað frv., og gefst því tækifæri til þess að ræða þetta frekar. Hinsvegar skildist mér það á hv. flm., að hann gerði ekki ráð fyrir, að það frv., sem hann ber hér fram, næði fram að ganga á þessu þingi. Enda vona ég, að það gangi ekki fram. Ég tel það illa farið, ef svo stórfelld breyt. á stjskr. yrði samþ. Ég er honum ósammála í því, að það hafi verið illa farið, að málið var ekki afgr. á síðasta þingi. Ég býst þvert á móti við því, að svo víðtækt og viðkvæmt mál eins og þetta hafi gott af því að bíða. Hvort stjskr.breyt. í einhverri mynd verði afgr. á þessu þingi, skal ég ekki segja, en í því er ég sammála hv. 2. landsk., að það séu fleiri verkefni, sem fyrir þessu þingi liggja, sem í sjálfu sér munu vera meira aðkallandi en þetta mál.

Ég sé svo ekki ástæðu að þessu sinni að fjölyrða frekar um málið, en vildi beina þeirri ósk til hæstv. forseta - einkanlega út af þeirri yfirlýsingu, sem kom fram frá hv. flm., að hann myndi koma fram með lista við n.kosninguna - að n.kosningunni yrði frestað þangað til síðar, að flokkarnir geti athugað það mál.