03.05.1933
Efri deild: 62. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 787 í C-deild Alþingistíðinda. (4929)

171. mál, innflutningur á kjarnfóðri o.fl.

Pétur Magnússon:

Ég vil gera grein fyrir því, að þó talið sé, að landbn. flytji þetta mál inn í þingið, þá er ég þó, og hefi verið frá því fyrsta, algerlega á móti því, að það verði samþ.

Ég er viss um, að ef slík ákvæði sem þessi, er banna eða takmarka innflutning kjarnfóðurs, hefðu komið frá mönnum úr Sjálfstæðisfl., þá hefðu þau af sumum verið kölluð hnefahögg á bændur og lítilsvirðing á þá. Það væri sagt, að þeim væri ekki trúað til þess að ráða fram úr því á eigin spýtur, hvernig þeir eigi að fóðra gripi sína. Og það er heldur ekki hægt annað að segja en að í frv. felist vantraust til bændastéttarinnar um að leysa þetta af hendi af eigin rammleik.

En þótt þessi ákvæði frv. verði gerð að 1., þá munu þau ekki orka því, að bændur hætti að fóðra gripi sína á útlendu kjarnfóðri, ef þeir annars telja sér það hagkvæmt. Þeir yrðu aðeins neyddir til að skipta um tegund. Þeir yrðu að hætta við að nota það kjarnfóður, sem þeir hafa talið sér hagkvæmast að nota hingað til, en verða í stað þess að nota matvörutegundir þær, sem inn eru fluttar til manneldis, t. d. rúgmjöl, enda mun það nokkuð notað nú. Með löggjöf myndi því reynast ógerlegt að fyrirbyggja notkun kjarnfóðurs, enda myndi það án efa reynast mjög óheppilegt. Það orkar ekki tvímælis, að margir af þeim, sem nota útlent fóður handa skepnum sínum, gera það sér til hagnaðar. Hér í nágrenni Reykjavíkur er kjarnfóður mikið notað, og sjálfsagt meira en nokkursstaðar annarsstaðar á Íslandi. Fjöldinn allur af kúm á þessu svæði eru því vanar við kjarnfóður, og það frá því að þær voru kálfar. Það hefir sagt mér fróður maður um þessa hluti, enda skiljanlegt, að ef kjarnfóðurgjöf er tekin af kúm, sem eru vanar henni, þá hrynji niður nyt þeirra. Og þær kýr, sem að eðlisfari eru nytháar, verða að hafa kjarnfóðurgjöf, ef þær eiga að gefa fullkominn arð. Ég skal taka það fram, að ég átti í morgun til við mann, er stendur fyrir þeirri verzlun, er mest verzlar hér með erlent kjarnfóður. Hann sagði mér, að þess mundu nú fá dæmi orðin, að bændur notuðu kjarnfóður óskynsamlega. Það hefði borið nokkuð á því fyrst. En bændur hefðu lært af reynslunni og væru nú flestir komnir á réttan rekspöl í þessu efni.

Að öðru leyti en þessu skal ég lítið um frv. þetta ræða frá eigin brjósti. Ég skal þó segja það sem álit mitt, að ég tel ákvæði 2. gr. heppileg að því leyti, að nauðsyn sé á, að sú rannsókn, sem þar um getur, fari fram. En það er skoðun mín, að það sé hlutverk Búnaðarfélags Íslands, sem það eigi að framkvæma án allrar íhlutunar Alþingis. Ég veit sannarlega ekki, hver eru hlutverk Búnaðarfélagsins, ef ekki þetta. Svo drjúgt hefir dropið til þess frá ríkinu, að ekki ætti að þurfa að ganga eftir því um að framkvæma jafnsjálfsagða rannsókn.

