28.04.1933
Efri deild: 58. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 776 í C-deild Alþingistíðinda. (4910)

171. mál, innflutningur á kjarnfóðri o.fl.

Atvmrh. (Þorsteinn Briem):

Ég vildi aðeins gera þá aths. út af því, sem hv. frsm. sagði um rannsókn á notagildi síldarmjöls til áburðar, að það hafa þegar verið gerðar tilraunir í því efni, en því miður hafa þær ekki enn sem komið er gefið eins glæsilega útkomu eins og ýmsir höfðu vænzt. En þeim tilraunum verður haldið áfram og verður þá framleiðendum til athugunar, ef útkoman verður svo sem æskilegt væri. Jafnframt vil ég benda á það, að ákvæði frv. eru ekki fyrst og fremst miðuð við innflutningsbann, heldur innflutningstakmörkun á þessum vörum. Ég geri ráð fyrir, að þegar nægileg rannsókn hefir farið fram, þá geti niðurstaðan orðið sú, að ekki þyki ráðlegt að banna algerlega, heldur takmarka innflutning á þessum vörum.

Ég geri ráð fyrir, að rannsóknin leiði það í ljós, að innlent kjarnfóður vanti kolvetni, og mun því verða að leyfa takmarkaðan innflutning á því kjarnfóðri, sem inniheldur þau efni sérstaklega; eins og t. d. maís, sem er nauðsynlegur til svínaeldis. En þá mun stj. líta svo á, að hún hafi heimild til þess að fyrirskipa það, að slíkt kolvetniskjarnfóður sé ekki selt nema blandað íslenzku síldarmjöli eða öðrum íslenzkum kjarnfóðurefnum, að líkum hætti eins og Norðmenn hafa farið að með erlent rúgmjöl til manneldis í landinu, þar sem ekki er leyft að selja útlent rúgmjöl, nema blandað innlendum korntegundum.

Að svo mæltu vil ég leggja til, að málinu verði vísað til 2. umr. og fái góðar viðtökur í hv. d.