01.03.1933
Neðri deild: 13. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 669 í B-deild Alþingistíðinda. (493)

4. mál, bifreiðaskatt og fl.

Atvmrh:

(Þorsteinn Briem): Hæstv. forsrh. hefir þegar svarað að nokkru leyti því, sem hv. 2. þm. Rang. sagði í garð ríkisstj. viðvíkjandi ráðstöfun á flutningastyrk þeim, sem veittur er í fjárlögum n. á. til sveitanna á Suðurlandsundirlendinu. Hv. 2. þm. Rang. er vel kunnugt um það, að ég vildi einmitt í samvinnu við hann kynna mér tillögur manna á Suðurlandsundirlendinu um það, hvernig þeir óskuðu, að þessum styrk væri niður skipt. En meðan hann var að kynna sér hugi manna hvað þetta snerti í sínu kjördæmi, kom til mín bein ósk frá hlutaðeigendum í Árnessýslu um það, að styrknum yrði ekki úthlutað sem beinum flutningastyrk eftir vegalengd og flutningsþunga, heldur væri hann greiddur sem aukastyrkur til sýsluvegagerða í viðkomandi sýslum. Þessi ósk kom fram frá stj. Mjólkurhússins í Flóanum og frá sýslumanni Árnesinga í samráði við nokkra af sýslunefndarmönnum hans. Ég býst því við, að ef ekki kemur annað fram um vilja Árnesinga um þetta efni heldur en þær einróma raddir, sem nú eru komnar, þá verði þær teknar til greina, að því er snertir þá sýslu. En ég vil geyma mér rétt til þess að kynna mér betur vilja Rangæinga í þessu máli, því ég hefi heyrt raddir þaðan, sem fara í gagnstæða átt við það, sem fram kom hjá hv. þm. Ég býst ekki við, að Rangæingar yfirleitt telji aukaframlag til sýsluveganna einskis virði, eins og hv. þm. virðist gera.

Um málið almennt séð vil ég taka það fram, að á síðastl. ári, þegar tekin var ákvörðun um vegaviðhald og vegagerðir á því sumri, þá virtust alls ekki vera tök á að verja eins miklu og þó var gert til þeirra framkvæmda, ef l. um skatt þann, sem hér er um að ræða, hefðu þá ekki verið að komast í framkvæmd. Ég hygg, að það hefði á þeim tíma ekki getað talizt fært að áætla eins mikið fé til vegagerða, eins og gert var, ef l. um bifreiða- og benzínskatt hefðu þá ekki verið að koma í gildi. Og hvað framtíðinni viðvíkur, þá hygg ég, að það verði vart leið til þess að leggja jafnmikið af nýjum vegum og áður, jafnframt því sem halda þarf við gömlu vegunum, nema slíkur tekjustofn fáist.

Ég hefi átt tal við allmarga menn, sem haft hafa á hendi mjólkurflutning á Suðurlandsundirlendinu. Og þeir hafa litið svo á, eins og landsmenn munu almennt gera, að leiðin til þess, að flutningar á landi, og þá mjólkurflutningar líka, verði sem ódýrastir, sé sú, að gera vegina sem bezta. En góða vegi mun ekki hægt að gera að ráði, í því árferði sem nú er, nema essi tekjustofn fái að haldast, til viðbótar þeim tekjustofnum, sem að öðru leyti er gert ráð fyrir að veittir verði á þinginu.