14.03.1933
Efri deild: 24. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 698 í C-deild Alþingistíðinda. (4960)

96. mál, eignarnámsheimild á nokkrum löndum og afnotarétti landsvæða í Hafnarfirði

Flm. (Jón Baldvinsson):

Ég held, að aðalástæðan til þess að hv. 2. þm. Árn. stóð nú aftur upp, hafi verið sú, að hann vildi slá því föstu, að við séum sammála um aðalatriðin í þessu máli. En hann kryddaði ræðu sína með ýmsum útúrdúrum og talaði um smáatr. Eitt af því var tilhneiging hans til þess að gera lítið úr þekkingu og áhuga á ræktun meðal bænda í Ísafjarðarsýslu, og sagði hann á þá leið, að þar mundi jarðabótaáhugi lítt hafa komið fram fyrr en á síðustu árum. Ég vil aftur á móti halda því fram, að meðal bænda við Ísafjarðardjúp hafi áhugi á jarðrækt verið jafnmikill og annarsstaðar á landinu, og jarðabótaframkvæmdir hafi á öllum tímum verið álíka þar og eigi minni en í öðrum landshlutum. Og ég veit þess dæmi, að þar voru bændur, sem sköruðu fram úr, og það svo um munaði, um áhuga og dugnað við jarðrækt.

Ég játa það, að ég hefi ekki fylgzt eins vel með ræktunarframförum hér á landi og bændurnir sjálfir, eða t. d. hv. 2. þm. Árn., en ég hefi þó fylgzt það vel með, að ég hefi orðið var við, þegar stökk hafa komið í ræktunina. Annars held ég, að hv. þm. ætli bændunum hér í d. allt of mikla hæversku, ef hann heldur, að þeir mundu hika við að standa upp og verja stétt sína, ef með þyrfti. Ég geri ráð fyrir því, að hvaða bóndi hér í d. sem væri mundi standa upp og tala hispurslaust máli bændastéttarinnar, ef honum fyndist nauðsyn bera til. Og ég vil fastlega halda því fram, að það hafi ekki falizt neitt niðrandi um bændastéttina í þeim orðum mínum, að ræktun í stórum stíl hafi ekki byrjað fyrr en á síðustu áratugum.

Hv. þm. talaði langt mál um horfellinn. Ég drap aðeins á hann, og það að gefnu tilefni. Hv. 2. þm. Árn benti á ræktunaráhuga Hjörleifs landnámsmanns sem dæmi, og ég tók þá dæmi af öðrum landnámsmanni, sem ekki hafði haft sérstaklega mikinn áhuga á búskapnum. En það, sem hv. þm. vildi draga út úr orðum mínum, að ég væri að skensa íslenzka bændur fyrir horfellinn, er mesti misskilningur. Bændastéttin sem heild hefir alltaf haft illan bifur á horkóngunum, svo að það er alls ekki veitzt að henni, þó að horfellinum sé ámælt. En ég vona, að þessar umr. hafi ekki dregið athygli hv. dm. um of frá aðaltilgangi frv., sem er hér til umr., nefnilega þeim, að gera fleiri mönnum mögulegt að lifa af ræktun en hingað til.

Viðvíkjandi ræðu hv. 6. landsk. get ég látið mér nægja að geta þess, að þegar í fyrri ræðu minni viðurkenndi ég dugnað kvennanna við að koma upp hressingarhæli, en skýrði um leið frá þeirri staðreynd, að ríkissjóður hefði greitt meðlag með sjúklingum þar. En í ræðu hv. 6. landsk. kom ekkert það fram, sem benti til þess, að Hringurinn eða hressingarhælið þyrfti á öllu þessu landi að halda. Ef konurnar hafa í hyggju að byggja nýtt hressingarhæli, þá eru víða til lönd, vel fallin til ræktunar, þótt þetta sé undan skilið. Ég skildi ekki almennilega það, sem hv. þm. sagði um mannúðarmálin. Mér fannst hún vera að áfella mig fyrir það að vilja taka land af félagi, sem starfaði að mannúðarmálum. Ég vil halda því fram, að þetta frv. sé fullkomið mannúðarmál, sem sé að skapa fleiri mönnum möguleika til þess að bæta sín efnalegu lífskjör. Og ekki sízt vegna þess, hvað þetta er mikið mannúðarmál, vona ég, að hv. 6. landsk. verði því fylgjandi.