01.03.1933
Efri deild: 13. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 632 í C-deild Alþingistíðinda. (4820)

47. mál, sjórnarskrárbreytingu

Jón Þorláksson [óyfirl.]:

Mér kom það dálítið á óvart, þegar ég heyrði hv. 2. landsk. segja, ef ég hefi skilið hann rétt, að Sjálfstfl. féllist ekki á aðalatriðin í þessu stjskrfrv., sem hann nú flytur. Mér kom þetta á óvart, af því að ég hafði , ekki vitað annað en að hann væri mér sammála um það, að sköpun jafnréttisins meðal kjósendanna í landinu væri fyrst og fremst aðalatriðið í frv., og um það er Sjálfstfl. honum sammála. Það er tilhögunin á því, hvernig þessu marki verði náð, sem við erum honum ekki sammála um. Ég hefi litið svo á, að sjálft markið væri aðalatriðið, en tilhögunin, hvernig markinu væri náð, væri a. m. k. ekki því hliðstæð.

Mér þótti leiðinlegt að heyra ummæli hv. 3. landsk., þar sem hann var að draga úr því, að stjskrfrv. yrði afgr. á þessu þingi. Ég hefði að vísu ekki haft svo mikið við þetta að athuga, ef ummælunum hefði verið beint eingöngu gagnvart því frv., sem hér liggur fyrir til umr. í dag, sem hv. flm. bjóst ekki sjálfur við, að mundi ná fram að ganga á þessu þingi, en ég skildi hv. 3. landsk. þannig, að hann væri ekki síður að beina ummælum sínum að því stjfrv., sem hefir verið útbýtt í þinginu í dag. Ég verð að segja það, að mér finnst þetta aðalverkefni samsteypustj., sem hún beinlínis var mynduð upp á, fá kaldar viðtökur frá einum bezta stuðningsmanni samsteypunnar, ef það er meiningin, að það geti eins farið svo, að því verði ekki sinnt á þessu þingi eða það látið ná afgreiðslu. Ég vil nú vona, að ég hafi eitthvað misskilið hv. 3. landsk., þó ég geti ekki skilið orð hans öðruvísi.

Ég vona, að þegar hann hugsar sig betur um, hljóti hann að sjá það, eins og afstaðan er til samsteypustj. og þeirra loforða, sem þá voru gefin, að það er óhjákvæmilegt, að stjskrfrv. verði afgr. á þessu þingi.