Að öðru leyti en þessu mun ég láta tala fyrir mig þann manninn, sem fróðastur mun vera um þessi efni, ráðunaut Búnaðarfélags Íslands í kúarækt. Ég hefi hér í höndum bréf frá honum, og þó það sé nokkuð langt, þá vona ég, að hv. þdm. hlusti á það með þolinmæði. Ég skal, með leyfi hæstv. forseta, lesa það upp, og er það þannig:

„BÚNAÐARFÉLAG ÍSLANDS

27. apríl 1933

Í dag hafa fleiri menn spurt mig að því, hvort það sé haft eftir mér sem starfsmanni Búnaðarfélags Íslands, sem haft er eftir Búnaðarfélaginu í greinargerð fyrir frumv. til laga um innflutning á kjarnfóðri. Þar sem svo er ekki, en þar sem það mál, er frumv. ræðir um, snertir allmjög minn verkahring, ætla menn, að villur þær og vitleysur, sem í greinargerðinni eru, séu frá mér runnar, og því finn ég ástæðu til að leiðrétta þær og lýsa því yfir, að undir mig hefir ekkert þessu máli viðvíkjandi verið borið.

Síðustu prentuðu verzlunarskýrslur eru frá árinu 1930. Þá er innflutningur á fóðurbæti það mestur, sem hann hefir orðið. 1931 má ætla, að hann hafi orðið heldur meiri, en 1932 miklu minni.

1932 nemur innfluttur fóðurbætir sem hér segir:

Hænsnafóður ............................... 263725 kg., sem kosta 61586 kr.

Svínafóður ................................. 61586 - - - 4456 -

Annað fóður, sem þá er mest handa mjólkurkúm ...................................1594963 - - - 329989 -

Í nefndri greinargerð er það haft eftir Búnaðarfélagi Íslands, að þessi fóðurbætir sé nægilegur til að framleiða 4 til 6 millj. kg. af mjólk. Þetta er megnasta fjarstæða og heimska, sem ekki má standa ómótmælt. Það verður að gera þær kröfur til þeirra, sem við Búnaðarfélag Íslands starfa, að þeir séu ekki svo mikil flón að halda, að þetta geti átt sér stað. Væri þessi fóðurbætir gefinn sem viðbótarfóður til kúa, sem hefðu nákvæmlega mátulegt viðhaldsfóður, þá myndi það nægja til að mynda um 3,5 millj. kg. mjólkur, en ættu kýrnar líka að lifa af þessu fóðri, þá mundi ekki vera hægt að framleiða á því meiri mjólk en um 800 þús. lítra mjólkur. Það sjá því allir, hvílík fjarstæða það er, sem í frumv. stendur, og hve fjarri sanni það er og hve lítt fyrirgefanlegt það er að bera Búnaðarfélag Íslands fyrir slíku.

Fyrst ég fór að leiðrétta þetta, þá skal ég jafnframt leyfa mér að benda nefndinni á það, að ákvæði frv. um bann á innflutningi á fóðurbæti eru ákaflega viðsjárverð.

Um innflutninginn á hænsnafóðri skal ég fátt segja. Það mun nú vera vilji allra, að við komumst það langt í hænsnaræktinni, að við getum eggfætt okkur sjálfa og þurfum ekki að flytja inn egg. Þetta getur náðst, og við erum ekki langt frá því að ná því. En ef það nú ætti að fara að neyða menn til að nota bara innlent fóður handa hænsnunum, eða nota handa þeim kornmat, sem fluttur er inn í landið og ætlaður til manneldis, þá er hæpið, hvort mönnum fyndist svara kostnaði að framleiða eggin.

Um svínafóðrið er það skemmst að segja, að þó það sé talið sér, sem beint er kallað svínafóður, þá er vitanlega mikill annar fóðurbætir, og þá sérstaklega maís, notaður til að gefa svínum. Væri tillit tekið til þessa, minnkaði mjólkurframleiðslan, sem hafa mætti á aðkeypta fóðurbætinum. Hitt er líka vitanlegt, að svínarækt er hér í byrjun og fullnægir ekki enn innanlandsþörfinni. Hana þarf því að örva, en ekki gera hana örðugri. Nú er það svo, að eitt af því, sem að er fundið af þeim, sem kaupa svínakjötið, er að það sé ekki eins gott og erlent flesk. Síldarmjöl getur ekki hér komið í stað erlenda fóðurbætisins, því sé það gefið að nokkru ráði, þá fæst ekki gott flesk, og byggi ég þetta á reynslu Norðmanna.

Það er því ekki gerlegt, ef það á að stefna að því að fullnægja innanlandsfleskþörfinni, að banna innflutning á svínafóðri.

