14.03.1933
Efri deild: 24. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 691 í C-deild Alþingistíðinda. (4955)

96. mál, eignarnámsheimild á nokkrum löndum og afnotarétti landsvæða í Hafnarfirði

Guðrún Lárusdóttir:

Það má segja, að hér springi nú út þriðja mýrarsóleyjan í þessari hv. d. Ég ætla ekki að taka afstöðu til þessa frv. í heild við þessa umr., heldur aðeins til eins atriðis í því, sem ég er mótfallin, og mér þykir rétt að gera aths. við þegar við þessa umr. Hv. flm., 2. landsk., fór lofsamlegum orðum um ræktunaráhuga Hafnfirðinga og talaði um þá miklu þörf á ræktunarlandi, sem þarna væri fyrir hendi. Ég skal ekki mótmæla því, að hv. þm. fari hér með rétt mál; en ég vil aðeins benda honum á það, að til er önnur tegund ræktunar, sem ekki er síður þörf en þeirrar, er þetta frv. gerir ráð fyrir, og það er heilsuræktun í mannfólkinu. Það er svo ástatt með jörðina Kópavog, sem er ein af þeim, er frv. gerir ráð fyrir, að tekin verði eignarnámi, að hún er í ábúð kvenfélags hér í Reykjavík, senn heitir Hringurinn og beitir sér fyrir heilsuræktun. Hefir félagið aðallega snúið starfsemi sinni gegn berklaveikinni. Í upphafi er þetta félag stofnað af fáeinum áhugasömum konum hér í Rvík og aðalhugmyndin var að hjálpa berklaveikum börnum, og hefir starf þessa félags víða komið að góðu gagni. Félagið Hringurinn hefir nú látið reisa vandað hressingarhæli í Kópavogi, sem starfar í anda berklavarnalaganna og er einkum fyrir þá sjúklinga, sem eru það heilbrigðir, að þeir eiga ekki vel heima á öðrum berklahælum í landinu. Félagið hefir ekki farið fram á að fá neinn styrk frá ríkinu til stofnunar þessa hælis. Það skal þó viðurkennt, að ég held á þinginu 1924 hafi verið samþ. þál. um að fela stj. að láta félagið hafa land jarðarinnar Kópavogs endurgjaldslaust um óákveðinn tíma, eða meðan það ræki þar þá starfsemi, sem það nú rekur. Það má náttúrlega segja, þó þetta sé ekki beint fjárframlag frá ríkissjóði, þá sé það mikill styrkur fyrir félagið, og skal það játað. En ef nú á að fara að ganga svo nærri starfsemi kvennanna að taka allt land Kópavogs frá þeim, að undanteknum 20 hekturum, verð ég að telja, að þær séu illu beittar og starfsemi þeirra hnekkt til muna. Þær hafa sem sé hugsað sér nýjan viðbótarlið í starfseminni, sem er að reisa og starfrækja barnaheimili fyrir veikluð börn úr Rvík, sem eru ýmist blóðlítil eða kirtlaveik, og konurnar hafa hugsað sér að byggja þetta hæli á þeim stað, þar sem Kópavogsland er bezt til ræktunar. Hingað til hefir efnaskortur hindrað framkvæmd þessarar hugmyndar, en áhuginn fyrir henni er mikill hjá félagskonum og sérstaklega er áherzla lögð á það, að stofnsett verði í sambandi við þetta hæli bú, er verði nægilega stórt til þess að mjólkurfæða og eggfæða hælisfólkið og yfirleitt fullnægja þörfum þess eftir því, sem hægt er og þörf gerist. Ég tel, að hér sé um mjög varhugaverða ráðstöfun að ræða, ef nokkuð það verður aðhafzt, sem eyðileggur eða tefur þessar þörfu fyrirætlanir félagsins. Þetta vildi ég taka fram strax. Get ég því ekki gefið frv. með þessu ákvæði mitt atkv.

Mér virðist svo, að það sé bein skylda hins opinbera að styðja alla þá, sem vilja vinna að heilbrigðismálunum í landinu, og hér er félag, sem áreiðanlega gerir það.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta mál, en vil taka það fram, að það, sem ég hefi sagt um fyrirætlanir og áhugamál kvenfélagsins Hringsins, er í fullu samræmi við vilja þeirra kvenna, sem þar eiga hlut að máli.