24.03.1933
Efri deild: 33. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 765 í C-deild Alþingistíðinda. (4857)

121. mál, endurgreiðslu á útflutningsgjaldi af saltsíld

Flm. (Bjarni Snæbjörnsson) [óyfirl.]:

Það hefir oft áður verið til umr. hér á Alþingi að lækka útflutningsgjald af saltsíld, enda ekki að ófyrirsynju, þar sem tollur sá, sem á hana er lagður, er margfalt hærri tiltölulega en annað útflutningsgjald. Á sumarþinginu 1931 var tollur þessi lækkaður úr kr. 1.50 niður í 1 kr., en samt sem áður er hann mjög tilfinnanlegur, þegar tekið er tillit til salttollsins, sem nema mun kr. 0.50 á hverja síldartunnu. Hér er farið fram á, að tollurinn haldi sér eins og hann er nú á allri þeirri saltsíld, sem ekki er veidd af landsmönnum sjálfum. Öll sú síld, sem veidd er hér við land af útlendingum, verður þannig ekki undanþegin útflutningsgjaldinu. En eins og kunnugt er, var það ein af meginástæðunum fyrir því, að lög þessi um útflutningsgjald af saltsíld voru sett, að ríkissjóður fengi tekjur af gróða útlendinga af þessari veiði, en fyrir 12 árum voru það flest útlendingar, sem hana stunduðu. Það er öllum vitanlegt, að síldarútvegurinn hefir verið til mikilla hagsbóta fyrir landslýðinn. Þó er það svo, að hann hefir oft verið nærri því kominn að sligast, bæði af tollaálögum og skerðing á réttindum þeirra, sem hann stunda. Átti þetta sér stað fyrst og fremst á þinginu 1924. Þá er og hér í uppsiglingu annað frv. í þinginu þessa dagana, sem kveður enn sterkara að orði en nokkurt annað mál, sem áður hefir komið fram, um skerðingu þessa atvinnuvegar. Getur því svo farið, að hann beinlínis falli í rústir, ef lengra verður fram haldið á þessari braut. Vænti ég því, að hv. þdm. líti með velvild á frv. þetta og athugi það, að afkoma fjölda manna er mjög undir velgengni þessa atvinnuvegar komin.

Læt ég svo útrætt um málið að sinni og legg til, að því verði að umr. lokinni vísað til 2. umr. og sjútvn.