01.03.1933
Efri deild: 13. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 633 í C-deild Alþingistíðinda. (4821)

47. mál, sjórnarskrárbreytingu

Jón Jónsson:

Ég sé ekki brýna ástæðu við þessa umr. að svara hv. 2. landsk. mjög miklu. Ég býst við, að honum hafi ekki komið það á óvart, þó að ég væri ekki samþykkur hans frv., enda skildist mér á honum, að hann myndi ekki leggja mikið kapp á, að það næði fram að ganga.

Viðvíkjandi því, sem hv. 1. landsk. sagði, vil ég taka það fram, að ég hafði ekki með þessum orðum, sem ég sagði, tekið neina afstöðu til þess frv. frá ríkisstj., sem kom fram áðan. Ég lét þá skoðun í ljós, að nú væru tímarnir það alvarlegir, að að minni hyggju væru önnur verkefni, sem kölluðu fastar að en stjskr.breyt. í hvaða mynd sem væri. Hitt sagði ég, að ég myndi verða andvígur því frv., sem hv. 2. landsk. ber fram. Um stjfrv. er nógur tími til að ræða. Ég taldi, að önnur verkefni kölluðu fastar að en þetta.

Hv. 1. landsk. sagði, að það hefði verið aðalverkefni samsteypustj. að vinna að lausn kjördæmamálsins. Ég verð að segja það, að hann og flestallir flokksbræður hans hafa álitið, að þetta væri aðalverkefnið. Það er rétt, að því hefir verið lofað, að frv. til stjskr.breyt. skyldi verða lagt fram fyrir þingið, enda hefir það verið efnt. Ég man ekki eftir neinni yfirlýsingu frá stj. hálfu eða orðum um, að það skyldi sjálfsagt verða afgr. á þessu þingi. Um það var vitanlega ekki hægt neitt að segja.

Það væri gott, ef samkomulag næðist um sæmilega lausn kjördæmamálsins, en um það get ég ekkert fullyrt. Ég held því fram, að það hafi miklu frekar verið verkefni samsteypustj. og skylda, sem þyngst hvílir á okkur þm., að leysa vandamálin, sem stafa af núv. kreppu, og að það sé það, sem þm. verða að beina hugum sínum að frekar öllu öðru.