02.06.1933
Efri deild: 87. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 651 í C-deild Alþingistíðinda. (4841)

57. mál, hámarkslaun

Frsm. minni hl. (Jón Þorláksson) [óyfirl.]:

Ég finn ekki heldur ástæðu til að fjölyrða um þetta frv. Það er allra mesti óskapnaður. Það er ekki eiginlegt skattafrv. Þó er það að gera ráð fyrir sköttum. Ekki heldur er það ákvörðun um það, hve mikilla tekna menn megi afla sér, eins og menn þó gætu haldið eftir fyrirsögninni, því það setur engin takmörk fyrir því.

Ég hefi gert grein fyrir því í nál., að ég álít, að frv. fari út fyrir þann grundvöll, sem löggjafarvaldið hefir markað sér með ákvæðum stjskr., því að það getur ekki verið leyfilegt að ákveða það, að sérhvað það, sem maður eignast umfram einhverja tiltekna upphæð, hver sem hún er, skuli takast af tekjum hans og falla endurgjaldslaust til ríkisins. Slíkt er ekki skattlagning, heldur konfiskation, eignataka án endurgjalds. Ég hefi því látið í ljós það álit, að þetta mál ætti ekki að koma til frekari meðferðar á þingi, vegna þess ákvæðis stjskr., sem ég hefi vísað í. Styð ég það m. a. með því, að ef löggjafarvaldið getur leyft sér að taka af hverjum manni það, sem hann aflar sér umfram 8 þús. kr., þá geti það eins miðað við hverja aðra tölu sem er, t. d. 2 þús., eða jafnvel 1500 kr. Og þá er ekki til nein vernd á eignarréttinum, sem þó er ákveðið í stjskr., að skuli vera. Ég held, að því verði ekki með rökum mótmælt, að talan 8 þús. hefir enga sérstöðu fram yfir aðrar tölur, þannig, að það væri óleyfilegt að stýfa af annarsstaðar, ef heimilt þykir að stýfa af á þessum stað. - Læt ég þetta nægja að svo stöddu.

Annars er þetta frv. sá óskapnaður, að ég hygg, að það sé ekki á nokkurs manns færi að rekja það sundur og gera grein fyrir öllum þeim árekstrum við gildandi löggjöf, sem yrðu, ef það væri samþ., t. d. við skattalöggjöfina.