08.03.1933
Efri deild: 19. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 677 í C-deild Alþingistíðinda. (4903)

74. mál, eignarnámsheimild á ábúðar- og erfðafesturétti

Flm. (Jónas Jónsson):

Ég þarf ekki mikið að þrátta við hv. þm. Hafnf. Vörn hans fór eftir málstað, og reyndar gafst hann alveg upp við að verja leigusamninga flokksmanna sinna á löndum Hafnarfjarðar. En það mál, sem hér um ræðir, fer fram á, að Hafnfirðingar geti átt kost á þeim löndum til hagfelldrar ræktunar. En til þess að draga athyglina frá ósigri sínum, leitaðist hv. þm. enn við að réttlæta frv. sitt, um að leggja hluta úr Garðalandi undir Hafnarfjörð.

Hv. þm. taldi, að það hefði borið vott um litla umhyggju fyrir bændunum í Garðahreppi, að skipta ekki umdeildu landi á milli þeirra, og sagði, að þeir hefðu verið skildir eftir mjög landlausir. Sannleikurinn er þó sá, að bændurnir, sem áður höfðu aðeins smátúnkraga til sérnota, fengu nú útmælt land að stærð 20-50 ha. hver. Á þann hátt var þeim gert mögulegt að auka ræktun sína. Stingur það nokkuð í stúf við þá heimskulegu samninga, sem gerðir voru um Hvaleyrina í Hafnarfirði og íhaldið þar stóð að.

Hv. þm. sagði, að ég fjandskapaðist við Garðahrepp. Ég hefi hér í höndunum fundargerð þaðan, sem mér hefir borizt og ég veit ekki annað en að sé ófölsuð. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Hafnarfjörður, sem þegar hefir fengið stóran hluta af Garðalandi og hefir enn lítið ræktað af því, sem þó er eigi lakara til ræktunar en grjótholtin kringum Garðahverfi“.

Þetta var samþ. á bændafundi í Garðahreppi 3. marz 1933. Það land, sem hér um ræðir, mun annaðhvort vera það, sem ég útvegaði Hafnarf. fyrir nokkrum árum, eða það, sem þeir gátu fengið í fyrra, eftir að mælingar á landinu höfðu farið fram. Ef þetta skjal er ófalsað - og ég hefi enga ástæðu til að ætla annað -, þá sýnir það, að Garðhreppingar telja ekki ástæðu til þess, að Hafnarfj. fái þarna meira land.

Um mótmælin má annars geta þess, að Garðhreppingar mótmæltu því harðlega í fyrravor, að Hafnfirðingar fengju þarna meira land. Hinsvegar hafa engin mótmæli frá þeim borizt gegn því, að þarna væru stofnuð nýbýli. Þeir skilja það vel, að sveitinni geti orðið meiri styrkur að því, að þarna rísi upp sjálfstæð býli með ræktuðu landi, heldur en þó að mógrafaland þetta sé notað til beitar, eða því sé skipt upp milli verkamanna eða annara í nágrannabæjarfélagi. Sjálfir treysta þeir sér ekki til að rækta þetta land í bráðina, enda hafa þeir mikið af öðru óræktuðu landi. - Það er jafnvel ekki laust við, að þeir sendi Hafnfirðingum sneið, sem enn hafa ekki notað sín ræktanlegu lönd. Og ekki tók betra við þegar hv. þm. fór út í sveitarstjórnarmálin frá ræktunarmálunum. Hann sagði fyrst, að það væru lítil sveitarþyngsli í Garðahreppi, en svo var lögð fram skýrsla, sem sló hann flatan, þar sem það er sannað, að það eru meiri sveitarþyngsli þar en í nokkrum öðrum hreppi á landinu. Þó að þau fari minnkandi nú, er það aðeins fyrir þann möguleika, sem ég hefi gefið bændum hreppsins tækifæri með landskiptunum til þess að færa út bú sín, rétta svolítið úr sér. En svo grimmilega hafa þeir verið píndir, að þeir eru nú taldir skuldlausir að mestu. Hafa þeir einhverntíma orðið að búa við skarðan kost. Þó getur hv. þm. Hafnf. komið hér og sagt: Við Hafnfirðingar viljum ekki nota okkar eigið land. Við viljum láta Flygenringsættina hafa það á leigu í 50 ár. Við viljum bara seilast í lönd hjá hinum fátæka nágrannahreppi okkar, honum til eyðileggingar. Í þessu sýnir sig góðgirni þessa þm. Vitsmunina hefir hann sýnt svo oft áður, að þeir eru þegar alkunnir.