01.03.1933
Neðri deild: 13. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 660 í B-deild Alþingistíðinda. (487)

4. mál, bifreiðaskatt og fl.

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Ég þarf sáralítið að segja fyrir hönd n., þar sem hæstv. ráðh. hefir svarað aths. gegn þessu frv. Ég verð að taka undir með honum um það, að það er ekki rétt, sem hv. 2. þm. Rang. heldur fram, að þessi 1. hafi verið sérstök kreppuráðstöfun, og er það til marks, að samskonar frv. hefir verið borið fram oft áður. Ég man, að þegar Einar Árnason var fjmrh., lagði hann svipað frv. og þetta fyrir þingið. Þó að kreppan hafi þá ekki verið mjög langt fram undan, þá er hitt alveg víst, að enginn talaði um væntanlega kreppu og engum datt í hug að gera ráðstöfun gegn henni þá. Og eins og kunnugt er, þá var þetta mál borið fram af einstökum þm. mörgum árum áður, sökum þess að þetta gjald þótti að miklum mun hentugra og réttlátara en það gjald, sem áður var lagt á bifreiðar.

Þessi sami hv. þm. var að tala um, að hér væru skattlagðir dýrustu flutningar bænda. Ég held, að þrátt fyrir allt séu bifreiðaflutningar ekki þeir dýrustu. Dýrustu flutningar bænda eru áreiðanlega klakkaflutningar langar leiðir, sem æði margir bændur verða því miður ennþá að búa við. Sumstaðar skipta þær vegalengdir jafnvel dagleiðum. Og tilgangurinn með því að afla þessara tekna og verja þeim til vegagerðar er m. a. sá, að þessar erfiðu vegalengdir verði smástyttar. Að vísu á þetta að fara til viðhalds, en ekki nýlagningar. En það er sama: því hægara verður að taka annað fé til nýrra vega. Svo er annað. Ég efast um, að skattur á þau flutningatæki, sem bændur nota mest, sem eru vörubifreiðar, hafi í raun og veru hækkað vegna þessara l. víðast hvar á landinu. Þess ber að gæta, að um leið og benzíntollur var lögtekinn í fyrra, var jafnframt sá gamli bifreiðaskattur afnuminn, og vörubifreiðar eru algerlega undanþegnar þungaskatti. Þar, sem ég er kunnugastur, eru vörubílar mikið notaðir. Eigendur þeirra líta svo á, að þeim séu þessi 1. ekkert óhagkvæmari en hin fyrri. En þar hagar svo til, að vegalengdir eru ekki mjög miklar. Það getur hagað öðruvísi til um þetta í héraði hv. 2. þm. Rang., þar sem vegalengdir eru miklu meiri.

Hv. þm. sagði í sambandi við þennan 20 þús. kr. styrk, sem þeir fengu fyrir austan, að sér væri sama, hvort þær væru veittar eða ekki „af því að þær fóru til sýsluvega“. Þetta þykir mér kynleg yfirlýsing. Ég veit ekki betur en að við íbúar annara landshluta verðum að leggja á okkur bein gjöld til okkar sýsluvega. En ef veittar eru sérstaklega 20 þús. til sýsluvega austur þar, þá sé ég ekki betur en það spari sýslunni 20 þús. kr. gjöld til sömu vega. Gæti hún þá jafnvel varið af sínum tekjum fé til að styrkja flutningana beinlínis, þar sem hún fær þessa aukagetu. Annars skyldi ég fyrir mitt leyti ekkert hafa á móti því, þó þessum 20 þús. kr. yrði varið til að styrkja flutningana beinlínis. Tel ég víst, að samningar gætu tekizt um það við hæstv. stj. ef íbúar viðkomandi héraða óska þess.

