04.03.1933
Efri deild: 16. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 647 í C-deild Alþingistíðinda. (4835)

57. mál, hámarkslaun

Flm. (Jónas Jónsson) [óyfirl.]:

Ég varð nú ekki fyrir þeirri ánægju, sem ég þó bjóst við, að hv. 1. þm. Reykv. lofaði mér beinum og óbrigðulum stuðningi við þetta frv. Aftur á móti varð ég fyrir þeirri sorg, að heyra það, að embætti bankaeftirlitsmannsins er svo hrapallega launað sem hann upplýsti. Það skyldi þó aldrei vera, að launin greiddust ekki samkv. lögunum fyrir það, að sumir þeirra, sem eiga að greiða þau, geri verkfall. (JakM: Launin eru greidd lögmælt mánaðarlega). Það er ekki fyrir það, að ég get vel skilið slíkt verkfall. (JakM: Þetta er tómur misskilningur, ég fæ laun mín öll greidd). Mér þykir það mjög gleðilegt, að þetta verkfall, sem áreiðanlega er skollið á, skuli ekki enn hafa snert sjálfan bankaeftirlitsmanninn, heldur aðeins ríkissjóðinn, þó það sé ekki alveg útilokað, að svo geti farið, að það komi fram gagnvart bankaeftirlitsmanninum líka.

Ég skil ekkert í því, að hv. 1. þm. Reykv. skuli ekki átta sig á því, að eignarskattur, útsvar og tekjuskattur er dreginn frá tekjunum áður en skatturinn er ákveðinn, og þrátt fyrir það er alveg víst, að skattur samkv. þessu frv. mundi hér í Reykjavík einni saman nema verulegri fjárhæð.

Ég held, að ótti hv. 1. þm. Reykv. við það, að till. þær, sem borgararnir hafa samþ. á þingmálafundunum, hafi átt eingöngu við konunglega embættismenn, sé alveg ástæðulaus. Ég get t. d. sagt honum þær fréttir frá einum fundi, sem haldinn var í Rangárvallasýslu, því kjördæmi, sem flokkur hv. þm. hefir meiri hl. kjósenda í og fyrra þingsæti, að bændurnir samþykktu tillögu um hátekjuskatt, og þessi skattur átti ekki aðeins að ná til embættismanna, heldur allra þeirra starfsmanna stofnana og fyrirtækja, sem hafa svo háar tekjur, að skatturinn næði þeim. Þetta var á fundinum á Stórólfshvoli. Það vantaði þó ekki, að hv. 1. þm. Rang., sem þar var staddur og sjálfur hefir 20 þús. kr. laun fyrir eitt sitt verk, reyndi að halda þessu sama fram og hv. 1. þm. Reykv., að af svo sem engu sé að taka, og þess vegna sé varla leggjandi út í slíka skattapólitík. En þrátt fyrir fortölur þessa hv. þm. og þrátt fyrir vinsældir hans og einnig þó á fundinum væri meiri hlutinn flokksmenn hans og kjósendur, þá samþykktu þeir engu að síður með öllum greiddum atkv. till. um hátekjuskatt af öllum tekjum, sem færu yfir visst lágmark. Þetta sýnir, að bændur vilja, að þeir spari, sem hafa háu launin, hvort sem það eru konunglegir embættismenn, atvinnurekendur, bankamenn eða aðrir starfsmenn fyrirtækja og stofnana, og eins þó þeir hafi laun sín eftir samningi við bæjarfélög.

Hv. þm. virtist hræddur um, að ég slægi hendi á móti till. um það að láta skatt þennan ná til tekna undir 8 þús. kr., en það er alveg ástæðulaus ótti; það er ekkert í frv., sem bendir á það. Hinsvegar vil ég benda á það, að margir hafa verið nálægt þessu takmarki; t. d. var á fundi í Norður-Ísafjarðarsýslu samþ. till. um 10 þús. kr. hámarkslaun, nema handa ráðherrum. Þetta sýnir, að kjósendurnir álíta, að það eigi að taka toppinn af háum tekjum. Þetta frv. er hvorki miðað við mig né bankaeftirlitsmanninn. Hv. þm. veit um starfsmenn ríkis eða stofnana, sem studdar eru af ríkinu, sem hafa í árslaun frá 20 til 26 þús. kr. Þessar tekjur má skerða með skatti. Kjósendurnir í Norður-Ísafjarðarsýslu vilja, að þessar tekjur lækki í 10 þús. kr. Þeir telja, að engir eigi að hafa hærri tekjur, nema ráðherrar, en sú undantekning var raunar óþörf, því enginn ráðh. hefir svo há laun, nema forsrh., og um hann er gerð undantekning í frv.

Ég hefi talað við marga menn víðsvegar að um þessa hluti, og menn hafa nefnt sem hámark ýmsar upphæðir skattfríar, 10 þús. kr. sumir, aðrir 9 þús. kr. eða 8 þús., og enn aðrir jafnvel 5 til 6 þús. kr. En þetta er auðvitað hlutverk þingsins, að ákveða hámarkið. Raddirnar um, að það eigi að taka toppinn af, eru háværar, og ég get sagt hv. þm., að það getur komið til mála að lækka takmarkið. Það er aðeins spursmálið, hve mikið treystir hv. þm. sér að taka af þeim, sem hæst hafa. Ég hefi gert ráð fyrir, að komið gæti til mála að byrja neðan við 8 þús. kr., og er við því búinn að taka við brtt. í þá átt. Umhyggja sú, sem hv. þm. bar fyrir mér, er alveg óþörf. Ég beygi mig fyrir því, þó byrjað yrði á 4 til 6 þús. kr., og mun styðja þá þm., sem vilja lækka takmarkið og treysta sér til að fylgja því.