03.05.1933
Efri deild: 62. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 801 í C-deild Alþingistíðinda. (4943)

171. mál, innflutningur á kjarnfóðri o.fl.

Magnús Torfason:

Eftir því sem málið horfir við nú í umr., má ætla, að ekki beri jafnmikið á milli og í fljótu bragði mætti virðast. Það er játað af öllum, að 2. gr. frv. er góð og gagnleg, en það virðist hinsvegar, eins og ég tók fram við 1. umr., að efni frv. sé ekki fyrir komið á sem heppilegastan hátt. Það er ætlazt til þess, að 1. og 3. gr. eigi aðeins að gilda til 1. júlí 1935. Með því er sýnt, að mest áherzla er lögð á 2. gr., þar sem hún á að hafa varanlegt gildi. Rannsókn á innlendu kjarnfóðri er því aðalkjarni þessa frv., og eftir að hafa hlustað á yfirlýsingar stj. á þessu máli, þá er ég ekki hræddur um, að hún noti þessa heimild, nema rannsóknin leiði í ljós, að það sé heppilegt.

Fyrir mitt leyti legg ég mesta áherzlu á rannsóknina, og þó að ekki þurfi lagasetningu til þess að fá hana framkvæmda, þá tel ég það miklu betra fyrir stj. Ég hefi heyrt menn hér, sem hafa kýr, láta í ljós, að innlendi fóðurbætirinn muni ekki eins góður og sá erlendi. Þetta er ekki gott, ef rétt væri. En ef rannsókn skyldi leiða hið gagnstæða í ljós, þá mundi það efla trú á innlendum fóðurbæti, og frá því sjónarmiði ætti það illa við að drepa þetta frv. einmitt í þeirri einu íslenzku viku, sem við höfum af þeim 52 vikum, sem eru í árinu.