Hv. þm. Borgf. kvað mig hafa misskilið ákvæðið um endurgreiðslu á benzíntolli til þeirra, sem ekki nota benzín til bifreiða. En ég held, að ég hafi skilgreint það rétt, að það sé meining 1., að tollur af slíku benzíni sé endurgreiddur, en þetta ákvæði, að það þurfi ekki endilega að gilda um það smæsta, sé til hægðarauka, heimild, en ekki fyrirskipun. Þetta sagði ég áðan, og ég sé ekki annað en að það sé alveg rétt. Hitt má vera, að álitamál sé, hvar takmörkin eigi að vera, þegar um undantekningar er að ræða. En eins og hv. þm. Borgf. sagði áðan, ef markið er 250 l. notkun á ári, þá sleppa allir bátar undan skatti, því þeir nota allir það mikið benzín, og get ég verið honum sammála um þetta. En þá spyr ég: Hvers vegna á að hafa nokkurt lágmark? Ég sé ekki, að ef það er aðeins 250 1., að þá náist tilgangurinn með þessu ákvæði, sem var sá, að losna við rekistefnur og vafstur út af örlitlum upphæðum. Er þá ekki eins gott að ákveða í eitt skipti fyrir öll, að allur tollur af benzíni, sem ekki fer til bifreiða, skuli endurgreiðast? Þessi brtt. hv. þm. Borgf. er þó líklega ekki borin fram vegna þeirra, sem kaupa benzín á eina flösku og nota til óvanalegra hluta. (PO: Hvað er óvanaleg notkun benzíns?) Ég þekki það ekki svo vel, en ég veit, að stundum er keypt ein og ein flaska og benzínið notað til að hreinsa föt. Það skyldi þá vera þess vegna, sem hv. þm. vill hafa markið svona lágt.

Ég get verið sammála hv. þm. um það, að bátaútvegurinn eigi ekki að borga sérstakan skatt til vega. En ég hygg, að flestir bátar, sem ganga á veiðar svo heitið geti, mundu sleppa við benzínskatt, þó till. n. væri samþ., því þeir munu flestir nota yfir 500 l. um árið.

Hv. 3. þm. Reykv. sagði, að tilgangurinn með því að setja inn í l. í fyrra, að þau skyldu gilda til ársloka 1933, hefði verið sá, að 1. ættu að verða endurskoðuð. Hæstv. ráðh. hefir vikið að þessu, svo að ég þarf þess ekki. Hygg ég það alrangt, sem hv. þm. sagði um þetta efni. Þykir mér hann heldur minnissljór, ef hann man ekki, að yfirleitt vildi hans flokkur ekki samþ. nokkur skattalög eða tekjulög í fyrra, nema með því móti, að bundin væru við ákveðinn tíma. Ég held, að það hafi verið pólitískt samkomulag, að 1. skyldu gilda til ársloka 1933, en ekki verið talin sérstök nauðsyn á endurskoðun þeirra á þessu þingi. Náttúrlega er það ekkert aðalatriði, hvort við ákveðum nú, að 1. gildi til ársloka 1934 eða ótiltekinn tíma, en það kostar þó tíma og fyrirhöfn að fá þau samþ. aftur. Ef meiri hl. á næsta þingi sýnist hinsvegar rétt að breyta 1. eða fella þau úr gildi, er það eins hægt, þótt tímatakmark sé ekki ákveðið nú. Ég skal taka fram, að þetta síðasta segi ég ekki fyrir n. hönd, heldur frá eigin sjónarmiði. Mér finnst það yfirleitt hjákátlegt með l., sem gilda ár eftir ár og alltaf eru framlengd, segjum t. d. verðtollslögin, að taka það alltaf fram, að 1. skuli ekki gilda nema ákveðinn tíma. Og ég hefi ekki trú á því, þótt þetta ákvæði verði samþ., að l. falli úr gildi við lok næsta árs; heldur veit ég nokkurnveginn, að næsta þing mun framlengja þau. Og hvað er þá unnið með tímatakmarkinu nú?