03.05.1933
Efri deild: 62. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 801 í C-deild Alþingistíðinda. (4941)

171. mál, innflutningur á kjarnfóðri o.fl.

Atvmrh. (Þorsteinn Briem):

Ég ætla aðeins að gera örstutta aths. út af orðum hv. 4. landsk. Hann hélt því fram, að ég hefði fallið frá því, að nauðsynlegt væri að nota fóðurbæti með töðu handa mjólkurkúm, en þetta er hreinn misskilningur hjá honum. Ég tók það skýrt fram við 1. umr., að ég teldi þurfa að nota fóðurbæti, en það mætti alveg eins vera innlendur fóðurbætir, ef til vill blandaður með erlendum, til þess að mjólkurkýr sýndu sem mest gagn.

Viðvíkjandi því, sem hann var að tala um, að ekki væri hætta á því, að bændur notuðu ekki innlendan fóðurbæti fremur en útlendan, ef hann reyndist samkv. rannsókn jafngóður eða betri, þá er því til að svara, að hann hefir nú víða ekki verið á boðstólum í kaupstöðum landsins, og bændur hafa því spurt forgefins eftir þeirri vöru. Það er auðskilið, að heildsalarnir halda fremur í þau erlendu sambönd, er þeir hafa hingað til notað, en að breyta til, ef sérstök ástæða er ekki til þess fyrir þá.

Viðvíkjandi því, að síldarmjölið sé dýrara en erlent kjarnfóður og að auðvelt sé að selja það til útlanda, þá er því að svara, að komið hefir fyrir, að sú sala hefir gengið fullerfiðlega, svo að framleiðslan hefir verið takmörkuð vegna of lítillar eftirspurnar, og þó ekki verið hægt að fá nógan erlendan markað fyrr en seint og síðar meir. Og það er alveg víst, að ef síldarmjölinu bættist innlendur markaður, sem því svaraði, að hægt yrði að selja innanlands það, sem af gengi erlenda markaðinum, þá gætu framleiðendur síldarmjölsins stundað sína atvinnugrein með bjartari huga en annars. Svo er á það að líta, að eðlilega mundi framleiðslan verða ódýrari, ef hún gæti vaxið, og ef selt væri innanlands það, sem fóðurbætisþörfin tekur á móti, væri ekki nema sanngjarnt, að innlendir kaupendur fengju að njóta sérstakrar verðlækkunar á síldarmjölinu.