03.05.1933
Efri deild: 62. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 797 í C-deild Alþingistíðinda. (4937)

171. mál, innflutningur á kjarnfóðri o.fl.

Pétur Magnússon:

Hv. 1. landsk. hefir nú tekið fram flest það, er ég þurfti að segja í þessu máli. - Hv. 3. landsk. játaði í ræðu sinni, að undir vissum kringumstæðum gæti verið ástæða til þess að gefa kjarnfóður með heyi, en þrátt fyrir það sagði hann, að engin ástæða væri til að flytja inn kjarnfóður, því nóg væri af því framleitt í landinu sjálfu, og átti hann þá vitanlega við síldarmjölið. En ég vil henda honum á það, að í grg. frv. er einmitt gert ráð fyrir því, að hægt sé alveg að komast hjá því að nota kjarnfóður. Þar er á bls. 2 sagt, með leyfi hæstv. forseta: „Með því verði, sem verið hefir á heyi að undanförnu, ætti kaupstöðum þeim og kauptúnum og hinu næsta nágrenni þeirra, sem nú byggja mjólkurframleiðslu sína í verulegum mæli á aðfluttu kjarnfóðri, ekki að vera þetta að neinu leyti óhagkvæmara á þeim stöðum, þar sem sæmileg aðstaða er til þess að ná að sér heyinu, sem víðast hvar er“.

Hér kemur það greinilega fram, að gengið er út frá því, að hætt verði að nota kjarnfóður á þessum stöðum, en aðkeypt hey komi í staðinn. Mér þótti nú vænt um að heyra hæstv. atvmrh. játa það, að aðstaðan geti verið þannig, að það geti borgað sig að nota kjarnfóður á vissum stöðum, og það er engin hætta á því, eins og hv. l. landsk. hefir bent á, að á þeim stöðum muni framleiðendurnir ekki nota frekar hið íslenzka kjarnfóður en hið útlenda, ef þeir finna, að þeim er það til meiri hagsbóta. Yfirleitt nota menn fremur innlenda framleiðslu en útlenda, ef þeir telja sér eigi tjón að því. En verzluninni með hið innlenda kjarnfóður hefir nú verið svo sárlega illa fyrir komið, að það hefir víða ekki verið hægt að nota þessa vöru. Hitt aftur á móti, að neyða menn til þess að nota innlent kjarnfóður, hvort sem það er heppilegt eða ekki, ætti ekki einu sinni að geta komið til mála.

Ef gengið er út frá því, að innlent kjarnfóður verði notað hér í stórum stíl, þá er augljóst, að þar er átt við síldarmjölið, en því hefir nú verið þann veg háttað með það, að fyrir það hefir oftast fengizt gott verð á erlendum markaði, en við það verð yrði vitanlega að miða söluverð hér heima. Fyrir framleiðendur síldarmjölsins er því ekki sýnilegur hagar af þessu frv., og fyrir neytendurna ekki heldur, svo framarlega, sem þeir geta fengið erlent kjarnfóður með jafngóðum kjörum, og ef það fæst með betra verði eða er notað með betri árangri, þá er augljóst tjón af innflutningsbanni á því. Og fyrir landið í heild er ekki hægt að sjá, að bannið verði að neinu gagni, því vitanlega er það sama með tilliti til verzlunarjafnaðar, hvort flutt er inn ákveðið vörumagn eða ekki, ef samsvarandi mikið meira er flutt út af annari vöru í staðinn. Hér á því ekki annað að ráða en það, hvaða kjarnfóður notendunum er heppilegast.