Loks er svo fóðurbætisgjöfin handa mjólkurkúnum. Ef það á að keppa að því, að menn eignist og eigi arðsamar kýr, þá verður að fóðra þær að nokkru með fóðurbæti. Þetta skýrist með því að athuga,

að sé ársnyt kýrinnar ....... 2000 3000 4000 5000 6000

þá er viðhaldsfóðrið... 58% 48% 41% 35% 31%

og afurðafóðrið .. 42 - 52 - 59 - 65 - 69 -

Það sést því, að kýr, sem ekki mjólkar nema 2000 kg. um árið, skilar 42% af fóðrinu aftur í mjólk, en kýr, sem mjólkar 5000 kg., skilar 65%. Þetta gerir kýrnar fyrst og fremst misarðsamar. Nú er það svo, að hey er svo fyrirferðarmikið fóður, miðað við næringargildi, að kýrin getur ekki umsett meira af því en sem svarar því, að hún geti mjólkað tæp eða liðug 3000 kg. Allar hámjólka kýr þurfa því fóðurbæti, eigi þær að sýna fullt gagn, og fer þá eftir verði fóðurbætisins og verði mjólkuraukans, sem fyrir hann fæst, hvort það borgar sig að kaupa hann og gefa eða ekki. Hér má oft nota síldarmjöl, en með því þarf oftast kolvetnisríkan fóðurbæti, og hann er ekki til í landinu, heldur verður að flytja hann inn, og getur ekki komið til mála að banna slíkt.

Af þessu vil ég vona, að nefndin sjái: að það er ekki frá mér vitleysan, sem Búnaðarfél. Íslands hefir borið fyrir í greinargerðinni, að ég tel, að til landsins verði að flytja hænsnafóður, að ég tel, að ekki verði komizt hjá því að flytja inn fóður handa svínum, eigi að komast hér á fót sú svínarækt, sem fullnægi fleskþörf landsmanna, og að ég tel, að óumflýjanlegt sé að flytja til landsins kolvetnaríkan fóðurbæti til að gefa þeim kúnum, sem mest geta umsett og gefa langbeztan arð, eigi þær að hafa nóg að gera og geta unnið eigendum sínum fullt gagn.

Þá skal ég benda á það, enda þó að mér verði aldrei kennt það, að það er hæpin fullyrðing um heyaukann af nýræktinni í nefndarálitinu. Nýrækt og túnasléttur voru ekki aðskildar í skýrslum, og því getur enginn sagt með vissu, hve margir hektarar af því, sem talin er nýrækt í nefndarálitinu, eru úr gömlum túnum og hvað utan túns.

Eftir áætluninni um heyaukann ætti nýræktin að gefa 111820 hestburði, en allur töðufengurinn á nefndu svæði er 332735 hestar. Það er því þriðjungur töðufengsins, sem ætti að vera af nýræktinni. En töðuaukinn á þessu tímabili er ekki nema um helmingur af því, sem eftir útreikningnum ætti að vera af nýræktinni. Mætti því svo vera, að nokkuð af henni hefði verið gert í gömlum túnum, og annar hluti af henni væri ekki kominn í rækt, en hvort heldur sem er, verða ekki fóðraðar kýr á þeim heyauka nú, og þarf því ekki hans vegna að hætta við að flytja inn fóðurbæti.

Ég vona, að nefndin athugi þetta og sjái um, að villur þær, sem ég hefi bent á, að eru í nefndarálitinu, verði leiðréttar, svo það sjáist síðar meir, að menn voru ekki svo vitlausir 1933 að halda, að framleiða mætti 4 til 6 millj. kg. af mjólk á 1,59 millj. kr. af fóðurbæti, sem að hálfu leyti er maís og klið (752993 kg.).

Virðingarfyllst

Páll Zophoníasson.

Til landbúnaðarnefndar efri deildar Alþ. Reykjavík“.

Eftir að menn nú hafa heyrt álit þessa manns, sem fróðastan má telja í þessum efnum allra landsmanna, þykir mér ósennilegt, að deildin leggi blessun sína yfir þetta frv. með því að samþ. það.