28.04.1933
Efri deild: 58. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 784 í C-deild Alþingistíðinda. (4916)

171. mál, innflutningur á kjarnfóðri o.fl.

Atvmrh. (Þorsteinn Briem):

Hv. 1. landsk. hefir enn haldið langa ræðu, sem er að nokkru leyti almennar hugleiðingar. Ég vil þá stuttlega víkja að þessum almennu hugleiðingum hans um árið 1920. Ég nefndi þetta ár aðeins sem dæmi, af því að ég hygg, að það sé flestum minnisstætt. Hinsvegar var öllum mönnum kunnugt, áður en hv. þm. tók hér til máls, um þær miklu verðbreytingar, sem urðu á þeim missirum, en það raskar í engu þeirri niðurstöðu minni, að það borgi sig yfirleitt ekki fyrir bændur að setja á búðirnar. Þeim er hollara að setja á sínar eigin heybirgðir en að ætla sér, þegar í harðbakka er komið, að fara í kaupstaðinn og sækja það, sem á vantar. Slík hallærisráðstöfun hefir oft orðið bændum dýrkeypt.

Ég hygg, að hvað sem verðlagi líður, þá muni hrossarækt og sauðfjárrækt yfirleitt ekki borga sig á þennan hátt, nema þá á einstöku beitarjörðum, sem eru þá algerð undantekning.

Hv. 1. landsk. benti réttilega á, að það gæti staðið svo á, að menn, sem væru að byrja ræktun sína, freistuðust til að setja upp stærri bústofn en landið bæri og yrðu því að kaupa kjarnfóður, en ég hygg, að þetta frv., þó að lögum yrði, þurfi ekki að koma þar til baga, með því að kostur mundi á innlendu kjarnfóðri, sem væri þá aðeins að nokkrum hluta blandað erlendum efnum. Hitt tel ég misráðið, að stækka mjög bústofn sinn með það sérstaklega fyrir augum, að gripirnir séu nokkurskonar áburðarverksmiðjur. Það mun borga sig betur að haga fjölda gripa eftir því, sem sala afurða bendir til í hvert skipti.

Hv. þm. benti á það, að bezta landbúnaðarþjóð heimsins, Danir, væri nú búin að breyta landbúnaði sínum í iðnað, sem byggðist að miklu leyti á aðkeyptu kjarnfóðri. Ég hygg, að sú þjóð hafi nú fengið mörg mál til íhugunar í sambandi við það búskaparlag. Danir munu hafa fundið til þess á stríðsárunum, að erfitt getur verið að byggja þennan landbúnaðariðnað á vörum, sem fluttar eru frá öðrum löndum, og það mun síður en svo, að þeir standi vel að vígi með þennan iðnað sinn nú.