01.03.1933
Neðri deild: 13. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 662 í B-deild Alþingistíðinda. (488)

4. mál, bifreiðaskatt og fl.

Jón Auðunn Jónsson:

Ég vildi aðeins leiðrétta misskilning, sem kom fram í ræðu hv. 2. þm. Rang., að flóabátar notuðu benzín til brennslu. Eins og menn vita, þá eru það ekki nema smábátar; alls engir flóabátar nota benzín. Af þessum sökum er því ekki hægt að bera saman þeirra ferðir við landferðir, þegar um bifreiðaskatt er að ræða.

Hann kvartaði mjög um, hvað mjólkurflutningar væru dýrir að austan, og það er rétt. En ég get upplýst, að við Ísafjarðardjúp hafa menn byrjað á að flytja mjólk á bátum til Ísafjarðar frá fjarlægum hreppum. Þar er mjólkurflutningur mjög dýr eða um 12 aur. á lítra; þar með ekki talinn flutningur á landi eða til skips, og þó hefir verið tap á ferðunum hjá þeim, sem annast flutningana. Það er ekki eðlilegt, að hv. þm. þekki staðháttu til að dæma um þessa hluti almennt; hann mun ekki þekkja mikið til ferðalaga og flutninga nema um Suðurlandsundirlendið.

Ég hygg, að benzínskatturinn á flutningunum hér austur muni ekki nema miklu, sennilega ekki meiru en 3—5% af flutningskostnaði. Annars lítur svo út sem hv. þm. haldi, að það hafi aldrei verið neinn skattur á bifreiðum og þar með flutningum á landi, fyrr en 1. frá í fyrra voru samþ. En það er áreiðanlega rétt, sem 1. þm. Eyf. tók fram, að vöruflutningum á landi muni ekki ofþyngt frá því, sem var eftir bifreiðaskattslögunum frá 1921, með benzínskattinum í fyrra. Það kemur sérstaklega niður á smábátaútgerðinni í vegaleysishéruðum á Vestfjörðum og Austfjörðum, ef ekki fæst undanþága fyrir það benzín, sem til smábátanna er notað. Flutningar á þessum slóðum eru dýrari en langar landferðir. Þar að auki er hin mesta ósanngirni að skattleggja smábátaútveginn, sem er borinn uppi eingöngu af sjálfsbjargarviðleitni landsmanna og er stundaður viðast af litlum efnum, oftast mjög litlum, aðeins til þess að framfleyta sér og sínum. (Rödd af þingbekkjum: Hvað um bændurna?). Auðvitað er sama að segja um þá. En þeim er þó sköpuð önnur aðstaða og í ýmsu létt undir með þeim, og benzínskattinn á eingöngu að nota til þess að auka og bæta vegi og þar með gera flutninga á landi auðveldari og ódýrari. En í hverju er létt undir með smábátaútveginum? Með því að skatta allt, sem hann þarf að nota, með hásköttum. Honum er engin aðstoð veitt, nema það sem guð og náttúran gefur. Hér á þingi er ymprað á því að skattleggja fiskimiðin, jafnvel þau, sem eru utan landhelgi. (ÓTh: Hvaða kjáni var nú þetta?) Menn geta farið nærri um það, þegar þeir heyra aðra eins firru, hver það hafi verið.

Annars er leiðinlegt að heyra, að hv. 2. þm. Rang. sé sama, hvort lagðar eru fram 20 þús. kr. til að bæta vegi austanfjalls, eða ekki neitt. Hann mun vera nálega einn um þá skoðun, og skal ég þess vegna ekki hnýfilyrðast út af þessu.