09.03.1933
Efri deild: 20. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 683 í C-deild Alþingistíðinda. (4917)

76. mál, byggingu og ábúð á jörðum, sem eru almannaeign

Flm. (Jónas Jónsson):

Ég hygg, að frv. í líku formi um þetta efni hafi ekki verið flutt áður á Alþ. Síðustu mannsaldrana hefir verið stefnt að öðru en erfðafestu á jörðum í eign hins opinbera; það hefir verið stefnt að sjálfseign. Á þeirri skoðun, að sú síðarnefnda leið væri heppilegri, hefir sala þjóð- og kirkjujarða byggzt. Þetta frv. blandar sé ekkert í það, hvort þeirri sölu skuli haldið áfram eða ekki, heldur snýr sér að því að tryggja erfðafestu á þeim jörðum, sem landið á og leigir út. Það er grundvallað á þeirri skoðun, að rétt sé að tryggja ættinni ábúð og að synir og dætur geti tekið við af foreldrum sínum, eins og jörðin sé í eign ættarinnar. Þetta er aðalkjarni frv., og meðferð þingsins fer eftir því, hvort það vill stuðla að því að tengja ættirnar fastar við jarðirnar eða ekki.

Því er ekki hægt að neita, að vonir manna um sjálfsábúðina hafa ekki rætzt nema að nokkru leyti. Fáar jarðir haldast í sömu ætt til lengdar, af ástæðum, sem ég hirði ekki um að fara út í hér. - Eins og sjá má á grg., er það Páll Zóphoníasson ráðunautur, sem manna mest og bezt hefir unnið að því að fræða menn um nauðsyn þessa máls, og hann á líka sinn þátt í því að undirbúa þetta frv. En þar sem hér er um nýmæli að ræða, má vel vera, að frv. sé í einhverjum atriðum ábótavant, og munum við stuðningsmenn þess taka öllum þörfum brtt. með þakklæti.

Ég vil svo að lokum óska þess, að frv. verði vísað til hv. landbn. að lokinni umr.