01.03.1933
Efri deild: 13. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 634 í C-deild Alþingistíðinda. (4823)

47. mál, sjórnarskrárbreytingu

Flm. (Jón Baldvinsson):

Það er ekki ástæða fyrir mig að deila við hv. 1. landsk. En ég vil benda á, að frv. okkar Alþ.fl.þm. tryggir bezt það aðalatriði, sem við hv. 1. landsk. erum sammála um: að þingflokkar hafi atkvæði á þingi í samræmi við atkvæðamagn við kosningar; það tryggir þetta miklu betur en stj.frv. það, sem fram er komið að tilhlutun stj. og hv. 1. landsk., því hann er eins og kunnugt er stuðningsmaður samsteypustj. Mér þykir gott að heyra það hjá hv. 1. landsk., að hann telji óhjákvæmilegt að samþ.stjskr.breyt. á þessu þingi.

Hinsvegar skal ég ekki leyna því, að í Alþfl., sem í fyrra var sammála Sjálfst.fl. um kröfur í þessu máli, ríkir mjög mikil tortryggni til flokksmanna hv. þm. vegna þeirrar undanlátssemi, sem þeir sýndu í fyrra, og sé því ekki rétt að byggja á því, að þeir standi nú eins og veggur í þessu máli á þessu þingi. Svo það er eðlileg ástæða til þess að trúa því ekki fyrirfram, þó að mér þyki gott að heyra þessa yfirlýsingu hv. 1. landsk. Ég hefi reyndar þá trú á honum, að hann vilji sjálfur vinna að stjórnarskrárbreyt. á þessu þingi, hvort sem hann fær því ráðið eða ekki.

Þá vil ég víkja nokkuð að hv. 3. landsk. Hann sagði, að sér hafi skilizt á mér, að ég legði ekki áherzlu á það, að þetta frv. gengi fram. Ég sagðist, eins og var, ekki búast við, að þetta frv. gengi fram á þessu þingi. Lýsti ég nánar, hvernig andstæðingarnir hefðu lýst sig andvíga þeim ákvæðum, sem koma fram í frv., og að það væri ekki von, að Alþfl. kæmi frv. fram með sínum mannafla á þingi. Við Alþfl.menn leggjum áherzlu á þetta frv., og þetta er sá grundvöllur, sem við byggjum á. Hitt er annað mál, hvort við gætum í bili sætt okkur við eitthvað minna, en sem væri þó veruleg bót á kjördæmamálinu.

Það er undarlegt að heyra það, að hv. 3. landsk., sem er svo handgenginn ríkisstj., eins og kunnugt er, skuli lýsa yfir, að hann hafi ekki tekið neina afstöðu til frv. stj. Ég held, eftir öllum sólarmerkjum að dæma, að hann hafi verið í samningum með ríkisstj., og það er svo að sjá, að hann telji það bezt farið, að Framsfl. og Sjálfstfl. haldi áfram að vinna saman um stj. og framkvæmdir.

Þá er það till. hans um að fresta stj.skr.málinu. (JónJ: Ég sagði kosningu n.). Kosningu n. er sjálfsagt að fresta, ef flokkarnir óska þess.